Viðhald opinberra bygginga

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:13:00 (4776)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur komið í ljós að fjölmargar merkar og sögulegar byggingar í eigu ríkisins eru afar illa farnar vegna þess að þeim hefur ekki verið haldið við með eðlilegum hætti. Gömlu steinhúsin sem reist voru af gömlu konungsstjórninni á 18. öld hafa verið tekin í gegn eitt af öðru og nægir þar að minna á Viðeyjarstofu, Hóladómkirkju og Bessastaði auk þess sem unnið er að endurbyggingu Nesstofu um þessar mundir. Ýmsar menningarbyggingar frá þessari öld eru illa farnar og má þar nefna ýmsa skóla, Þjóðminjasafnið og Þjóðleikhúsið en endurbyggingu þess er enn ekki lokið. Viðgerðir á þessum húsum kosta ríkið hundruð milljóna og það má ljóst vera að sú stefna sem hér hefur verið rekin gagnvart opinberum byggingum er alröng og mjög svo misskilinn sparnaður þegar viðhald bygginga er dregið ár eftir ár. Því fýsir mig að vita hver stefna ríkisstjórnarinnar er í þessum efnum og hvort þess megi vænta að viðhald hinna fjölmörgu bygginga ríkisins verði með eðlilegum hætti í framtíðinni, svo og hvernig að verki verði staðið. Ég spyr því hæstv. forsrh.:
    ,,Hvernig er háttað eftirliti með ástandi opinberra bygginga og áætlanagerð um nauðsynlegt viðhald húsa í eigu ríkisins?``