Stuðningur við fyrirvara Íslands við GATT-samninginn

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 14:04:00 (4684)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svarið en verð þó að segja að mér fannst það ákaflega fátæklegt og hlýt að láta í ljós vonbrigði mín yfir því að hæstv. forsrh. skuli ekki fylgjast betur með svo mikilvægu hagsmunamáli þjóðarinnar.
    Rétt er að það hefur áður komið fram hvernig þessi fyrirvari var afhentur formanni nefndarinnar, Arthur Dunkel. Að öðru leyti virðist hæstv. forsrh. lítið vita um hvernig að málinu hefur verið unnið eða hvort nokkuð hefur verið gert. Sama dag og fyrirvarinn var kynntur á Alþingi, var samin yfirlýsing úti í Ósló meðal hinna fjögurra norrænu EFTA-þjóða þar sem lýst var yfir stuðningi við þann ramma sem lagður var í tillögum Dunkels. Ég held að flestum sem fylgdust með umræðum á Alþingi hafi verið ljóst að sú yfirlýsing var í andstöðu við þann greinilega vilja sem kom fram í umræðunum á Alþingi um að hafna þessum tillögum. Það þýðir auðvitað lítið að leggja svona fyrirvara fyrir formann nefndarinnar ef ekki er síðan unnið af krafti að því að safna sér bandamanna til þess að reyna að fá stuðning við þær áður en kemur að lokaspretti samningsins. Því miður verð ég að endurtaka að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það svar sem hæstv. forsrh. gaf.