Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:08:00 (4837)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög athyglisvert að í allri þessari umræðu um það hvort um stefnubreytingu sé að ræða eða ekki í afstöðunni til Evrópubandalagsins hefur hæstv. utanrrh. ekki treyst sér til að nefna á nafn í eitt sinn yfirlýsingar hæstv. forsrh. Það er mjög athyglisvert. Skýringin er auðvitað sú að hæstv. utanrrh. treystir sér ekki til að sýna fram á að það sé samfella í því sem hann er að segja í skýrslu sinni og segir í ræðum hér í dag og því sem hæstv. forsrh. hefur marglýst yfir. Ég skal útskýra þetta með einföldum hætti fyrir hæstv. utanrrh. Það er alveg rétt hjá honum að það er áfram stefna ríkisstjórnarinnar að gera samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, það er ekki stefnubreyting. Og það er líka alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. sem hann sagði hér áðan að það er ekki stefnubreyting hvað það snertir að það er ekki boðað að ríkisstjórnin eigi nú að leggja fram umsókn um aðild að EB. Þetta er allt saman rétt. En þriðja atriðið, hæstv. utanrrh., er stefnubreyting. Og hún er fólgin í því að frá fyrsta degi núv.

hæstv. ríkisstjórnar og til fundarins í Helsinki fyrir rúmri viku síðan hefur hæstv. forsrh. sagt hvað eftir annað: Aðild að Evrópubandalaginu verður ekki tekin til umfjöllunar á meðan þessi ríkisstjórn situr. Aðild Íslands að Evrópubandalaginu er ekki umfjöllunaratriði, ekki könnunaratriði á vettvangi ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili, og þessu hafa allir trúað. Þessu hef ég trúað, þessu hefur þjóðþingið trúað, þessu hefur þjóðin trúað. Og þess vegna hefur ekki verið nein umræða um málið hér á þinginu í allan vetur. En nú kemur hæstv. utanrrh. og segir: Nú á að hefja þessa könnun um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. --- Og hann segir meira: Allt Stjórnarráðið á að hefja þessa könnun. Öll ráðuneytin, allar stjórnstofnanirnar eiga að hefja þessa könnun. (Forseti hringir.) Síðan á að taka afstöðu til þess hvort það eigi að hafna aðild. Það er í þessu sem stefnubreytingin felst, að utanrrh. boðar að ráðuneytin og stjórnstofnanir (Forseti hringir.) --- ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, --- eigi að kanna aðild að Evrópubandalaginu, en forsrh. hefur sagt: Á þessu kjörtímabili verður engin slík könnun gerð vegna þess að málið er ekki dagskráratriði í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar.