Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 22:34:00 (4462)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. sást lítt fyrir í sinni ræðu. Hann hefur líklega ekki verið kominn nægilega tímanlega á þennan fund til þess að nema þau tíðindi sem rædd voru og áttu einkum við um tímabilið frá 1978--1988. Á þeim tíma var ég því miður ekki í ríkisstjórn, hvorki með Alþb. né öðrum. Mér er ljúft að staðfesta að á árinu 1988 þegar ég tók við störfum sem iðnrh. urðu viss sinnaskipti í Alþb. og það tók þátt í tilraunum til þess að efla stóriðju á grundvelli orkulindanna. Það ber að virða sem vel er gert og ég þakka sannarlega þau sinnaskipti. Eins og hér var að orði komist fyrir nokkru virðist sem iðjustefnan hafi sigrað, líka í Alþb. Það er vissulega gleðiefni.
    Varðandi skýrsluna sem hv. þm. gerir eðlilega að umtalsefni og hann er orðinn langeygur eftir, vona ég að um hana geti gilt að það verði dýrast sem lengi hefur geymt verið og beri ríkulegan ávöxt í hentugan tíma fram borið. Kannski getur það átt við um álverið líka.