Rekstur heimilis fyrir vegalaus börn

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 13:57:00 (4678)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. 9. þm. Reykv. að söfnun sú sem átti sér stað um síðustu helgi var afskaplega myndarleg og viðbrögðin við þeim tilmælum sem þar komu fram voru mjög myndarleg og sýndu hug þjóðarinnar í garð þessa málefnis. Málefni vegalausra barna hafa verið rædd í ríkisstjórninni að tilhlutan félmrh. Þá var málinu frestað, samþykkt að félmrh. tæki upp viðræður við sveitarfélögin og forsvarsmenn Barnaheilla um það með hvaða hætti hægt væri að standa að rekstri heimilis af því tagi sem hv. 9. þm. Reykv. nefndi. Ég veit ekki annað en að viðræðurnar eigi sér stað þessa dagana, jafnvel í dag, ég vil þó ekki fullyrða það. Málið verður síðan tekið fyrir að nýju á fundi ríkisstjórnar væntanlega á föstudag eða í síðasta lagi á þriðjudag.