Enska sem fyrsta erlenda tungumálið

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 14:55:00 (4879)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. (Gripið fram í.) Hv. 5. þm. Vestf. þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég ætli að lesa þessa bók hér, en mér datt í hug að taka hana með mér upp í ræðustólinn af því að við erum að ræða um hvert skuli vera fyrsta tungumálið. Ég er hér með samning um Evrópska efnahagssvæðið, EES, sem er gefinn út af utanrrn. Og skyldi utanrrn. ekki gefa hann út, ja, í fyrsta lagi á íslensku? Nei. En þá væntanlega á fyrsta erlenda tungumálinu okkar, dönsku? Nei. Þeir gera það ekki. Allur þessi doðrantur hér er á ensku. Af hverju skyldi það nú vera þegar danska er fyrsta erlenda tungumálið okkar? Því skyldi það vera? ( KHG: Det forstår jeg ikke.) Nej, det forstår jeg ikke, hvað sem það þýðir.
    Ég vil þakka þeim sem töluðu hér í umræðunni og þeim sem tóku undir upp að vissu marki. Ég harma það að ekki kom fram það sem ég óskaði eftir að með nýju fólki kæmu ný viðhorf. Það er því miður greinilegt að gömlu viðhorfin blunda í ýmsum enn þá en þeir verða náttúrlega að eiga það við sjálfa sig.
    Ég held að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hafi eitthvað misskilið mig. Hún eyddi töluverðum tíma ræðu sinnar í það að ræða norrænt samstarf og ég væri að leggja það til að við mundum slíta því samstarfi. Ég veit nú ekki alveg hvernig mátti túlka mín orð á þann hátt. Ég hef hins vegar --- og það er alveg rétt --- aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um það samstarf og er sammála fyrrv. forsrh. sem sagði það í útvarpinu í gær að að hans mati ætti það að vera fyrst og fremst á menningarlegum grunni og ekki mikið meira. Undir það tek ég heils hugar.
    En hér hafa nokkrir talað og það hefur gætt verulegrar taugaveiklunar í málflutningi þeirra. Þeir virðast hafa skilið mál mitt svo að það ætti að leggja niður kennslu í Norðurlandamálum. Það er alls ekki það sem ég talaði hér fyrir. Ég fór yfir viðmiðunarstundaskrána og hvernig hún væri í dag, það væri byrjað að kenna dönsku í 6. bekk grunnskóla en ensku í 7. og ég sagði alveg skýrt að það væri mín skoðun að það ætti að víxla þessu, ég sagði það alveg skýrt og það þarf ekki að vera neinn misskilningur þar á, enda geri ég mér alveg grein fyrir því að það er sennilega ekki hægt að komast lengra með þingheim þar sem svona gömul og stöðluð viðhorf ríkja enn þann dag í dag innan dyra. Hins vegar sagði ég það svona í framhjáhlaupi að ég mundi ekki gráta það þó að danska eða Norðurlandamálin yrðu valgrein. Enda er það svo að ef við förum t.d. inn í hið nýja Evrópska efnahagssvæði, og ég tala nú ekki um inn í EB eins og sumir hafa látið að liggja undanfarið, þá eru náttúrlega ekki töluð Norðurlandatungumál þar, eins og einhver ræðumaður vildi meina hér áðan að þá mundi vera enn brýnna að vera sterkur í Norðurlandamálum, heldur kemur þá enskan, þýskan og franskan miklu ríkara þar inn í, miklu ríkara.
    En ég fagna því að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir var í rauninni sammála því, eða ég skildi hana þannig, að enskan ætti að vera fyrsta erlenda tungumálið og reyndar hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir einnig. ( Gripið fram í: Þær eru ekki svo gamlar.) Nei, nei.
