Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 18:16:00 (4728)

     Flm. ( Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um málið og eftir atvikum þær undirtektir sem það hefur fengið. Ég fagna því að þó að menn kunni að greina eitthvað á um efni þess eða mikilvægi þess að standa að slíkri lagasetningu við núverandi aðstæður þá eru allir sem hér hafa talað, leyfi ég mér að segja, sammála um að það sé sjálfsagt að þetta mál komi til skoðunar og fái viðhlítandi umfjöllun í nefnd.
    Hv. 3. þm. Reykv. talaði fyrstur og kom með allmargar spurningar og athugasemdir við frv. Ég ætla að reyna að svara því sem til míns friðar heyrir í því eins og ég tel það vera.
    Í fyrsta lagi spurði hv. þm. hvað hefði valdið því að frv. hefði ekki náð fram að ganga í fyrri skipti. Ég kann ekki einfalt svar við því frekar en oft endranær þegar mál eru til umfjöllunar þing eftir þing. Það getur helgast af ýmsu. Annars vegar getur ráðist af efni þeirra að ekki sé um þau full samstaða og menn telji að þau þurfi frekari skoðunar við. En oft er það líka tímaleysi eða mál daga uppi í önnum á þingi sérstaklega þegar þau eru ekki flutt af ríkisstjórnum og ekki þannig þrýstingur á bak við afgreiðslu þeirra.
    Hér er að sjálfsögðu nokkuð viðamikið mál á ferð og nýstárlegt. Í raun og veru væri algerlega brotið blað í sögu þessara mála í landinu ef og þegar lagasetning af þessu tagi kæmi til og leggst þar sjálfsagt margt á eitt.
    Ég vil líka leyfa mér að trúa því að nú séu hagstæðari aðstæður til afgreiðslu málsins en áður voru og þíða í alþjóðamálum leggist með málinu og ættu að breyttu breytanda að auðvelda afgreiðslu þess hér.
    Þegar þetta mál leit fyrst dagsins ljós á 109. löggjafarþingi veturinn 1986--1987 blés ekki jafnbyrlega hvað t.d. samskipti stórveldanna snerti.
    Síðan fór hv. 3. þm. Reykv. nokkuð yfir söguna í þessum efnum og rakti sig allt aftur til ríkisstjórnartíma Hermanns Jónassonar og þess svars sem þá var gefið og mun vera fyrsta opinbera afstaðan sem íslensk stjórnvöld tóku til veru kjarnavopna í landinu.
    Hitt er svo ljóst eins og fleiri ræðumenn bentu á að sú stefna var í sjálfu sér ekki mjög föst í sessi formlega séð öðruvísi en sem munnleg svör eða munnlegar yfirlýsingar og í þessu tilviki kannski bréfleg. Þannig var það til að mynda með þau tíðindi sem urðu um þessi mál á Alþingi árið 1985, að mig minnir, í orðaskiptum þess sem hér talar og hæstv. þáv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar, að þar var um munnleg svör við fyrirspurn á Alþingi að ræða þó ljóst sé að þá urðu mikil tíðindi í svörum og þau hafi verið vendipunktur umræðnanna um þessi mál frá því að þau voru gefin. Enda vöktu þau orðaskipti umtalsverða athygli utan landsteina Íslands á sínum tíma.
    Þá var í raun og veru í fyrsta sinn aukið við skilning manna á því hvað fælist í hinni yfirlýstu, þó ekki mjög formbundnu stefnu íslenskra stjórnvalda að hér skyldu ekki vera kjarnorkuvopn. Við hana var aukið með þeim skilningi og þeirri túlkun hæstv. þáv. utanrrh. að það skyldi jafnframt taka til komu herskipa til landsins og íslenskra hafna.
