Framlag sveitarfélaga til félagslegra íbúða

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:08:00 (4799)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Með samþykkt á lögum nr. 1/1992, bandorminum svokallaða, var samþykkt að sveitarfélög skyldu leggja fram óafturkræft gjald vegna bygginga og kaupa á félagslegum íbúðum í sveitarfélaginu. Nú eru það ekki bara sveitarfélög sem standa fyrir því að byggðar eru slíkar íbúðir og keyptar innan sveitarfélagsins, heldur eru ýmis sveitarfélög, jafnvel nemendafélög sem geta átt þar í hlut. Mér er kunnugt um að sveitarfélög eða forsvarsmenn þeirra hafa átt í miklum erfiðleikum með að fá upplýsingar frá ríkisvaldinu um það hvernig framkvæmd þessa máls á að vera og í tengslum við fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna gekk ekki að fá upplýsingar um það. Hlutfallslega getur þarna verið um gífurlega fjármuni að ræða þannig að ég tel það mjög mikils virði að sem allra fyrst liggi fyrir hvernig fara eigi að hvað framkvæmdir snertir. Þess vegna hef ég leyft mér, hæstv. forseti, að leggja fram fsp. á þskj. 586 til hæstv. félmrh. um framlag sveitarfélaga til félagslegra íbúða. Fsp. er í fjórum liðum og hljóðar svo:
  ,,1. Hvenær er áformað að ákvæði 10. gr. laga nr. 1/1992 (bandorms), um 3,5% óafturkræft framlag sveitarfélaga af kaup- eða kostnaðarverði félagslegra íbúða, komi til framkvæmda?
    2. Verður innheimt gjald af íbúðum sem eru í byggingu við gildistöku laganna?
    3. Hvenær á byggingartímanum á að greiða gjaldið?
    4. Verður krafist gjalds af byggingu stúdentagarða?``