Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:34:00 (4853)

     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 180 um friðun ,,Landnáms Ingólfs`` fyrir lausagöngu búfjár.
    Flm. ásamt undirritaðri eru Svavar Gestsson, Árni R. Árnason, Valgerður Sverrisdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Karl Steinar Guðnason, Margrét Frímannsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Tillgr. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela umhvrh. og landbrh. að vinna áætlun í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög sem miði að því að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár í ,,Landnámi Ingólfs``.
    Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings, 1992.``
    Það svæði sem nefnt er Landnám Ingólfs er Gullbringu- og Kjósarsýsla, Þingvallahreppur vestan þjóðgarðs, Grafningshreppur, Ölfushreppur, Hveragerðishreppur og Selvogshreppur og brot af Selfosshreppi. Landsvæði þetta takmarkast af línu sem dregin er úr Hvalfjarðarbotni í þjóðgarðinn á Þingvöllum og þaðan suður Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Sog og Ölfusá til sjávar.
    Sérstaða þessa svæðis er mjög mikil hvað varðar búsetuþróun því mikill meiri hluti landsmanna eða um 2 / 3 hlutar býr á þessu svæði. Í Landnámi Ingólfs eru 20 sveitarfélög og yfirgnæfandi meiri hluti íbúa býr í þéttbýli.
    Í Landnámi Ingólfs eru 17 friðlýst svæði sem skiptast þannig eftir gerð friðlýsingar: einn þjóðgarður, fjögur friðlönd, átta náttúruvætti og fjórir fólkvangar. Þingvallaþjóðgarður er ekki friðlýstur samkvæmt náttúruverndarlögum og er því ekki undir stjórn Náttúruverndarráðs. Með framkvæmd friðlýsingar í þjóðgarðslandinu fer sérstök þingskipuð nefnd.
    Mikill áhugi hefur verið á því á undanförnum árum meðal áhugafólks um verndun og eflingu gróðurs í landinu að þetta svæði verði friðað fyrir lausagöngu búfjár. Hafa félögin Líf og land, Landvernd og Árnesingafélagið í Reykjavík ítrekað bent almenningi og stjórnmálamönnum á að brýna nauðsyn ber til þess að hefta hina geigvænlegu jarðvegs- og gróðureyðingu sem orðið hefur, og allt of víða viðgengst enn, á suðvesturhorni landsins. Landvernd hélt sérstaka ráðstefnu árið 1984 um landnýtingu og landnotkun á svæðinu, náttúruverndarþing ályktaði um málið á sl. hausti og sendi frá sér áskorun til Alþingis og félagasamtök skipuð áhugamönnum um verndun og eflingu gróðurs í landinu hafa bundist samtökum um að vinna að framgangi þess að Landnám Ingólfs verði friðað fyrir lausagöngu búfjár.
    Þess má geta að áskorun, sem send var þingmönnum í september 1990, var undirrituð af fjórtán félögum og félagasamtökum.
    Í þeirri áskorun var bent á að samband milli gróðurs og búsetu sé allt annað nú en það var fyrr á öldum. Áður fyrr hafi landsmenn þurft að sækja mest af lífsbjörg sinni beint og óbeint í gróður landsins. Þó hafi gróðureyðing verið miklu minni en síðar varð. Frá landnámsöld sé talið að 2 / 3 gróðurlendis hafi

eyðst með öllu og eyðing gróðurs fari hraðvaxandi hin síðustu ár.
    Bent er á að gróðureyðingu verði tafarlaust að stöðva og að gróðurvernd og landgræðsla geti skilað miklum árangri með nútímaræktunaraðferðum ef náttúrulegur gróður og jarðvegur hefur ekki eyðst.
    Lögð er áhersla á að friðun lands sé ekki stefnt gegn hagsmunum bænda. Þvert á móti mun friðun lands og efling gróðurs bæta hag þeirra. Í niðurstöðu þeirra segir, með leyfi forseta:
    Félagasamtökin sem stofnuð hafa verið af áhugamönnum um verndun og eflingu gróðurs í landinu hafa bundist samtökum um að vinna að framgangi þess að Landnám Ingólfs verði friðað fyrir lausagöngu búfjár. Þekking á gróðurástandi þessa landsvæðis og hnignun gróðurs hin síðari ár er þegar fyrir hendi. Semja þarf um málið við sauðfjárbændur á svæðinu og gera áætlun um fyrirkomulag framkvæmda í einstökum atriðum og áætla kostnað. Þá sé enn fremur nauðsynlegt að innan stjórnmálaflokkanna fari fram umræða um framkvæmd og fyrirkomulag friðunarinnar.
