Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:48:00 (4854)


     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér er lögð fram till. til þál. um friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár. Í greinargerð með tillögunni er m.a. vitnað í ráðstefnu haldna á vegum Landverndar árið 1984 um landnýtingu og landnotkun á svæðinu.
    Vissulega er ömurlegt að horfa upp á alla þá gróðureyðingu sem er um allt land, og sérstaklega á þessu belti sem gengur þvert yfir landið, þessu virka eldgosabelti þar sem jarðvegur er að miklu leyti gjóska og gróður er víða mjög rýr. Þetta á sérstaklega við á svæði Landnáms Ingólfs. Það er líka nöturleg tilfinning að vakna upp að morgni og sjá að nýgróðursettar trjáplöntur hafa verið hressilega stýfðar af fé sem á einhvern hátt hefur komist inn fyrir hinn girta reit. Á svæði því sem hér er nefnt Landnám Ingólfs og á búa tveir þriðju hlutar þjóðarinnar hefur búskapur verið allnokkur alveg fram á þennan dag en hann er óðum að breytast.
    Þarna eru margar andstæður og eflaust eru á engu svæði landsins þvílíkar andstæður milli þéttbýlis og dreifbýlis eins og kemur fram í þeim árekstrum sem títt hafa orðið þarna. Og vissulega er það alveg rétt að þetta svæði þarf meðhöndlunar við. Það þarf að græða upp þetta land og það þarf að koma böndum á búfjárhald á þessu svæði. Það er hins vegar dálítið dapurlegt að það þurfi að koma til kasta hv. Alþingis að koma einhverjum böndum á þetta. Að þetta mál hafi ekki verið afgreitt fyrir löngu síðan og unnið í samvinnu við bændur og þeirra samtök. En þannig er að með breyttum búskaparháttum hefur orðið gífurleg fækkun á þessu svæði í sauðfjárhaldi. Og þegar þessi umrædda ráðstefna var haldin árið 1984 voru aðstæðurnar allt aðrar en þær eru í dag.
    Á sl. þremur til fimm árum hefur landbúnaðurinn breyst mjög mikið, landbúnaðarframleiðslan enn fremur og við hljótum að þurfa að taka mið af því en ekki hvernig aðstæðurnar voru fyrir enn fleiri árum. Á þessu svæði hefur sauðfé fækkað gífurlega en það má ekki gleyma því að hrossum hefur fjölgað og það eru gjarnan hross þéttbýlisbúans.
    Það verður líka að hafa í huga hvað er lausaganga og það er kannski orð sem hefur verið misnotað dálítið að undanförnu. Það er sem sagt lausaganga þegar fé gengur sjálfala utan girðingar. En hitt er svo annað mál að á þessu svæði er mikið af jörðum þar sem ekki er hægt að tala um lausagöngu en þær jarðir eru svo illa farnar að þar má segja að það séu jarðníðingar sem standa að verki og það er kannski það sem líka þarf að skoða. Við getum nefnt dæmi, bæði í Mosfellssveit og víðar, í Ölfusinu, þar eru menn sem kunna ekki að umgangast landið og þar er ekki verið að tala um lausagöngu. En samt sem áður þarf að meðhöndla það svæði.
    Það má líka taka dæmi eins og Ölfusforir. Þar er mikil hrossabeit og það er líka spurning hvaða áhrif hrossabeitin hefur á fuglalíf og þann votlendisgróður sem þar er. Þar held ég að þurfi líka að koma bændum á þannig að það er ekki hægt að tala um þetta sem sauðfé eingöngu sem þurfi að koma í hólf og banna lausagöngu. Ég held að þetta orð, lausaganga, eigi ekki rétt á sér í dag. Ég held að það þurfi að skilgreina þetta á annan hátt.
    Hins vegar er á þessu svæði er, eins og fram kom hjá hv. 1. flm. tillögunnar, aldur og fjöldi ábúenda jarða er mjög mismunandi. Þetta er mikið af eldra fólki sem hefur búið þarna alla sína tíð og ef við tökum t.d. svæði eins og Þingvallahrepp og Grafning, sérstaklega kannski Grafninginn, þá eru örfá býli þar sem eina atvinna fólksins er sauðfjárbúskapur. Þrátt fyrir öll umsvif Reykjavíkurborgar þar sem hafa verið settir milljarðar í Nesjavallavirkjun og störf þar, þá hefur það ekki skapað atvinnu fyrir það fólk sem þarna býr í sveitinni og það má segja að bæði Grafningur og Þingvallahreppur séu meðal afskekktustu sveita á þessu svæði og fátt um aðra atvinnu en búskap í þessum tveimur hreppum. Hins vegar má ekki gleyma því að ferðamannastraumur er mikill þrjá, fjóra mánuði á ári og það kann vel að vera að þarna væri eitthvað hægt að örva atvinnu þessa fólks en eins og málið er núna þá er ekki um neina aðra atvinnu að ræða og það er ekki hægt að afgreiða þetta mál þannig að bændur geti bara farið að afgreiða í sjoppu á sumrin.
    Auk þess er búseta í þessum hreppum ákaflega mikilvæg vegna þess að það er öryggisatriði að þarna sé búið. Ég held að það sé mjög varasamt að fara í aðgerðir nema í fullu samráði við bændur. Annað sem er sérstaða í Grafningi og Þingvallahreppi er það að afréttur og heimalönd liggja saman. Það eru ekki nein afmörkuð skil þarna á milli og vissulega er það góð þróun að þarna er verið að rækta upp og styrkja heimalöndin til þess að létta á afréttunum.
    Þarna erum við líka með vandamál þar sem eru vegirnir. Þegar talað er um að um 400 þús. manns komi árlega á Þingvelli þá gefur það auga leið að þetta eru gífurlega fjölfarnar leiðir og það þarf að gera ráðstafanir til að losna við búfé þarna úr vegköntunum. Hins vegar er á svo til öllu því svæði sem rætt er um í tillögunni verið að vinna að svæðisskipulagi. Og svæðisskipulag er í raun og veru samkvæmt skipulagslögum, samkvæmt skipulagsreglugerð er markmiðið að móta samræmda heildarstefnu um þróun byggðar á svæðinu og stuðla að hagkvæmri þróun og það á að sýna í einstökum atriðum stefnumörkun hlutaðeigandi sveitarstjórnar um þróun byggðar og landnotkun innan svæðisins. Þetta er mjög öflugt stjórntæki. Að vísu er það stutt á veg komið í okkar skipulagsvinnu hér á landi og fá svæði hafa enn verið tekin til svæðisskipulags. En þarna er sem sagt verið að vinna ákveðið verk og þetta hlýtur að koma inn í þá vinnu vegna þess að þessi landbúnaður er ekkert annað en ákveðin tegund af landnotkun. Og það má ekki aðskilja þetta. Þetta þarf að vinna í samvinnu við bændur, sveitarstjórnirnar, og í samvinnu við Landgræðslu ríkisins.
    Það er mjög brýnt að gera áætlun um uppgræðslu á þessu svæði og ég sakna þess að Landgræðsla ríkisins hafi ekki nú þegar gert það. Ég tel hins vegar að þarna þurfi að koma fyrir beitarhólfum. Það þarf að endurskoða girðingar þarna, en ég tel vafasamt að einstök landsvæði séu tekin til sérstakrar meðferðar af hv. Alþingi. Það þarf að líta á landið sem eina heild og ég bendi á þá vinnu sem er í gangi hjá nefnd sem landbrh. skipaði í september sl. Ég efast um það að við eigum að taka svona eitt einstakt svæði til meðferðar.