Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

109. fundur
Miðvikudaginn 25. mars 1992, kl. 14:02:00 (4736)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hér í þinginu í gær komu tilmæli um það að sjútvn. ræddi þetta frv. á milli umræðna. Það var gert nú í morgun og eftir ítarlegar umræður í nefndinni féllust nefndarmenn á það að flytja ekki brtt. við frv., heldur að halda sig við það að það yrði samþykkt óbreytt. Hins vegar kom það fram í nefndinni og var samhljóða álit hennar að við eigum ekki að blanda saman viðskiptahagsmunum og veiðihagsmunum.
    Við höfum haldið því fram í viðræðum við aðrar þjóðir að við værum ekki til viðræðna um það að blanda veiðihagsmunum og viðskiptahagsmunum saman. Við höfum byggt okkar málflutning t.d. í hvalamálinu á þessum grundvallaratriðum. Hins vegar kom það fram og nefndin er sammála um að Íslendingar eigi að gera sitt til þess að vinna að því að þjóðir við norðanvert Atlantshaf vinni sameiginlega að því að nýta skynsamlega veiðiheimildir utan lögsögu ríkja. Nefndin beinir þeim ákveðnu tilmælum til sjútvrh., sem hann hefur raunar tekið fram, að við Íslendingar séum tilbúnir til viðræðna við stjórn Kanada um þessi mál. Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að skynsamleg nýting þessarar fiskveiðiauðlindar utan fiskveiðilögsögu, bæði Kanada sem annarra ríkja, verði tekin upp.
    Þetta frv. heitir nú frv. til laga um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, og um það verður ekki deilt að þetta eru fyrst og fremst lög um það að erlendum skipum verði bannaðar allar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eins og hún er ákveðin með lögum frá 1. júní 1979, um landhelgi og efnahagslögsögu og landgrunn, og jafnframt er erlendum skipum óheimilt að vinna afla í efnahagslögsögu Íslands. Fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands mega þeir einir stunda sem eru íslenskir ríkisborgarar eða sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara.
    Ég segi fyrir mitt leyti að ég kann ekki við þann málflutning sem kom fram hjá síðasta ræðumanni varðandi samskipti okkar Íslendinga við nágrannaþjóðirnar. Ég held að það hafi verið ríkjandi hjá allflestum, a.m.k. þingmönnum, velvilji til þessara nágrannaþjóða. Þrátt fyrir gömlu lögin, ég tala nú ekki um þessi nýju sem vonandi verða að lögum, er hvergi að búast við því að sjútvrh. muni skerða þær heimildir sem Grænlendingar hafa haft til löndunar hér á Íslandi og ég hef trú á því að hvorki núv. sjútvrh. frekar en aðrir sem við kunna að taka fari að skerða heimildir nágrannaþjóðanna til þess að landa fiski og leita hér athvarfs, hvort sem það er í neyðartilfellum eða til að landa fiski eða fá viðgerðarþjónustu. Við Íslendingar höfum heimilað Grænlendingum að landa afla sínum hér á landi, t.d. rækjuaflanum. Um það ríkti alveg fullkomin sátt. Hins vegar höfum við, og það hefur verið reynt af fremsta megni af stjórnvöldum og sjútvrn., reynt að ná samningum um sameiginlega nýtingu þessarar auðlindar en því miður ekki tekist. Þrátt fyrir þann velvilja sem við Íslendingar höfum sýnt Grænlendingum hefur það gerst að þeir hafa átt viðskipti við Evrópubandalagið án þess að hafa nokkurt samráð eða samstarf við okkur sem við höfum þó hvað eftir annað óskað eftir og átt fjölmargar viðræður þar um. Því miður. Þetta breytir ekki því að hugarfar okkar til Grænlendinga er óbreytt. Við ætlum ekki --- mér dettur ekki í hug að það sé nokkur maður hér inni sem vilji refsa Grænlendingum fyrir það og ég hef enga trú á því að þó að 3. gr. hafi verið breytt í þessum efnum frá því að frv. var lagt fram verði það til þess að þrengja afgreiðslu eða heimildir Grænlendinga til aukinna viðskipta á Íslandi.
    Við skulum snúa okkur þá að hinum nágrönnunum sem eru Færeyingar. Færeyingar hafa haft mjög náin samskipti við okkur Íslendinga og ég minnist þess á þeim árum þó það sé langt um liðið, að þegar ég var sjútvrh. beitti ég mér fyrir mjög víðtæku samkomulagi við Færeyinga um veiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Það var gert með þeim hætti að þeir fengu verulega hlutdeild miðað við þeirra fiskveiðar í botnfiskafla okkar og mjög mikla hlutdeild, sem þá munaði mikið um í sambandi við loðnuveiðar. Þá nýttum við ekki til fulls möguleikana til loðnuveiða og var okkur því útgjaldalítið að veita Færeyingum þetta.
