Enska sem fyrsta erlenda tungumálið

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 14:23:02 (4874)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson ) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 166 sem er 154. mál þessa þings. Það er um að enska verði kennd sem fyrsta erlenda tungumálið í grunnskólum. Tillögutextinn hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að breyta aðalnámsskrá þannig að enska verði kennd sem fyrsta erlenda tungumálið í grunnskóla.``
    Með tillögunni fylgir stutt greinargerð sem ég ætla að lesa. Hún hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Um langan aldur hefur danska verið fyrsta erlenda tungumálið sem börn og unglingar hafa lært í skólum. Hvílir þessi hefð m.a. á sögulegum grunni. Í 42. gr. laga um grunnskóla, nr. 63/1974, með síðari breytingum, er fjallað um efni aðalnámsskrár og í h-lið greinarinnar segir að sett skuli ákvæði í aðalnámsskrá um ,,kennslu í erlendum tungumálum, og séu forsendur fyrir vali þeirra annars vegar að varðveita tengslin við uppruna þjóðarinnar og norræna menningu og hins vegar að opna Íslendingum leið til samskipta við sem flestar þjóðir``.
    Í ljósi þess að enska nýtur sífellt meiri viðurkenningar sem aðaltungumálið á alþjóðlegum vettvangi telur flutningsmaður rétt að leggja meiri rækt við enskukennslu í skólum þannig að enska verði fyrsta erlenda tungumálið sem kennt er börnum á grunnskólastigi. Skilar það nám sér almennt mun betur sem veganesti fyrir framtíðina en svo rík áhersla á nám í Norðurlandatungumálum. Því er lagt til að Alþingi álykti um að fela menntamálaráðherra að breyta aðalnámsskrá í þessa veru.``
    Þannig hljóðaði greinargerðin með tillögunni. Þetta mál, virðulegi forseti, er nú endurflutt, það var flutt hér áður fyrir tveim þingum síðan en fékk þá ekki fullnaðarafgreiðslu, en ég vona að víðsýni þingsins hafi aukist með tilkomu nýrra þingmanna og að meiri hluti geti skapast um þetta mál.
    Í dag er viðmiðunarstundaskrá þannig að danska er kennd frá og með 6. bekk í grunnskóla og upp í 10. bekk, hins vegar er ekki byrjað að kenna ensku fyrr en í 7. bekk. Málið í hnotskurn er einfaldlega það að víxla þarna á þannig að það verði byrjað að kenna enskuna í 6. bekk en aftur dönskuna í 7. bekk þó að í mínum huga mætti danskan þess vegna vera valfag.
    Ég tel að ekki þurfi að hafa langt mál um þetta. Mér finnst þetta ósköp eðlilegt mál og flestir víðsýnir menn ættu að átta sig á um hvað málið snýst. Ég vek athygli á því sem segir í h-lið 42. gr. um grunnskóla, sem ég var að vitna í og kemur fram í greinargerð, að tilgangurinn með málakennslu er m.a. að opna Íslendingum leið til samskipta við sem flestar þjóðir og ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að enskan opnar þá leið margfalt betur og víðar heldur en danskan getur nokkurn tíma gert. Þannig finnst mér að öll rök hnígi að því að leggja frekar áherslu á ensku en dönsku.
    Ég hvet menn til þess að vera ekki með of mikla tilfinningavellu í þessu máli og vera ekki að slá höfðinu við stein. Það sem börnin okkar læra í skólanum á náttúrlega að vera fyrst og fremst það sem nýtist þeim þegar þau koma út í hinn harða heim og út í veruleikann.
    Ég held að flestir þingmenn geti litið í eigin barm og skoðað reynsluna af ferðum sínum erlendis og sjái þá sjálfir hvort málið nýtist betur, danskan eða enskan. Sjálfur hef ég mikla reynslu af því og þarf ekkert að fjölyrða um það að jafnvel á Norðurlöndunum notum við frekar enskuna heldur en dönskuna nema þá kannski helst í Danmörku.
    Ég var um daginn á fundi með 10. bekk grunnskóla í einum af skólum borgarinnar þar sem þessi tillaga kom m.a. til umfjöllunar og það var ekki annað að heyra á nemendunum þar en að þeir hefðu fullan skilning á þessu máli og ég vænti þess að svo verði einnig hér inni á hinu háa Alþingi. Menn geta litið í kringum sig hvar sem er. Alls staðar er enska ráðandi, hvort sem það er sjónvarp, tímarit, kvikmyndahús, jafnvel námsefni. Megnið af þessu er á ensku.
    Í stuttu máli, hæstv. forseti, hvet ég þingmenn til þess að horfast í augu við staðreyndir. Við skulum taka niður miðaldagleraugun og setja upp nýaldargleraugu og mennta börnin okkar með það að leiðarljósi að það sem þau að læra í skóla nýtist þeim sem best í framtíðinn.
    Að lokinni umræðu óska ég eftir að málið verði sent til síðari umr. og hv. menntmn.