Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 15:16:00 (4596)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég misskildi hv. þm. Steingrím Jóhann ekki neitt. Ég er honum alveg sammála um að það þarf að leggja út í verulegt markaðsátak til að nýta þessar breytingar fyrir innlendan skipaiðnað, en það er nákvæmlega það sem ýmsar aðrar þjóðir hafa gert. Ég bendi til að mynda á Færeyinga þar sem stjórnvöld beittu sér fyrir því að þarlendar skipasmíðastöðvar fengu verkefni við rússneska flotann. Ég bendi líka á Íra þar sem ríkisstjórnin sjálf var tengd viðræðum við Rússa sem leiddu til þess --- að mig minnir --- að árið 1988 höfðu fengist til Írlands, nánar tiltekið til skipasmíðastöðva í Cork, samningar sem yfir nokkur ár jafngiltu 200 millj. sterlingspunda og var greitt með fiski. Þetta kallaði Charles Haughey, sá litríki fír sem þá var forsætisráðherra, ,,happdrættisvinning`` fyrir írskar skipasmíðastöðvar. Vitaskuld þarf að hafa fyrir þessu en það er hægt. Ég er alveg sannfærður um það á þeim viðbrögðum sem þetta frv. hefur fengið frá ýmsum stöðum á landinu, m.a. úr kjördæmi hv. þm. Steingríms Jóhanns, að menn binda nokkrar vonir við að fá viðhaldsverkefni inn í landið og ýmiss konar tilfallandi viðgerðir, en ég er sammála honum um það að þetta mun ekki leiða til þess að hér verði um einhver meiri háttar smíðaverkefni að ræða. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, og ekki bara ég heldur þeir sem véla í þessum iðnaði, að sú staðreynd að skipin höfðu ekki löndunarleyfi og gátu yfirleitt ekki gert sér vonir um að fá löndunarleyfi gerði það að verkum að þau leituðu ekki eftir slíkum samningum. Mér er tjáð af mönnum úr iðnaðinum að mýmörg dæmi séu um þetta.