Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

108. fundur
Þriðjudaginn 24. mars 1992, kl. 18:44:00 (4730)

     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru engar innstæður fyrir því orðbragði hv. 3. þm. Reykv. að menn hafi farið undan í flæmingi og verið með útúrsnúninga og rangfærslur. Ég hef engan mann heyrt nema þá helst hv. 3. þm. Reykv. ræða þetta öðruvísi en málefnalega og rólega. Ég ætla síst að gera lítið úr hlutverki íslensku Landhelgisgæslunnar. Með allri sanngirni held ég að mönnum hljóti að vera ljóst að menn reiknuðu ekki með því að með ákveðnum aðgerðum til að efla Landhelgisgæsluna mundi hún hafa bolmagn í efnislegum skilningi í átökum við breska flotann. Þannig að menn treystu ekki á það eitt að með hervaldi gætu þeir unnið sigur í landhelgisstríðunum. Menn vissu auðvitað vel um liðsmuninn sem þar var á ferðinni. Landhelgisgæslan þjónaði geysilega miklum tilgangi og það er fyrst og fremst sú truflun á veiðunum sem tókst að framkvæma með skipunum, sem varð til þess að við gátum þreytt þá og náð árangri. En fyrst og fremst treystum við á okkar góða málstað og vaxandi stuðning í hinu alþjóðlega samfélagi, ekki síst þriðja heims ríkjanna, við réttmætum kröfum okkar um yfirráðarétt yfir þessum auðlindum. Í þeim skilningi tók ég þetta dæmi. Ef ég man rétt var ein af ráðstöfununum sem gerð var á sínum tíma, líklega í öðru þorskastríðinu, að leigja Hafþór sem nú er rækjutogari á Vestfjörðum. Með fullri virðingu fyrir því merka skipi, held ég að menn hafi nú ekki reiknað dæmið þannig út að með því að bæta Hafþóri í flota Landhelgisgæslunnar mundi hún hafa í fullu tré við breska sjóherinn. Ég held að hv. 3. þm. Reykv. megi ekki leggja út af orðum manna eins og hann gerði, þó að ég leyfði mér að taka þetta dæmi til marks um það að fleiri leiðir eru færar og viðurkenndar en leið valdsins. Það er leið samninga og stjórnmálaaðgerða, friðsamlegar leiðir til þess að ná sínu fram í hinu alþjóðlega samfélagi. Og það er sú leið sem verið er að tala fyrir.