Umferðarlög

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:08:00 (4439)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Um þetta mál náðist gott samkomulag í hv. allshn. og óþarfi að fara um það mörgum orðum. Strax kom fram í áliti meiri hluta nefndarinnar, sem lagt var hér fram, að meiri hlutinn taldi nauðsynlegt að í reglugerð sem dómsmrn. setur á grundvelli þeirrar breytingar sem verið er að gera hér á lögunum verði kveðið á um þær gæðakröfur sem gera á til ökunámsins, m.a. að því er varðar námsskrár og námsefni og þær kröfur sem þeir aðilar verða að uppfylla sem ætla að annast ökukennslu. Auk faglegra sjónarmiða mæla rekstrarleg sjónarmið með því að færa umsjón ökukennslu frá Bifreiðaprófum ríkisins til Umferðarráðs.

    Þetta kemur fram í áliti okkar meiri hlutans og síðan barst þetta bréf frá Ökukennarafélaginu sem allir þingmenn fengu sent og varð tilefni til þess að efnt var til fundar í allshn. með fulltrúum frá Ökukennarafélaginu og dómsmrn., eins og fram hefur komið, auk þess sem formaður Umferðarráðs sat þann fund. Á þeim fundi kom þessi hugmynd fram frá hv. 2. þm. Suðurl. að breyta orðalagi og bæta orðum við 3. gr. og um það náðist góð sátt í nefndinni. Ég held því að með þessu hvoru tveggja, nál. og þeirri áréttingu sem fram kemur í brtt. sem hér er til umræðu, hafi verið komið vel til móts við þau sjónarmið sem fram hafa komið frá ökukennurum. Auðvitað ætti að geta ríkt gott samkomulag um afgreiðslu þessa máls. Ég vil aðeins ítreka það sjónarmið að um þetta náðist gott samkomulag í nefndinni.