Símaþjónusta Tryggingastofnunar ríkisins

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 11:52:00 (4548)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Alþingi hefur ekki tekið ákvörðun um fjármuni í þessu skyni. Einn alþingismaður heitir Sighvatur Björgvinsson, hann er 4. þm. Vestf. og hann hefur tillögurétt á Alþingi. Hann gerði enga tillögu um þetta mál þegar fjárlög voru afgreidd síðast né heldur næstsíðast. Nú virðist málið hins vegar vera þannig að hæstv. ráðherra hafi fengið vitrun í þessu efni og vilji standa að því að tryggja að Tryggingastofnun ríkisins fái fjármuni til þess að kosta þessa grænu línu og er það vel.
    En ég kvaddi mér hér líka hljóðs, virðulegi forseti, vegna þess að það hefur verið afar erfitt að fá upplýsingar og niðurstöður hjá Tryggingastofnun ríkisins á undanförnum vikum og mánuðum, ekki vegna þess að þar hafi skort grænar línur, heldur vegna þess að þar skortir beinar línur á milli heilbrrn. og Tryggingastofnunar ríkisins. T.d. er mér tjáð að enn þá hafi ekki verið með óyggjandi hætti gengið frá reglugerðum að því er varðar umönnunarbætur og barnaörorku samkvæmt lögum sem þó voru samþykkt á Alþingi fyrir áramót og fullyrt var af hæstv. ráðherra fyrir nokkrum vikum að væru í raun og veru þegar tilbúin og væri aðeins útgáfuverkið eftir til að koma þeim á framfæri. Ég vil bæta því við að það er óhjákvæmilegt að bæta upplýsingastarf Tryggingastofnunar ríkisins um leið og teknar verða upp grænar línur en það er bersýnilega nauðsynlegt að fjölga beinum línum á milli heilbrrn. og Tryggingastofnunarinnar og það kostar ekki neitt.