    Síðan vita menn hvernig ástand hefur breyst frá ári til árs í loðnuveiðum. Hér var stór floti. Í upphafi þessa tímabils leitaði hann á mið annars staðar, í Norðursjónum. Þá þótti okkur gott að neyta heimilda hjá öðrum þjóðum. Síðan fóru Íslendingar að geta fullnýtt að öllu sinn loðnukvóta, það varð hröð uppbygging á verksmiðjum og Norðursjávarflotinn kom hingað til þess að stunda þessar veiðar og síðan varð enn samdráttur sem gerði það að verkum að íslensku skipin sem þessar veiðar stunduðu þurftu að fá frekari aflaheimildir. Allt varð þetta til þess að þrengja að Færeyingum.
    Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef aldrei tekið undir það, hvorki á meðan ég var sjútvrh. né síðar, að svipta eigi þær þjóðir sem fengu hér veiðiheimild á sínum tíma að öllu leyti þeim heimildum. Belgar voru sú þjóð sem braut ísinn fyrir okkur og við gerðum samning um veiðar belgískra togara í íslenskri landhelgi. Þær veiðar voru bundnar við ákveðin skip. Þau skip eru núna horfin af sjónarsviðinu nema held ég tveir litlir togarar sem veiða sáralítið. Ég tel ekki ástæðu til að hverfa frá því þó það syrti í álinn hjá okkur. Það gengur yfir eins og annað og þetta eru ekki það miklar veiðiheimildir.
    Ég heyrði líka í mörgum aðilum hér að þeir báru ekki mjög hlýtt hugarþel til Færeyinga því þrátt fyrir það að þessi nágrannaþjóð okkar rambi nú á barmi gjaldþrots þá voru hávarar kröfur og raddir um það hér á Íslandi að það ætti að svipta þá öllum veiðiheimildum á stundinni. Ég tel að það hafi verið afskaplega vel gert hjá hæstv. sjútvrh. að láta ekki undan þessum kröfum. Og ef ég ætti eitthvað að gagnrýna í því þá finnst mér að hann hafi gengið of langt gagnvart Færeyingum, en auðvitað allt of skammt gagnvart þessum kröfuhöfum, en ég er ekkert að halda því á lofti. Hann hélt á þessu máli eins og hann frekast gat gagnvart Færeyingum, í samskiptum við nágrannaþjóð okkar sem við höfum alltaf átt vinsamleg samskipti við.
    Ég tel að það sé afar mikils virði að gera þessa breytingu og setja þessa nýju löggjöf og mér kemur ekki til hugar að sjútvrh. ætli að þrengja í framkvæmdinni gagnvart þessum tveimur nágrannaþjóðum. Mér dettur ekki í hug að halda það. Þess vegna tel ég það afar mikils virði að Alþingi reyni að ná sem víðtækustu samstarfi um þessi efni.
    Utanrmn. þingsins fékk þetta frv. til umsagnar. Hún fjallaði um frv. og þar sitja níu þingmenn. Þessir þingmenn allir koma sér saman um það að þessi breyting verði gerð á frv. ásamt annarri breytingu sem enginn nefnir hér og allir eru sammála um. Þetta kemur svo til sjútvn. Við stóðum frammi fyrir því annaðhvort að ganga inn á breytingu í líka átt og þessa eða að segja: Frv. fer algjörlega óbreytt í gegn. Þó að ég sé nokkuð róttækur í þessum efnum, þá taldi ég vænlegra og hyggilegra að velja fyrri kostinn, að gera þessa breytingu þannig að erlendar þjóðir sjái það að Alþingi sé nokkurn veginn samstiga í þessari breytingu og það komi alveg ljóst fram að ekki muni verða skert í framkvæmdinni það sem lýtur að nágrannaþjóðum okkar. Það hef ég fyrir satt og sjútvrh. hefur margsagt það í mín eyru að hann muni líta þannig á málin. Það var líka mikið atriði að sjútvrh. féllst á þessa breytingu og þess vegna náði hún fyrst og fremst fram að ganga.

    Ég endurtek að ég tel nauðsynlegt, hvað sem líður afgreiðslu þessa lagafrv., að við eigum samleið í þeim efnum að nýta fiskstofnana, nýta fiskimiðin. Það getur engin ein stétt sagt: Ég vil fá allt sem ég vil, en hinn ekkert. Hér er verið að fara hið vandrataða meðalhóf í þeim tilgangi að halda áfram og reyna að ná skynsamlegum samningum og samstarfi þjóða við norðanvert Atlantshaf um nýtingu fiskimiðanna.