    Þessi mál hafa oft verið til umræðu á Alþingi. Má nefna að á 111. löggjafarþingi var lagt fram stjfrv. um vörsluskyldu búfjár á Reykjanesskaga sem hlaut ekki afgreiðslu. Í greinargerð með því frv. er vísað í samþykkt aðalfundar Gullbringusýslu frá því í júlí 1988 þar sem sýslunefnd Gullbringusýslu skorar ítrekað á stjórnvöld að beita sér fyrir því að Gullbringusýsla verði friðuð fyrir lausagöngu búfjár. Þar vill sýslunefnd Gullbringusýslu vekja athygli á að samkvæmt afsalsbréfi landbrh., dags. 29. sept. 1941, er sýslunefnd Gullbringusýslu eigandi að beitarrétti í landi Krýsuvíkur.
    Landgræðslustjóri gefur í sama mánuði eftirfarandi umsögn vegna samþykktarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Mál þetta er mjög athyglisvert og brýnt þar sem ástand gróðurs á Reykjanesi er yfirleitt óviðunandi og þrátt fyrir verulega fækkun sauðfjár á þessu svæði kemur sauðfjárbeitin í veg fyrir að gróðri þar fari fram sem skyldi. Verst er ástandið í útlandi Krýsuvíkur og þarfnast það svæði tafarlausrar friðunar. Ljóst er að ef unnt verður að framkvæma bann við lausagöngu búfjár á umræddu svæði væri það fordæmi fyrir fleiri slíkar aðgerðir sem því miður er víða þörf á. Það er brýnt að taka mál þetta föstum tökum og ná víðtækri samstöðu um aðgerðir. Starfsmenn stofnunarinnar eru reiðubúnir til þess að starfa með landbrn. að framgangi þessa máls``, segir í umsögn landgræðslustjóra.
    Á 113. löggjafarþingi var flutt till. til þál. um lausagöngu búfjár, sem hlaut heldur ekki afgreiðslu, um að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að takmarka lausagöngu búfjár við þjóðvegi og þar sem gróður er viðkvæmur fyrir beit. Ríkisstjórnin skyldi fela Landgræðslu ríkisins í samvinnu við gróðurverndarnefndir að gera áætlun um gróðurvernd og uppgræðslu og halda áfram samningum við bændur um afmörkun og staðsetningu beitarhólfa fyrir takmarkaðan fjölda búfjár. Í greinargerð og fylgiskjölum með þeirri þál. er vikið að friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár. Þar er m.a. birt umsögn Ingva Þorsteinssonar um bann við lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs og leyfi ég mér að lesa þá umsögn, með leyfi forseta:
    ,,Undirritaður getur fallist á nánast öll þau rök sem færð eru fyrir áskorun til Alþingis, dags. 28. nóv. 1990, um friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár. Gróðurfarslega er mikill hluti þessa landsvæðis afar illa farinn og þar er ekki hægt að finna óspilltan náttúrulegan gróður nema þar sem land hefur verið friðað fyrir beit í langan tíma eins og í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og í elstu hlutum friðlandsins í Heiðmörk. Í Landnámi Ingólfs eru víðáttumikil sandfokssvæði, t.d. sunnan við Hafnir, í Þorlákshöfn og norðan Þingvalla. Í Krýsuvík, á Hengilssvæðinu í Grafningi og víða í Þingvallasveit á sér stað mikil og ör gróður- og jarðvegseyðing sem flokkast með verstu svæðum á landinu hvað þetta snertir. Mikill hluti Reykjanesskagans er hraun með þunnum og afar viðkvæmum jarðvegi og gróðri sem hefur rýrnað gífurlega, fyrst og fremst fyrir áhrif búsetunnar, og sá gróður þolir nánast enga beit.
    Allar þessar staðreyndir blasa við þeim sem fara um landið með opnum augum og þær hafa verið staðfestar með rannsóknum. Öll rök mæla með því að þessi svæði séu friðuð fyrir beit og því markmiði er unnt að ná með því að banna lausagöngu búfjár eins og áskorun til Alþingis leggur til að hafist verði handa um.
    Það eru raunar fjölmörg önnur rök sem styðja þá áskorun og þar vegur þungt sú staðreynd sem einnig er bent á að á þessu svæði búa um tveir þriðju af íbúum landsins. Á undanförnum árum hefur verið lögð á það vaxandi áhersla að auka skilning landsmanna á því hversu gífurlegt umhverfisvandamál gróðureyðingin á Íslandi er og að virkja landsmenn til baráttu gegn henni. En það er erfitt að koma þeim skilaboðum áleiðis, a.m.k. til þeirra sem búa á Stór-Reykjavíkursvæðinu, meðan landið í kringum þá er með þeim hætti sem nú er og ekki er af alvöru tekið á þeim málum.