    Segja má að í ályktun Alþingis frá vordögum 1989 sem hv. 1. þm. Norðurl. v. vitnaði í áðan sé enn á ný ákveðinn vendipunktur í umræðum um málið þegar Alþingi í sérstakri ályktun eins og þar er sagt; áréttar þá stefnu íslenskra stjórnvalda að hér skuli ekki vera . . .  (Gripið fram í.) Það skolast til í minninu hvenær hvað var afgreitt í þessum efnum, en alla vega er afgreidd samhljóða ályktun á Alþingi um þetta efni. Hafi annað komið fram í máli mínu þá leiðréttist það hér með að frumvarp Davids Lange varð að lögum á þinginu í Wellington á árinu 1987, eins og kemur reyndar fram í greinargerð með frv., ef það er lesið.
    Ég vík nú að nokkrum efnislegum athugasemdum hv. 3. þm. Reykv. Hann taldi í

fyrsta lagi að heiti frv., ,,Um friðlýsingu Íslands`` væri röng orðanotkun og að helst ættu engir aðrir en náttúruverndaraðilar að nýta sér slíkt orð. Ég er ekki alveg sammála þessu. Ég minni á að almenn málvenja í umræðum um slík efni hefur lengi verið sú að fjalla um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Það er alþekkt í umræðum um þessi mál frá undanförnum árum og jafnvel áratugum. Ég held að færa megi ýmis rök fyrir því. Þetta er hins vegar ekki stórmál í mínum huga og má að sjálfsögðu ræða það hvað eðlilegast væri að þetta héti, ef það er mönnum þyrnir í augum að nota þetta orðalag.
    Í öðru lagi vék hv. 3. þm. Reykv. að markmiðsgrein laganna, 2. gr. og taldi að þar væri um allvíðtæk og hástemmd markmið að ræða sem erfitt væri að sjá að næðu öll fram að ganga. Ég verð þó að taka það fram, og það hafa fleiri ræðumenn gert, að ég held að nokkur misskilningur felist í því að þrengja efni frv. meira og minna niður í það að aðalinntak þess lúti að komu herskipa og kjarnorkuknúinna skipa til landsins. Frv. er einmitt þannig úr garði gert að í því felst í rauninni mjög víðtæk friðlýsingaraðgerð á þessu sviði af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það tekur jafnt til vopna, kjarnorkuvopna, eiturefna- og lífefnavopna, til umferðar kjarnorkuknúinna skipa, losunar úrgangs og hvers kyns starfsemi annarrar sem einstaklingar eða ríki gætu haft með höndum og stofnuðu friðlýsingunni í hættu. Það er því nokkur misskilningur held ég að áhrif frv. yrðu fyrst og fremst þessi. Ég nefni enn fremur náttúruverndarhlið málsins sem í mínum huga er mjög stór og vigtar þungt.
    Í þriðja lagi leiddi hv. 3. þm. Reykv. nokkrar líkur að því að í reynd væru ákvæði af þessu tagi, sérstaklega hvað varðar komu herskipa, orðin óþörf og kæmi þar fyrst og fremst til yfirlýsing Bush Bandaríkjaforseta frá 27. sept. sl. Í framsöguræðu minni gerði ég allmikla grein fyrir þeirri yfirlýsingu og átti þess vegna ekki von á að það mundi á nokkurn hátt misskiljast því ég geri mér mætavel grein fyrir mikilvægi þeirrar yfirlýsingar og taldi reyndar upp helstu afvopnunaraðgerðir sem þar voru einhliða boðaðar. Þær fela í sér, eins og hv. 3. þm. Reykv. nefndi réttilega, að verulegur hluti allra þeirra kjarnorkuvopna sem hafa verið um borð í skipum eða á sjó, að slepptum kjarnorkuvopnum í kafbátum, sem og sprengjur sem hafa verið til taks jafnvel í viðbragðsstöðu um borð í flugvélum eða í flugstöðvum er allt meira og minna dregið til baka og eru það umtalsverð tímamót.
