Framlag sveitarfélaga til félagslegra íbúða

110. fundur
Fimmtudaginn 26. mars 1992, kl. 12:14:00 (4802)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga úr því sem fram kom í máli síðasta ræðumanns að í einstaka tilfellum getur það verið erfitt fyrir smærri sveitarfélögin að standa undir slíku framlagi, sérstaklega

ef ráðist er í miklar framkvæmdir í einu. Ég vil þó segja að það sem hér er sett fram og var samþykkt á Alþingi var gert í fullu samráði við Samband sveitarfélaganna svo og útfærslan á því. Út frá því var gengið að þetta framlag mundi ná til allra félagslegra íbúða.
    Ég vil líka segja það að sveitarfélögin hafa tiltölulega lítinn kostnað og leggja fram tiltölulega lítið fjármagn almennt varðandi uppbyggingu á félagslegum íbúðum. Oft á tíðum hefur það komið fram, sem ég hef verulegar áhyggjur af, að ýmis sveitarfélög standa ekki að framkvæmdinni varðandi félagslega íbúðakerfið eins og lög gera ráð fyrir. Þá á ég t.d. við kaupleiguíbúðir. Sveitarfélögin eiga samkvæmt lögum að gefa fólki val um það hvort það kaupir eða leigir kaupleiguíbúð en þetta val stendur fólki oft ekki til boða. Í annan stað á sveitarfélag að lána ákveðinn hluta af framlagi til félagslegra íbúða til viðkomandi en það er oft á tíðum sem viðkomandi er beint krafinn um þetta framlag þó að alls ekki sé gert ráð fyrir því samkvæmt lögum. Í ýmsum tilfellum er það svo, því miður, að sveitarfélögin skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem þau hafa varðandi þeirra hlut og þátttöku í félagslega íbúðakerfinu og er það miður. En þegar á heildina er litið tel ég að alls ekki séu lagðar of miklar byrðar á sveitarfélögin varðandi uppbyggingu á félagslega húsnæðiskerfinu. Mesti kostnaðurinn kemur í hlut ríkisvaldsins. Ég get vissulega tekið undir það með hv. þm. að í einstaka tilvikum getur þetta valdið erfiðleikum fyrir ýmis sveitarfélög og ég sé ekki eins og lög eru núna að Jöfnunarsjóðurinn geti komið inn í þennan þátt málsins.