Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 14:09:00 (4868)

     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta en mér kom í hug þegar ég hlustaði á síðari ræðu hv. flm. sem ræddi hér um það svæðisskipulag sem verið er að vinna af fagfólki með hreppsnefndum viðkomandi sveitarfélaga og þar af leiðandi í sátt við íbúa hreppanna hvort ekki væri nú rétt að bíða þess að þær tillögur liggi fyrir um framtíðarskipulag áratugi fram í tímann á svæðinu.
    Enn fremur vil ég vegna dálítið frjálslegrar umfjöllunar flm. um lausagöngu spyrja hv. þm. að því hvernig hún skilgreinir lausagöngu. Vill hún leyfa bændum og búfjáreigendum að nýta heimalönd sín, vel girt heimalönd? Mega eigendur landsins nýta það undir sitt búfé? Og hver er meining hv. flm. með lausagöngu hvað afrétti varðar? Vill hv. flm. banna mönnum að nýta þá auðlind sem afréttirnir eru á þessu svæði og því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna til að skapa fólkinu sem býr í þessum strjálbýlu sveitum tekjur til þess að lifa af?