    Af óbreyttum tilgangi frv. stendur margt eftir sem mér fannst hv. 3. þm. Reykv. horfa fram hjá þegar hann var að færa rök fyrir því að þessi lagasetning væri meira og minna orðin óþörf vegna breyttra aðstæðna. Frv. er miklu víðtækara eins og ég sagði áður og vísa ég þá til ákvæða sem lúta að umferð kjarnorkuknúinna skipa, eiturefnavopna, umhverfisþáttar málsins o.s.frv. Ég nefni og að lagasetning sem þessi getur haft gildi til lengri tíma litið með vísan til þeirrar óvissu sem getur verið uppi í slíkum málum. Því miður getum við ekki gefið okkur að þær friðvænlegu aðstæður sem nú hafa skapast og menn gleðjast yfir séu sjálfgefnar til frambúðar. Vissulega vonum við það öll og bindum væntanlega ríkar vonir við að svo verði. Það breytir ekki því að það getur verið fullkomin ástæða til þess fyrir einstök ríki að taka fram hvaða stefnu þau vilji viðhafa í þessum efnum um aldur og ævi ef svo vill verkast. Kjarnorkutæknin er því miður komin til að vera með mannkyninu nema meiri háttar tíðindi verði í upplýsinga- og menntunarstigi mannkyns og sífellt auðveldara er að koma sér upp slíkum vopnabúnaði. Menn hafa af því áhyggjur eins og komið hefur fram í umræðunni hversu margir menntaðir menn á þessu sviði eru nú í atvinnuleit eða á faraldsfæti. Því miður gæti athygli manna á næstu árum snúist æ meir að þeirri ógn sem mönnum gæti stafað af ýmsum svæðisbundnum átökum, upplausn sem skapast á einstökum svæðum, hugsanlegri hryðjuverkastarfsemi eða öðru slíku sem tengst gæti þessum öflugu vopnum.
    Hv. 3. þm. Reykv. nefndi einnig, sem ég hafði ætlað að gera í svari mínu sömuleiðis, að það eru fleiri kjarnorkuþjóðir en Bandaríkjamenn þó þeir hafi mikla þýðingu í þessum efnum. Því miður eru Frakkar svarti sauðurinn í þessari fjölskyldu, ef svo má að orði komast. Þeir hafa lengi verið við sama heygarðshornið og hafa ekki mikið sýnt á spil sín enn sem komið er. Í raun og veru hafa þeir sáralítið gefið upp af áformum um að

fylgja í kjölfar annarra þjóða varðandi jákvæðari og mildari stefnu í kjarnorkuvígbúnaðarmálum. Bretar hafa tekið þar nokkur skref en Frakkar lítið sýnt á spilin.
    Handan við hornið eru því miður allmargar þjóðir sem ýmist er talið að komnar séu með kjarnorkuvopn eða gætu komið þeim upp á næstu árum. Vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim.
