Réttindi heimavinnandi fólks

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 11:54:00 (4793)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Af óviðráðanlegum ástæðum getur hv. 4. þm. Suðurl. ekki verið hér í dag og ég hleyp í skarðið til að bera fram fsp. til félmrh. um réttindi heimavinnandi fólks. Fsp. er svohljóðandi:
    ,,Eru fyrirhugaðar af hálfu ríkisstjórnarinnar einhverjar ráðstafanir sem tryggja réttindi heimavinnandi fólks til jafns við þá er stunda launaða vinnu utan heimilis?
    Ef svo er, hverjar eru þær ráðstafanir og hvenær koma þær til framkvæmda?``
    Það er augljóst að mismunur á réttindum fólks er verulegur eftir því hvort það stundar launaða vinnu utan heimilis eða sinnir heimilisstörfum eingöngu. Þar nægir að nefna ýmis réttindamál eins og lífeyrisréttindi. Nefna má veikindaréttindi og orlofsmál og fleira sem skiptir nokkuð miklu máli.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að óska eftir svörum frá hæstv. félmrh. við þessum fyrirspurnum.