Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:19:00 (4443)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tala fyrir till. til þál. um endurskoðun iðnaðarstefnu. Tillagan hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að koma á fót nefnd, skipaðri fulltrúum tilnefndum af samtökum iðnaðarins og þingflokka, er hafi það verkefni að vinna að endurskoðun iðnaðarstefnu með tilliti til breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og í helstu viðskiptalöndum, sbr. ályktun Alþingis frá 3. maí 1982 og álit samstarfsnefndar um iðnþróun frá maí 1979.
    Jafnframt leiti starfshópurinn leiða til að bæta starfsskilyrði íslensks iðnaðar og gera tillögur þar um.``
    Í grg. með tillögunni segir svo m.a.:
    Þann 21. sept. 1978 skipaði þáv. iðnrh. samstarfsnefnd um iðnþróun sem hafði það hlutverk m.a. að vera ráðherra til ráðgjafar um mótun heildarstefnu í iðnaðarmálum og að efla samstarf innan iðnaðarins um að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem samstaða næðist um í nefndinni og á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis. Í maí 1979 skilaði nefndin mjög áhugaverðri og ítarlegri skýrslu sem síðar var birt sem fylgiskjal með tillögu iðnrh. til þingsályktunar um iðnaðarstefnu. Þar segir m.a.:
    ,,Með tillögum þeim, sem hér fara á eftir, er stefnt að því að skapa íslenskum iðnaði hagstæð vaxtarskilyrði með samræmdum aðgerðum af hálfu ríkisins, sveitarfélaga, opinberra stofnana, samtaka atvinnulífsins og fyrirtækja í iðnaði. Með tillögunum er reynt að samræma þau öfl sem mest áhrif hafa á mótun iðnaðar í þá átt að hagnýta innlendar aðstæður til arðbærrar framleiðslu fyrir innlendan markað og til útflutnings og auka framleiðni iðnaðarins og efla hann til að mæta vaxandi samkeppni á heimsmarkaði og hagnýta þau tækifæri sem greiðari alþjóðaverslun býður upp á.``
    Frá því að þessi skýrsla var lögð fram hefur margt breyst í íslensku þjóðlífi og ýmsar breytingar eru í sjónmáli sem gefa tilefni til að endurmeta stefnuna í iðnaðarmálum.
    Hér voru svo sannarlega gefin fögur fyrirheit um að iðnaðinum yrði betur sinnt en fyrr. Þeir er við hann starfa töldu sig sjá hilla undir að stjórnvöld settu sér ákveðið markmið sem stefnt skyldi að og með því yrði ákveðinni og skilvirkari stefnu í íslensku atvinnulífi fylgt. Því miður hefur nokkuð skort á að svo væri. Hlutverk stjórnvalda á að vera að tryggja forræði landsmanna sjálfra yfir auðlindum landsins og búa til þann ramma sem atvinnulífinu er ætlað að starfa innan, frjálst starfsumhverfi og rekstrarskilyrði. Það er síðan fyrirtækjanna sjálfra að aðlaga starfsemi sína því rekstrarumhverfi sem ríkir hverju sinni.
    Þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir um Evrópskt efnahagssvæði, munu hafa mjög víðtæk áhrif á íslenskan iðnað. Sú alþjóðlega samkeppni, sem nú er stefnt að, gerir mjög auknar kröfur til iðnaðarins. Því er nú svo nauðsynlegt að móta markvissa og skilvirka iðnaðarstefnu sem ekki aðeins hvetur til nýsköpunar í iðnaði heldur þarf hún einnig að bæta samkeppnisstöðu, auka vöruþróun og markaðsrannsóknir íslensks iðnaðar.
    Algjör stefnubreyting hefur orðið í sjávarútvegi og landbúnaði frá því að skýrslan var gerð og Alþingi samþykkti ályktunina. Er þar átt við stjórn fiskveiða með mjög hefta sókn til hafsins og hina ströngu framleiðslustýringu og framleiðslutakmarkanir í landbúnaði.
    Það má öllum ljóst vera sem hugleiða stöðu atvinnuvega þjóðarinnar að þeir standa nú á krossgötum nýrra leiða. Því er nú skynsamlegt og reyndar mjög nauðsynlegt að endurmat fari fram á iðnaðarstefnunni.
    Fyrir ekki mjög löngu stóð Landssamband iðnaðarmanna fyrir heimsókn til Ítalíu, nánar tiltekið til héraðsins Emilia Romagna á norðanverðri Ítalíu. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vitna í ákaflega fróðlega skýrslu úr þessari ferð. Þar segir svo m.a.:
    ,,Mestan hluta aldarinnar hefur mikilvægi smáfyrirtækja, mælt sem hlutdeild í heildarvinnuafli í fyrirtækjum með færri en 100 starfsmenn, farið minnkandi í OECD-löndunum. Um 1970 fjölgar smáfyrirtækjum hlutfallslega þvert á allar spár. Samtímis auka stórfyrirtækin sjálfsforræði einstakra eininga, eða eins og þekktur bandarískur viðskiptafræðingur orðaði það, risarnir eru að læra að dansa.
    Milli áranna 1980 og 1986 fækkaði starfsmönnum í fyrirtækjum í Bandaríkjunum með fleiri en 500 starfsmenn um 11% eða um 2 milljónir starfa. Á sama tíma fjölgaði þeim í fyrirtækjum með færri en 100 starfsmenn um 326.000, eða sem samsvarar um 8% aukningu. Samsvarandi tölur má finna frá öðrum löndum. Fyrri hluta aldarinnar var það fjöldaframleiðsla stórfyrirtækjanna sem var burðarás hagvaxtarins en í dag er það samspil stórra og lítilla fyrirtækja sem ræður ferðinni. Kröfur neytenda um sérhæfðari afurðir og örari tækninýjungar kalla á innbyrðis sérhæfingu og samstarf um vöruþróun.