    Í fjórða lagi varðandi kjarnorkuknúin skip þá vísaði hv. 3. þm. Reykv. nokkuð í það sem er að gerast á Nýja-Sjálandi núna. Þar væru menn komnir með það mál í nefnd hvort ekki væri hægt að finna leið til að leyfa eftir atvikum heimsóknir slíkra skipa í nýsjálenskar hafnir þó þannig að ákveðnar reglur væru í gildi. Þá er best að upplýsa og kannski hryggja hv. 3. þm. Reykv. með því að þó að sá sem hér stendur og lagði á sínum tíma mikla vinnu í samningu frv., fylgdist allnáið með hræringum þessara mála m.a. á Nýja-Sjálandi, aflaði mikilla gagna þaðan, snaraði þeim á íslensku og hvað eina, var í góðum samböndum við það ágæta land, sem reynar var föðurland hans í eitt ár, þá hefur ekki unnist tími til að fylgjast jafnnáið með þróun mála síðan. Ég hef ekki verið í nýlegu sambandi við aðila þar þannig að að nokkru leyti er hv. 3. þm. Reykv. sjálfsagt mér fróðari um það sem þar hefur verið að gerast. Ég hef þó fylgst með þeim áherslubreytingum sem urðu við stjórnarskipti á Nýja-Sjálandi þegar verkamannaflokksríkisstjórnir sem þar höfðu setið undir nokkrum forsætisráðherrum, þeir hafa nú ekki allir verið lengi í embætti, fóru frá völdum og við tóku hægri menn sem hafa nokkuð haft aðrar áherslur í þessum efnum. Það er þó nokkuð til marks um hinn víðtæka stuðning við kjarnorkufriðlýsinguna á Nýja-Sjálandi að þrátt fyrir stjórnarskipti og hægri stjórn hafi tekið við af vinstri stjórn hefur hún ekki lagt í að hrófla við lögunum frá 1987 og það má hv. 3. þm. Reykv. vera til umhugsunar. Hins vegar eru málin að nokkru leyti flóknari fyrir Nýsjálendinga vegna þess að á sínum tíma neyddust þeir til þess, eins og ég vitnaði lítillega í, að leyfa ákveðna umferð vegna umferðar skipa um sund á innsævi þeirra sem hefur frá upphafi skapað þeim vissa erfiðleika við að framfylgja lögunum og sem ekki eru fyrir hendi hjá okkur. Þeir sáu sér t.d. ekki fært að loka siglingaleiðinni milli Norðureyjar og Suðureyjar að öllu leyti fyrir kjarnorkuknúnum skipum þar sem litið er svo á að friðsamleg umferð sé þar á alþjóðlegri siglingaleið. Í því sambandi erum við Íslendingar betur settir því að í okkar tilviki er ekki ástæða til að vera með undanþágur gagnvart innsævi sökum þess að engin alþjóðleg siglingaleið er nauðbeygð til þess að fara um okkar innsævi til þess að komast leiðar sinnar.
    Síðan vék hv. 3. þm. Reykv. að 13. gr. Reyndar urðu nokkrar umræður um hana og hvernig ætlunin væri að framfylgja þeim ákvæðum sem þar eru á ferðinni. Mér fannst nú og vona ég að ég geri hv. 3. þm. Reykv. ekki óvirðingu með því að segja að mér fannst málflutningur hans jaðra við þrætubókarlist í því tilviki og reyndar nokkrum fleirum þar sem hann væri meira að finna agnúa á málinu af íþrótt en að það væri mjög stórvægilegt sem þar væri á ferð. Þegar menn eru að finna málum eitthvað til foráttu er þetta mjög algeng viðbára. Þá er bent á að það séu ýmsir tæknilegir eða praktískir annmarkar við að framkvæma þau. Svo er mjög oft um lagasetningu og menn hafa löngu lært það, hv. 3. þm. Reykv., að bogna ekki undan slíkum erfiðleikum, t.d. þegar menn eru að innheimta skatta. Alþekkt er og vitað að menn eru oft að setja lög um skattheimtu sem þeir vita fyrir fram að getur ekki gengið í öllum tilvikum og nokkrir annmarkar eru á að framkvæma. En menn gefast ekki upp heldur hugsa um að jákvæðu áhrifin á afgreiðslu málanna séu fleiri en þeir hugsanlegu vankantar og annmarkar sem á þeim kunni að vera.
