Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:39:00 (4445)

     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir undirtektirnar, ég er svona mátulega sáttur við þær. Ég held að hæstv. ráðherra megi ekki líta svo á að um beina gagnrýni á hann sé að ræða. Enda þótt hann sé búinn að sitja lengi í þessum stól þá er hann bara mannlegur eins og við öll hin og vissulega er það svo að hægt hefði verið að gera sumt betur þótt þar hafi hins vegar margt verið líka vel gert og ekkert er fullkomið.
    Það er alveg rétt að ég vék hér að ítarlegri skýrslu, hefði getað fjallað ítarlegar um hana, um ferð til Ítalíu. Mér er kunnugt um það að menn hafa leitað víðar fanga. Ekki síst hafa iðnaðarmennirnir sjálfir leitað fyrir sér. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að þeir væru kallaðir til svo að menn fengju að njóta þekkingar þeirra og áhuga á endurskoðun og mótun nýrrar iðnaðarstefnu.
    Þessi fyrirtækjanet, sem við köllum, eru ekki aðeins þekkt frá Ítalíu. Þau eru sem betur fer miklu víðar en höfuðmáli skiptir að niðurstaðan virðist alls staðar vera sú sama.
    Ekki er það verra sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. ef Samband ísl. samvinnufélaga hefur verið frumkvöðullinn að því að koma upp þessu fyrirtækjaneti, sem ég var að tala um, og er nú svo mjög að ryðja sér til rúms í heiminum.
    Ég tek undir það að menn þurfa að skoða þetta með opnum huga. Það sem segir í skýrslunni, sem unnin er af þessum mætu mönnum sem þarna fóru, veldur manni áhyggjum og er til umhugsunar. Með leyfi forseta ætla ég að lesa nokkrar línur, en þar segir um þróunina á Íslandi m.a.:
    ,,Það sem virðist hafa gerst hjá okkur er að samkeppnin eyðileggur í stað þess að byggja upp. Atvinnulíf landsmanna hefur allt fram á allra síðustu ár gengið út á að útvíkka þá starfsemi sem fyrir er í stað þess að koma á innri sérhæfingu.``
    Hér er mikið sagt og í mínum huga er engin spurning að ástæða er til þess að staldra við og líta til átta.
    Ég treysti ágætlega starfsliði hæstv. iðnrh. en það eru víðar til menn í þessu þjóðfélagi en í ráðuneytunum og eins og Marka-Leifi, sá frægi Skagfirðingur sagði: Þeim getur nú skjátlast þó þeir séu í kórnum.
    Ég held að það mundi bæta þá umfjöllun sem þetta mál þarf svo nauðsynlega að fá að fleiri verði kallaðir til að fjalla um slíka stefnumörkun en sá þröngi hópur þó það sé orðið nokkurt mannval í iðnrn.
    Að lokum, virðulegi forseti, ber vissulega að þakka undirtektirnar þó ég segi enn og aftur að ég átti að mörgu leyti von á annars konar viðbrögðum. Á Alþingi hefur ekki farið fram mikil umræða um iðnaðarmál. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni. Það hefur farið fram umræða um byggingu álvers fram og aftur, en almennt hefur ekki farið fram mikil umræða um iðnaðarmál. Það veldur mér áhyggjum, virðulegi forseti, og ég trúi því að svo sé með fleiri hv. alþm., að almennur útflutningsiðnaður vex ekki hér á landi þrátt fyrir mikla aukningu hjá nágrannaþjóðum okkar. Það er áhyggjuefni, hæstv. iðnrh. Þess vegna er þessi tillaga m.a. flutt. Í trausti þess að hún verði samþykkt vænti ég þess að iðnaðarins á Íslandi bíði bjartari tíð.