Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 16:28:00 (4413)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns fagna því hve umræðan í dag hefur tekið um margt aðra stefnu en þá sem við heyrðum hér í fyrri hluta umræðunnar. Ég fagna því að formaður umhvn. er allur að mýkjast og ætlar vonandi að taka málið til rækilegrar skoðunar í þeirri nefnd sem málið heyrir undir.
    Ég vil geta þess að ég er sammála meginhugsuninni sem felst í frv. því hún er fyrst og fremst sú að horfa á náttúruvernd, friðun og vernd villtra fugla og spendýra út frá því sjónarmiði að það beri að

vernda náttúruna og að bæði fuglar og villt spendýr eigi nokkurn rétt til lífs. Mér þótti fyrri hluti umræðunnar bera þess mjög vott hve langt við eigum í land í allri umræðu um náttúruvernd og hve sú umræða er á margan hátt frumstæð. Menn standa upp og segja: Hvað er þetta, megum við ekki fara hér um með byssu og skjóta rjúpur?
    Í rauninni held ég að hér séu nokkuð dýpri tilfinningar á ferðinni því með frv. rekast vissulega á reglur sem gilt hafa í okkar samfélagi í meira en þúsund ár og svo aftur ný sjónarmið sem ganga út á að okkur beri að vernda og virða náttúruna --- og reyndar ekki seinna vænna.
    Við þekkjum úr okkar sögu að menn hafa nýtt náttúruna á ýmsan hátt en það er ákaflega merkilegt rannsóknarefni, finnst mér, hvernig og hvaða viðhorf eru ríkjandi í því sambandi. Það er ákaflega merkilegt að hugsa um það hvaða fugla við nýtum meðan aðrar fuglategundir, t.d. mófuglar, njóta algjörrar friðunar, fuglar sem þykja mikið lostæti í útlöndum og ég held að engum Íslendingi dytti í hug að leggja sér til munns. Ég veit ekki hvað gerðist í þjóðfélaginu ef það fregnaðist að menn væru farnir að leggjast á lóu og spóa sem erlendis þykir hið mesta lostæti. Þetta mótar að nokkru leyti viðhorf okkar til dýrategunda. Við rekum ákaflega merkilegt starf yfir vetrartímann og þykir útlendingum, sem hingað koma, afar merkilegt að sjá hvernig við hugsum um staðfugla okkar, gefum þeim korn og reynum að halda í þeim lífinu en aðrar tegundir eru álitnar nánast réttdræpar. Þetta er menningarbundið og þetta á sér langa sögu sem að mörgu leyti er erfitt að skýra.
    Mér fannst að þau sjónarmið, sem komu fram í fyrri hluta umræðunnar, falla mjög undir það sem ég vil kalla vestræn viðhorf til náttúrunnar og ganga út á það að maðurinn eigi allan rétt gagnvart náttúrunni. Þessi viðhorf hafa einkennt hinn vestræna heim um þúsundir ára en hjá öðrum þjóðum í öðrum heimshlutum hafa verið ríkjandi allt önnur viðhorf. Þetta er annars vegar spurningin um það að ráða yfir náttúrunni, sveigja hana undir vilja sinn og hins vegar það að lifa með náttúrunni. ( GunnS: Gera hana sér undirgefna.) Já. Einmitt af því að presturinn nefndi þetta þá er ég með ljósrit úr fyrstu bók Móse og ætla að rifja upp þetta viðhorf sem hefur verið gegnumgangandi og er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: ,,Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.````
    Nákvæmlega þetta viðhorf hefur verið ríkjandi í hinum vestræna heimi og hefur leitt til þess ásamt tæknibreytingum, misjafnlega hollum fyrir mannkynið og samfélögin, að við stöndum frammi fyrir gífurlegum vandamálum í náttúrunni sem bæði snúa að dýraríkinu, jurtaríkinu og öllu mannlífi.