    Ég held að mjög margar ástæður séu fyrir því að það geti verið fullkomlega eðlilegt og réttlætanlegt að setja slík ákvæði þó svo hægt sé að benda á jafnaugljósan hlut og þann að við Íslendingar höfum ekki hervald til þess að þvinga stórveldi til að láta þar að vilja okkar. En guð minn góður, er það ekki svo að í fjölmörgum tilvikum þar sem smáþjóðin Ísland eða aðrar hliðstæðar eiga í hlut verða menn að búa við þær aðstæður að þeir hafa ekki efnislegt bolmagn til þess að þvinga fram vilja sinn í samskiptum við aðra og fara þá aðrar leiðir. Eins og segir í frv., leita menn þá alþjóðlegrar viðurkenningar á rétti sínum, þá afla menn afstöðu sinni viðurkenningar og reyna með samningum að ná slíku

fram. Jafnframt er það rétt sem bent hefur verið á að slík lagasetning, stefnumörkun, getur haft margvíslegt, táknrænt siðferðilegt gildi. Hún getur haft mikið gildi inn á við og hún getur haft mikið gildi út á við. Varðandi málflutning hv. 13. þm. Reykv. vil ég taka eitt lítið dæmi um það hversu þunnur ísinn er ef menn fara út á hann. Hefðu menn lagt í að færa út íslensku landhelgina á sínum tíma ef þeir hefðu stjórnast af þessum þankagangi, hv. 3. þm. Reykv.? Svarið er nei. Það lá í augum uppi að Íslendingar höfðu ekkert bolmagn, engan her á sínum snærum, til þess að þvinga fram viðurkenningu stórveldanna í kringum okkur á 12, 50 og 200 mílna landhelgi okkar. Við gerum það samt vitandi að fyrst um sinn yrðu íslensku lögin brotin og ásetningur okkar í þessum efnum ekki virtur. En við treystum því að við mundum hafa sigur að lokum með öðrum aðferðum en hervaldinu. Við treystum því að við mundum afla málstað okkar alþjóðlegrar viðurkenningar og afla okkur fylgis með stjórnmálalegum aðgerðum af ýmsum toga þangað til við hefðum betur og sú varð reyndin. Þannig sýnir sagan okkur að smáþjóðirnar geta ýmislegt í þessum efnum og möguleikar þeirra liggja að sjálfsögðu ekki í gegnum hervaldið og ekki í gegnum það að stofna eftirlitssveitir og heldur ekki, hv. þm., í gegnum það að semja við bandaríska herinn um að hafa eftirlit með friðlýsingunni og þar með sjálfum sér. Það mundum við væntanlega ekki gera, en mundum leita slíkra leiða.
    Varðandi annað praktískt atriði sem tengist gildi þess að lýsa slíku yfir og setja um það lög, vil ég taka eitt lítið dæmi fyrir hv. þm. Mér er vel ljóst að það er miklum vandkvæðum bundið að hindra t.d. að kafbátar neðan sjávar slæðist inn fyrir 12 mílna landhelgi Íslands þó svo að við lýstum þessari friðhelgi yfir. Það er auðvitað öllum ljóst. Ég gæti farið í smáútúrsnúningaleið og sagt sem svo: Var það ekki afstaða stjórnvalda að treysta á að stefna Íslendinga um að hér yrðu ekki kjarnorkuvopn yrði virt? Menn töldu boðlegt þá að treysta því að afstaða okkar yrði virt, sem kannski var og kannski ekki. Það er önnur saga. En ég bendi á þá stöðu sem gæti komið upp ef og þegar Íslendingar setja slík lög sem vonandi verður fljótlega eða önnur hliðstæð þar sem við lýsum yfir friðhelgi innan 12 mílna lögsögu okkar. Við höfum fulla þjóðréttarlega stöðu til að gera það og slíkar ráðstafanir getum við óumdeilt gert innan 12 mílna landhelgi okkar, á innsævi og í lofthelginni þar upp af.
    Setjum nú svo að árekstur verði milli kjarnorkuknúins kafbáts og íslensks togara undan Austfjörðum, 8--9 mílur undan landi. Hefur það ekki gildi þó þessi kafbátur hafi brotið lög og sé sekur gagnvart lögum sem Íslendingar hafa haft fullkomna þjóðréttarlega stöðu til að setja innan okkar lögsögu? Svarið er jú. Það hefur mjög mikið gildi. Segjum sem svo að kafbáturinn laskist og þurfi á aðstoð að halda og að þarna verði einhver uppákoma sem við auðvitað vonum að verði aldrei, en ég tek sem dæmi til þess að skýra hvaða áhrif það geti haft séu slík lög í gildi. Enginn vafi er á því hversu mikið sterkari réttarstaða okkar er í slíkum tilvikum.