    Í Emilia Romagna er samstarf fyrirtækja hvað öflugast í heiminum. Í héraðinu búa um 4 millj. íbúa og landsvæðið er um 1 / 5 af flatarmáli Íslands. Héraðið er orðið heimsþekkt fyrir þá staðreynd að hagvöxtur er langt umfram landsmeðaltalið á Ítalíu og svipar til þess sem gerist best í iðnríkjum annars staðar í heiminum. Árið 1970 var Emilia Romagna vel undir meðaltali á Ítalíu en 15 árum síðar var það annað ríkasta héraðið og launin 25% hærri en meðallaun á Ítalíu allri. Styrkur héraðsins liggur í fjölþættri framleiðslu sem byggir á nánum tengslum milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Fyrirtækin sérhæfa sig innbyrðis og styrkja hvert annað í vöruþróun, framleiðslu og markaðssetningu.
    Í héraðinu eru um 100 þús. lítil iðnaðar- og handverksfyrirtæki. Flest þeirra hafa færri en 50 starfsmenn og hjá þeim vinna um 40% starfandi manna á svæðinu.``
    Fyrirtækjanet er samstarf og samstarfsaðferðir sem gera litlum fyrirtækjum mögulegt að keppa við hæfustu stórfyrirtækin.
    Um þróunina á Íslandi segir í skýrslunni m.a.:
    ,,Þrátt fyrir dapurlegt útlit á mörgum sviðum íslensks atvinnulífs má ekki gleyma því að við erum með tekjuhæstu þjóðum heims, erum nálægt heimsmetinu í lífaldri, velferð og menntun. Viðvarandi áhyggjuefni er þó það að ekki hefur tekist að koma á fót öflugum útflutningsiðnaði. Útflutningur á fullunnum iðnaðarvörum er hverfandi, eða nokkur prósent ef stóriðjan er ekki talin með og þannig hefur það verið í áratugi. Alvarlegra er þó að útflutningur hefðbundinna greina er að dragast saman ef eitthvað er. Ullariðnaðurinn er ekki svipur hjá sjón, stöðnun, nánast hrun er í lagmetinu. Tæknivörur fyrir sjávarútveg, sú grein sem hvað mestar vonir hafa verið bundnar við, eru í ákveðinni lægð.
    Ef við snúum okkur nú að samanburði á því sem hefur verið að gerast erlendis á þeim svæðum sem um ræðir og ástandinu hér á landi síðastliðna áratugi, þá virðist munurinn ekki vera mikill á yfirborðinu. Til staðar eru fjölmörg lífseig smáfyrirtæki sem virðast geta lagað sig að breyttum aðstæðum með fítonshraða. Fram á allra síðustu ár voru gjaldþrot sjaldgæf þrátt fyrir sveiflukennd starfsskilyrði. Raunvextirnir hafa breytt þessu nú, en sveigjanleikinn og nýsköpunin eru enn til staðar.
    Það sem skilur á milli er fyrst og fremst tvennt. Í fyrsta lagi eru einstök fyrirtæki í algengustu greinunum eftirmynd annarra fyrirtækja í sömu grein. Innri sérhæfing hefur til skamms tíma verið sáralítil. Í öðru lagi hefur ekki tekist að búa til fyrirtæki eða fyrirtækjanet sem hafa haft bolmagn til útflutnings, nema í örfáum tilfellum.
    Það sem virðist hafa gerst hér hjá okkur er að samkeppnin eyðileggur í stað þess að byggja upp. Atvinnulíf landsmanna hefur, allt fram á allra síðustu ár, gengið út á að útvíkka þá starfsemi sem fyrir var í stað þess að koma á innri sérhæfingu.``
    Niðurstöður af skýrslunni eru fyrst og fremst þær, að aðallega fjögur atriði gera það að verkum að íslenskur framleiðslu- og þjónustuiðnaður stendur veikar en samkeppnisaðilar víða erlendis. Í fyrsta lagi hefur ekki tekist að koma krafti í útflutning á fullunnum iðnvarningi. Í öðru lagi skortir á samstarf og innri sérhæfingu fyrirtækja. Fyrirtæki eru sjaldan rekin með hliðsjón af framleiðni þess fjármagns sem í þeim er bundið. Og síðast en ekki síst skortir nánari tengsl á milli framleiðsluiðnaðarins og þeirra sem eru langskólagengnir.
    Virðulegi forseti. Með samstarfi stjórnvalda við samtök iðnaðarins sjálfs og þeirra er þar starfa má vissulega vænta að betri árangur náist í þessari atvinnugrein og skilningur aukist á mikilvægi iðnaðar og vaxtarmöguleikum hans.
    Mikilvægi iðnþróunar hefur aukist frá því sem var, sérstaklega þegar litið er til landsbyggðarinnar, því enn er mannafli á Íslandi í vexti og því verður starfstækifærum að fjölga. Auk þeirra breytinga, sem gerst hafa innan lands, eru í sjónmáli breytingar í viðskiptalöndum okkar sem hvort tveggja í senn munu skapa ný vandamál og nýja möguleika.
    Með allt þetta í huga virðist augljóst að Ísland verður að hafa iðnaðarstefnu sem hæfir þessum nýju aðstæðum og því er þessi tillaga flutt.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. verði vísað til síðari umræðu og iðnn.