Skipulag á hálendi Íslands

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:32:00 (4784)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir því sjónarmiði mínu að varast beri að menn lendi í gryfju miðstýrðrar forsjárhyggju þegar kemur að skipulagi hálendisins. Ég sat um tíma í stjórnskipaðri nefnd sem átti að fjalla einmitt um þetta mál. Mér ofbuðu þau sjónarmið sem þar komu fram í þá veru að engum öðrum væri treystandi til þess að annast eftirlit og skipulagsmál á hálendinu en miðstýrðri nefnd undir ráðuneyti í Reykjavík. Ég get fullyrt hér að allar slíkar hugmyndir munu mæta mjög mikilli andstöðu.
    Varðandi mál hv. fyrirspyrjanda um alla fjallakofanna, þá finnst mér að þar fari menn stundum fram úr sjálfum sér í málflutningi og stundum heyrist manni á máli þeirra sem þar hafa mestar áhyggjur að þar sé orðið nánast hús við hús líkt og í þéttbýli. En það er frekar vandamálið að menn eiga í vandræðum með að finna þau hús sem þarna eru heldur en þau séu stöðugt að þvælast fyrir þeim sem þar eru á ferðinni.