Norður-Atlantshafsþingið 1991

106. fundur
Fimmtudaginn 19. mars 1992, kl. 17:21:00 (4619)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Manni verður bara hlýtt af að hlusta á svo gamlar og skemmtilegar ræður. Ég vil þó segja í tilefni af ræðu hv. þm. að ég hygg að aðalfortíðarvandinn varðandi NATO hér á Íslandi sé þetta gamla samtryggingarkerfi og samspil íslenskra stjórnmálaflokka og gróðans af hernum sem við gátum náð í á hverjum tíma. Það hefur því miður sett verulegan blett á þá fortíð hvernig Sjálfstfl. og Framsfl. skiptu með sér hermanginu og notuðu féð og stöðuna til að tryggja stöðu sína í þjóðfélaginu.
    Hvað varðar óttann, hungrið og fátæktina, þá vil ég segja hv. þm. að menn eyða ekki sömu krónunni tvisvar. Þegar menn setja 1,5 milljarða í ratsjárstöð til að fylgjast með einhverju sem ekki er lengur til fara þeir peningar ekki til að fæða hungrað fólk.