Svæðisútvarp á Vesturlandi

105. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 12:26:00 (4568)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel eðlilegt að hv. þm. Vesturl. sé áfram um að koma á fót svæðisútvarpi. Það hefur sýnt sig og sannað t.d. vestur á fjörðum þar sem er svæðisútvarp að það hefur mikið gildi og er afar gagnlegt. Ég vil þó leggja inn í þessa umræðu þann skilning sem ég hafði á orðinu svæðisútvarp í upphafi og reyndist eins og stundum vill nú koma fyrir mig, þá skil ég hlutina öðruvísi en aðrir. Ég skildi það þannig að það væri útvarp frá því svæði inn á landsrásina þar sem landsmenn annars staðar gætu fengið að heyra hvað menn eru að láta frá sér fara í viðkomandi svæðisútvarpi. Ekki þannig að svæðisútvarpið væri eingöngu fyrir þennan afmarkaða hlustendahóp. ( ÁRJ: Hvort tveggja.) Hvort tveggja, kallar hv. 11. þm. Reykv. fram í og ég tek hér undir það og það verða mín lokaorð, virðulegi forseti því að ég sé að ég er á rauðu ljósi.