Flutningur stofnana á vegum ríkisins út á landsbyggðina

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 10:41:00 (4758)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Því miður er það þannig að það er mikil sorgarsaga, viljaleysi ríkisstjórna á síðustu 20 árum við að taka á þessu máli. Ríkisstjórnin sem sat 1971--1974 setti nefnd til þess að vinna að flutningi ríkisstofnana og gegndi ég formennsku í þeirri nefnd. Í henni var margt góðra manna, m.a. núv. hæstv. utanrrh., sem þá var skólameistari á Ísafirði og starfaði í nefndinni, og við skiluðum mjög ítarlegri skýrslu sem lögð var fram hér á þinginu. Þar voru gerðar ítarlegar tillögur um flutning ríkisstofnana, bæði útibúa, deilda og heilla stofnana. Ég er sannfærður um að ef farið hefði verið að þeim tillögum hefði mátt spara mikið vegna þess að þá hefði uppbygging margra stofnana farið fram utan höfuðborgarsvæðisins. Hins vegar er á þessum 20 árum búið að byggja yfir þær margar hér. Það þarf þess vegna mjög sterkan pólitískan vilja til þess að hrinda í framkvæmd aðgerðum á þessu sviði og ég vona að hæstv. ríkisstjórn reynist hafa þann vilja.