    Mig langar áður en ég kem að sjálfu frv. að vitna í aðra heimild þar sem þessum viðhorfum hins vestræna heims er lýst sem eins og ég sagði áðan hefur leitt af sér afar mikla eyðileggingu á jörðinni. Þetta er úr ræðu sem indíánahöfðingi, sem hét Seattle, flutti árið 1854 þegar hann var að svara beiðni Bandaríkjaforseta um land indíána. Hann segir 1854, með leyfi forseta:
    ,,Vér gerum oss ljóst, hinn hvíti maður skilur ekki lífshætti vora. Ein skák lands er honum ekki meira virði en hver önnur. Hann er gestur um nótt sem hrifsar það af borðum sem hann þarfnast. Jörðin er ekki systir hans heldur mótstöðumaður og þegar hann hefur yfirbugað hana flytur hann sig bara um set. Hann skilur grafir feðra sinna eftir slyppar og snauðar og kærir sig kollóttan. Hann rænir jörðinni frá sínum eigin börnum.
    Hinn hvíti maður meðhöndlar svo móður sína jörðina og bróður hennar, himininn, sem hún væri eitthvað sem má plægja, rupla eða selja eins og kvikfénað eða glerperlur sem ganga kaupum og sölum. Lítt seðjandi græðgi hans blóðmjólkar jörðina og skilur hana eftir flakandi í sárum blásandi foksanda.
    Hvað er maðurinn sviptur dýrunum? Þegar öll dýrin eru burt sópuð af ásýnd jarðar þá mun maðurinn tærast upp í einsemd sálar sinnar því að það sem kemur fyrir dýrin mun einnig koma fram við manninn og fyrr en hann uggir. Allir hlutir eru bundnir á einn streng.``
    Þetta var viðhorf indíánahöfðingjans sem ég held að við getum mikið af lært. Við erum nefnilega hluti af einni stórri keðju sem þarf að hanga saman og ég held svo sannarlega að tími sé til kominn að við Íslendingar förum að breyta viðhorfum okkar til náttúrunnar og látum verndarsjónarmið sitja þar í fyrirrúmi í stað þess að taka okkur allan rétt til þess að nýta og ganga á lagið eftir því sem okkur þóknast.
    Það kann að vera að ýmislegt sem varðar efni þessa frv. kunni að reynast erfitt í framkvæmd. Það verður að koma í ljós. En ég tek fyllilega undir það sjónarmið að ég held að það sé mjög nauðsynlegt að fylgjast mjög vel með veiðum villtra dýra, bæði fugla og spendýra, ekki síst til þess að við fáum einhverja hugmynd um ástand þessara stofna því að það er staðreynd að við vitum ákaflega lítið um stærð og ástand hinna ýmsu stofna hvort sem þar er átt við fugla eða landdýr eða sjávardýr. Menn hafa m.a. fengist töluvert við það að rannsaka refinn og vita nokkuð gjörla um útbreiðslu hans en mér er reyndar ekki vel kunnugt um það hvort menn gera sér grein fyrir stærð stofnsins.
    Ég vil undirstrika það að ég tel mikla þörf á því að fylgjast vel með skotvopnum, fjölda þeirra og gerð og þegar menn tiltaka stærð og gerð þeirra skotvopna sem nota þarf við hinar ýmsu veiðar, þá er það auðvitað með það að sjónarmiði að þegar menn eru á dýraveiðum verði dauði viðkomandi dýra sem skjótastur og valdi sem minnstum kvölum því að fátt er hægt að hugsa sér ógeðslegra en drápsaðferðir sem valda löngu og kvalafullu dauðastríði. Ég man ekki eftir slíkum aðferðum við veiðar hér. Þær eru að miklu

leyti horfnar og m.a. er í þessu frv. verið að undirstrika bann við ýmsum þeim veiðiaðferðum sem tíðkuðust áður fyrr og voru vægast sagt ógeðfelldar, en mér dettur í hug veiðiaðferðir sem breski aðallinn stundar þegar hann er á refa-, kanínu- og héraveiðum og eru vægast sagt andstyggilegar að mínum dómi. Þess vegna fagna ég þeirri meginhugsun sem gengur hér í gegn að reyna að sjá til þess að þegar um veiðar er að ræða sé dauðinn sem skjótastur og valdi sem minnstum kvölum.