    Undirritaður styður að sjálfsögðu heils hugar þessa áskorun og telur raunar að fyrir löngu hefði átt að taka á þessum málum. Hins vegar væri rétt á þessu stigi málsins að undanskilja Kjalarnesið og Kjósina á þeim grundvelli að þar er ekki hægt að telja að um umtalsverða gróður- eða jarðvegseyðingu sé að ræða. Gróðurfar á því svæði er í eðli sínu slitsterkt og það ásamt mikilli fækkun á sauðfé á síðasta áratug hefur jafnvel leitt til þess að gróður er þar í framför. Þar gilda því ekki sömu rök fyrir banni við lausagöngu búfjár. Hins vegar er það skoðun undirritaðs að fátt eða ekkert sé betur til þess fallið að stöðva gróðureyðingu á Íslandi og endurheimta að nýju horfin landgæði en takmörkun á lausagöngu búfjár í landinu öllu. Þetta hafa flestar aðrar þjóðir fyrir löngu komið auga á og vonandi þarf ekki að bíða mikið lengur eftir því að alvarleg umræða um það mál hefjist einnig hér``, sagði Ingvi Þorsteinsson í umsögn sinni.

    Skiptar skoðanir eru um að hefta lausagöngu búfjár og stundum dregin sú ályktun að átakapunkturinn sé ábúendur og þeirra stuðningsmenn annars vegar gegn þéttbýlisfólkinu, vegfarendum og jafnvel umhverfissinnum. Svo einfalt er málið ekki, en þó er ljóst að allt of algengt er að bændum þyki umræðu um þessi mál stefnt gegn hagsmunum sínum meðan aðrir telja að í lausn þessara mála felist hagsmunir allra aðila.
    Fyrir skömmu bar það við að sveitarfélag á Austfjörðum setti oddvita sinn af þar sem hann þótti of mikill talsmaður þess að hefta lausagöngu búfjár. Í Ölfushreppi lýstu hins vegar 70 íbúar búandi á lögbýlum í hreppnum vilja sínum með undirskriftalista sem sendur var hreppsnefndinni þar sl. vor. Þeir töldu brýnt að auknar skorður verði settar við lausagöngu sauðfjár í hreppnum og lýsa þar þeim vilja sínum, með leyfi forseta: ,,að mál þróuðust í þá átt hér á suðvesturhorni landsins að búfjáreigendur yrðu ábyrgir fyrir því að girða af sitt búfé.`` Jafnframt kom fram það álit að til að farsæl lausn fáist í málinu sé nauðsynlegt að hafa samráð við alla þá er málið varðar.
    Það sjónarmið hefur verið sett fram varðandi bann við lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs að þar hafi búskaparhættir breyst svo mjög að ekki sé þörf afskipta af þessum málum. Þar hafi orðið mikil fækkun sauðfjár og jafnvel að framkvæmd búvörusamnings geri það að verkum að smám saman verði slík fækkun að ekki sé aðgerða þörf. Jafnvel er því sjónarmiði hreyft að vegna hins mikla niðurskurðar á svæðinu skapi slík tillaga glundroða og sé árás á Landnám Ingólfs og til þess fallin að skapa ótta hjá þeim fáu ábúendum sem eftir eru. Sú tillaga sem hér er til umræðu tekur að fullu tilliti til þessara sjónarmiða. Þar er lagt til að unnin verði áætlun í samvinnu við sveitarfélögin og sú áætlun verði lögð fyrir Alþingi er fallist á það sjónarmið að ekki sé æskilegt að setja lagaboð beint ofan frá um þetta efni.
    Sveitarfélögin fengu með lögum um búfjárhald, sem sett voru á sl. vori, heimild til að koma í veg fyrir ágang búfjár og að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Með samvinnu við sveitarfélögin er jafnframt tryggt að tekið sé tillit til sjónarmiða ábúenda á svæðinu. Það liggur líka í hlutarins eðli að inn í áætlun sem þessa komi kostnaðaraðgerðir og hlutdeild ríkisins í þeim. Það væru ný vinnubrögð og samábyrgð Alþingis að slík áætlun væri lögð fyrir þingið. Þar með kemur fram vilji stjórnvalda til að viðhalda búskap á svæðinu til þess m.a. að tengja þéttbýli og dreifbýli. Það er mikilvægt fyrir íbúana en verður að vera í ákveðnum böndum. Ábyrgð búfjáreigenda hér á landi er minni en víðast hvar annars staðar á Vesturlöndum og hin síðari ár hefur orðið vart vaxandi spennu milli almennings og bænda vegna lausagöngu búfjár, ekki síst vegna umferðarmála.
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið eru aðstæður afar misjafnar í Landnámi Ingólfs. Við höfum Reykjanesið með sinn viðkvæma gróður, Kjalarnes og Kjós þar sem gróðurskilyrði eru yfirleitt góð og Þingvallasveit þar sem aðstæður eru enn aðrar. Það er sjálfsagt að taka tillit til þessa en það er líka orðið löngu tímabært að tengja betur saman ábyrgð og réttinn til landnotkunar.
    Ég vil að lokum taka undir þau orð að flóra, fána og fólk eigi saman í nánu sambýli þar sem full tillitssemi ríkir.
    Virðulegi forseti. Að lokinni umræðu óska ég eftir að máli þessu verði vísað til umhvn.