    Ég gæti svo sem, hæstv. forseti, haft mörg fleiri orð um þetta en ætla tímans vegna ekki að gera það þar sem nokkuð líður á kvöldið. Ég ítreka bara að auðvelt er að rökstyðja það í lengra máli og með margvíslegum hætti að slík lagasetning þjónar margvíslegum tilgangi og hún er mun víðtækari en þau atriði sem lúta að komu herskipa og hv. 3. þm. Reykv. ræddi aðallega um í ræðu sinni. Ég tek það fram að slík ákvæði eru að mínu mati þess eðlis og svo mikilvæg að ástæða væri til þess að taka þau upp í stjórnarskrá landsins upp að vissu marki. Ég tel að viss grundvallaratriði sem tengjast viðhorfum þjóða til öryggismála í þessu samhengi eigi fullan rétt inn í stjórnarskrár viðkomandi ríkja. Undirstöðuatriði í utanríkisstefnu okkar í sambandi við afstöðu til friðar- og afvopnunarmála, að aldrei verði leyfð kjarnorkuvopn hér á landi og hvernig með þá hluti er farið, ættu fullan rétt á sér í stjórnarskrá lýðveldisins og öðlast þar með þann sess sem því fylgir.
    Ég held að ég hafi þar með svarað því sem fram kom í orðaskiptum hv. 3. þm. Reykv. og 1. þm. Norðurl. v. og tek undir það sem kom fram í máli hins síðarnefnda að ég bind vonir við að málið fái þá skoðun og afgreiðslu í hv. utanrmn. sem hann lýsti sig reiðubúinn að stuðla að. Þarna eru fjölmörg ákvæði sem er fullkomlega eðlilegt að menn

skoði og ræði hvort betur fari á að hafa með öðrum hætti. Mér dettur síst af öllu í hug að halda því fram að hér sé fullkomið smíðisverk á ferð, þar á meðal t.d. hlutur eins og forræði þessara mála. Mér finnst sjálfsagt að hv. utanrmn. skoði það hvort þetta sé heppilegasta fyrirkomulagið eða eitthvað annað. Mér er að sjálfsögðu ekki fast í hendi að þetta sé allt saman óbreytt, þvert á móti. Væntanlega væri mér fyrst og fremst sú útgáfa mest að skapi, sem víðtækust samstaða gæti skapast um.
    Ég tek undir það með hv. 10. þm. Reykv. að sá hluti málsins sem lýtur að stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart hafinu, auðlindum þess og stöðu hafsvæðanna í alþjóðlegu samhengi afvopnunar- og friðarumræðu er hvað mikilvægastur. Satt best að segja fæ ég ekki komið öðru heim og saman en því að þeir sem í reynd styðja þá stjórnarstefnu sem hér er sögð vera að við Íslendingar séum á alþjóðavettvangi fyrst og fremst boðberar þess að afvopnunin þurfi líka að taka til hafsvæðanna, annað en að þeir séu þá jafnframt fúsir til þess að skoða með hvaða hætti við getum fest slíkt í sessi, sýnt það í okkar eigin löggjöf að okkur sé alvara. Því það er nú gjarnan svo að menn taka fyrst til í garðinum heima hjá sér áður en þeir fara að hafa miklar áhyggjur af því hvernig umhorfs er hjá öðrum. Ég held að aðgerð af þessu tagi af hálfu íslenskra stjórnvalda sem hluti af málafylgju okkar á alþjóðavettvangi væri mjög tímabært og rétt skref.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri en endurtek þakkir mínar fyrir þær umræður sem hafa orðið. Ég bind góðar vonir við að málið fái alvarlega umfjöllun í hv. utanrmn. og tilraun verði gerð til þess að ná samstöðu um afgreiðslu þess á þessu þingi.