    Töluvert mikið er rætt um tjón af völdum villtra dýra í frv. og þarna finnst mér nýtingarsjónarmiðin vera nokkuð gegnum gangandi því að í mörgum tilfellum þar sem um tjón er að ræða er auðvitað um að ræða hluta af lífsbaráttunni og mikil spurning hversu menn eiga að grípa þar inn í. Vissulega þar sem miklir hagsmunir eru í húfi eins og við æðarfuglsrækt þá skilur maður auðvitað þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að reyna að verja fuglinn og sjá til þess að þar verði ekki of mikill skaði.
    Ég vil taka undir með hv. 2. þm. Vestf. þar sem hann setur vissar efasemdir við minkinn. Að vísu kemur fram hér í frv. að ekki er hægt að útrýma honum og miklu betra að einbeita sér að því að hann valdi sem minnstu tjóni. Minkurinn er skaðræðisskepna og hann er aðfluttur. Hann tilheyrir ekki upprunalegu dýralífi okkar og er einmitt dæmi um það hvernig menn hafa gripið inn í gang náttúrunnar. Minkurinn er ákaflega fljótur að fjölga sér og illviðráðanlegur en ég held þó að ástæða sé til þess að reyna að halda hinum villta minkastofni sem allra minnstum.
    Ég hef lengi verið mikill aðdáandi íslenska refsins. Mér þykir hann fögur skepna og ég hef verið með þá hugmynd að hér ætti einhvers staðar að vera griðland fyrir íslenska refinn þannig að hann væri algerlega friðaður. Að vissu marki gengur þetta frv. til móts við slíkar hugmyndir. Í rauninni er verið að friða refinn en veittar eru undanþágur til þess að veiða hann. Ég vil samt varpa hér fram þeirri spurningu hvort ekki sé ástæða til þess að friða refinn algerlega, t.d. á landsvæðum eins og Hornströndum. Íslenski refurinn var kominn hingað á undan mannskepnunni og á hér auðvitað nokkurn tilverurétt.
    Hv. 2. þm. Vestf. kom inn á nýtingu ýmissa fuglategunda hér á landi, þar á meðal fálkans og rjúpunnar. Það er staðreynd að Íslendingar höfðu miklar tekjur af þessum fuglum á öldum áður, sérstaklega fálkanum. Það var einmitt gengið svo nálægt fálkastofninum að þar kom að menn urðu að grípa í taumana og friða fálkastofninn algerlega. Við höfum dæmi um fuglategundir sem hefur algerlega verið útrýmt og svo kann að fara ef ekki verður gripið í taumana að annarra tegunda bíði sömu örlög þannig að ekki er seinna vænna að grípa í taumana.
    Það má gjarnan minnast á það þegar menn eru að gera athugasemdir við það að veiðimenn skuli settir undir eitthvert eftirlit og þurfi að greiða gjald og afla sér veiðikorts að ekki er síður ástæða til þess að fylgjast vel með veiðimönnum og væri gaman að vita hversu mikinn kostnað þjóðfélagið ber af eltingaleik við rjúpnaskyttur upp um allar heiðar. Það er ekki lítið sem þeim fylgir.
    Eins og ég nefndi í upphafi máls míns erum við hér að fást við nokkrar nýjungar í íslenskri náttúruvernd og rekst frv. að sumu leyti á við þær hefðir sem hafa verið ríkjandi en menn þurfa að skoða þetta mjög rækilega. Ég tek undir það með formanni umhvn. að menn þurfa auðvitað að velta rækilega fyrir sér þeirri framkvæmd, hvernig á að fylgja þessu eftir og hvernig hægt verði að framkvæma þessi atriði sem hér er kveðið á um, en niðurstaða mín er sú að þetta frv. sé í meginatriðum mjög gott og mikil framför í náttúruvernd og að það sé löngu tími til kominn að við förum að átta okkur á því að hin vestrænu viðhorf sem ég rakti áðan ganga ekki lengur. Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar gagnvart náttúrunni og nýtingu á henni, koma á jafnvægi manns og náttúru, bera virðingu fyrir náttúrunni og lífríkinu því að öðruvísi bíður okkar ekki nokkur framtíð, hvorki okkar né komandi kynslóða.