    Það er náttúrlega fróðlegt að fletta upp í námsskránni, aðalnámsskrá grunnskóla og lesa bara fyrstu setningarnar, annars vegar um dönskuna, og ég vil geta þess að þar er lögð áhersla á það að sænska og norska séu kynntar einnig, ekki eingöngu danska, en í fyrstu setningunni um dönskuna segir:
    ,,Dönskunámið í grunnskólanum hefur því hlutverki að gegna skv. 42. gr. grunnskólalaga að veita okkur aðgang að norrænu málsamfélagi og innsýn í norræna menningu.``
    Þetta er gott og blessað og er enginn að leggja stein í götu þess þó að enskan fái aðeins hærri sess. Um enskuna segir hins vegar: ,,Ensk tunga er nú móðurmál 350 milljóna manna og talið er að allt að því 2 milljarðar jarðarbúa skilji ensku og noti sér til gagns.`` Og hvað á frekar að kenna í skólunum heldur en það sem nýtist börnunum? Hér rísa bara upp málssvarar Norðurlandaráðs og ekkert annað. Það eru bara eiginhagsmunir sem virðast ráða málflutningi sumra þingmanna hér. Þeir koma hér upp og segja: Þeim finnst svo gaman að ég geti talað við þá á þeirra tungumáli, þegar við erum stödd þar. Mér finnst þetta hlægilegt. Að menn skuli ekki frekar lemja í borðið og segja: Af hverju megum við ekki tala íslensku í Norðurlandaráði? Af hverju erum við eina þjóðin sem getur ekki talað sitt eigin tungumál? En að vera með þennan smáborgarahátt að vera stoltur af því að geta talað við þá á einhverju máli. Það er hægt að tala við þá líka á enskunni.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v. að ég hygg flutti hér jómfrúrræðu sína og ég óska honum til hamingju með það. Mér fannst nú fullstór orð sögð þar, að hér væri um vanmat og þekkingarleysi að ræða á gildi Norðurlandamála. Ef ég skildi rétt er hv. þm. kennari og ég hafði haldið það að kennarar ættu að hafa það að leiðarljósi að kenna það sem nýtist þeirra nemendum hvað best. Hv. þm. tók máli sínu til stuðnings nám á erlendum vettvangi, erlend viðskipti og annað slíkt. Ég held að hv. þm. ætti að endurskoða þessi orð sín því að í viðskiptum held ég að enskan hafi nú allan forgang fram yfir dönskuna og tel ég mig hafa svolitla reynslu í því máli. Þessi hv. þm. talaði einnig á þá lund að hér væri verið að leggja til að dönskukennsla yrði lögð af. Það er algjör misskilningur.
    Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir vildi snúa þessu alveg við, taldi reyndar að þróunin hefði verið jákvæð undanfarin ár og að enskukennsla hefði verið að aukast, en nú væri sem sagt komið að því að auka enn frekar kennslu í Norðurlandatungumálum. Ég bendi aftur á það sem kemur fram í aðalnámsskrá að það ber að kynna norskuna og sænskuna í skólum þó að danskan eigi að vera kennd. En ég vil bara biðja menn í öllum guðs bænum, komið inn í nútímann. Verið þið ekki að hanga þarna aftur í fornöld. Leyfið okkur að kenna börnunum okkar það sem þeim nýtist þegar kemur út í hinn stóra heim. Gleymið Norðurlandaráði og öllu því. --- Ég var hér að fá mjög áríðandi skilaboð. --- En ég vil ítreka það að í skólunum, og ég tel að það sé í flestum greinum, er verið að kenna það sem nýtist börnunum okkar í framtíðinni. Það eru ekki til ein rök fyrir því að danskan hafi forgang fram yfir enskuna, þau eru ekki til. Þó að einstakir aðilar fari í nám til Danmerkur, Noregs eða Svíþjóðar, þá efast ég um að þeir séu fleiri en hinir sem fara til Englands, Þýskalands, Frakklands, Belgíu, Hollands, Ameríku eða hvað sem menn vilja telja upp. Og ekki er vafi í mínum huga að viðskipti yfir höfuð fara í miklu ríkari mæli fram á enskri tungu heldur en nokkurn tíma á Norðurlandatungum.