Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

104. fundur
Miðvikudaginn 18. mars 1992, kl. 14:22:00 (4488)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Til þess að það sé alveg skýrt á hvaða forsendum við þrír þingmenn lögðum fram þessa brtt., þá vil ég rifja upp ummæli hæstv. viðskrh. í umræðunni hér á mánudaginn --- nú hef ég ekki heimild til þess, virðulegi forseti, að vitna beint í útskrift af ræðu hans --- en þar sem hæstv. ráðherra sagði eitthvað á þá leið að hann vildi taka það skýrt fram að inni í textanum þyrftu að vera skilgreindar þessar sérstöku samsettu mynteiningar og síðan sagði hæstv. ráðherra eitthvað á þessa vegu: ,,Þetta er eingöngu hugsað til þess að þingið sé að gefa alveg skýrt umboð til þess að ákveða slíkar breytingar þótt þingið sé ekki þar með að ákveða þær.``
    Þetta var nánast það sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni að hæstv. ráðherra hefði sagt. Hann hefði sagt að þingið væri að gefa umboð en ég held að hæstv. ráðherra hafi tekið þetta enn þá ákveðnara fram og sagt að þingið væri að gefa skýrt umboð til slíkra framkvæmda.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram þar sem hæstv. ráðherra hristi höfuðið yfir þessum orðum mínum í fyrri ræðu minni.