Stjórnarráð Íslands

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 14:19:00 (4893)

     Ólafur Ragnar Grímsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Örlögin hafa hagað því þannig að umræðunni er yfirleitt frestað þegar ég er staddur í þessum tiltölulega stuttu ræðum mínum í þessu máli. Við væntum þess að vísu að geta haldið þessari umræðu áfram á fimmtudag, eða föstudag var það nú víst, en það var því miður ekki hægt vegna fjarveru ráðherra.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að endurtaka það sem fram var komið í fyrri ræðu minni en aðeins minna á það örfáum orðum að ég fagnaði þeim yfirlýsingum hæstv. forsrh. sem hann gaf að þetta mál væri ekki liður í sérstöku pólitísku samkomulagi Alþfl. og Sjálfstfl. og með flutningi þess væri ekki tekin afstaða til þess hvar Seðlabankinn ætti að vera í Stjórnarráðinu til frambúðar og hæstv. forsrh. væri tilbúinn að ræða málið.
    Ég vil í þessu sambandi minna á það að árið 1959 þegar tilvist iðnrn. var rædd á Alþingi lýsti fyrirrennari hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson þáv. dómsmrh., því yfir að hann væri tilbúinn til samkomulags og viðræðna við stjórnarandstöðuna um skipan þessara mála innan Stjórnarráðsins. Ég vænti þess að núv. hæstv. forsrh. og formaður Sjálfstfl. sé það einnig vegna þess að það er mjög óheppilegt að skipan ráðuneyta sé gerð á þann veg að deiluatriði sé milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
    Ég var staddur í ræðu minni þar sem ég var að víkja orðum að nokkuð undarlegri ræðu hæstv. viðskrh. sem hann flutti hér sem svar við minni ræðu. Í því sambandi vil ég aðeins ítreka að það er rangt sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. að ég hafi fullyrt að alls staðar heyrðu seðlabankar undir fjmrn. Það stendur hvergi í minni fyrri ræðu en ég spurði hins vegar: Hvar þekkist það, t.d. í OECD-ríkjunum, að seðlabankar heyri undir eitt af atvinnuvegaráðuneytum eins og iðnrn., landbrn., sjútvrn. eða annað slíkt? Þeirri spurningu hefur ekki enn verið svarað hér í umræðunni og það væri mjög fróðlegt ef hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. geta svarað því hvort nokkurt annað fordæmi sé fyrir því að seðlabanki og skipan gjaldeyrismála og peningamála sé sett undir atvinnuvegaráðuneyti. Núv. ríkisstjórn hefur mjög viljað merkja sig á þann veg að hún væri fulltrúi nútímabreytinga í efnahagsstjórn og það er örugglega ekki nútímabreyting í efnahagsstjórn að setja Seðlabankann og peninga- og gjaldeyrismálin undir atvinnuvegaráðuneyti.
    Enn fremur sagði hæstv. viðskrh., svo nokkurs gamans sé gætt, orðrétt: ,,Ég tel það mjög mikilvægt að verkskipulag í Stjórnarráðinu sé ekki talið vera guði gefið og bundið ævarandi.`` Það er alveg rétt hjá hæstv. viðskrh., við erum allir sammála um það en þá vona ég að hæstv. ráðherra sé líka sammála því, svo setning hans sé aðeins umorðuð, að það sé mjög mikilvægt að verkskipulag í Stjórnarráðinu sé ekki talið vera Jóni Sigurðssyni gefið og bundið ævarandi. Og það sem hann telji að ganga eigi yfir guð almáttugan gangi þá yfir hann sjálfan.
    Hæstv. viðskrh. fór síðan í furðulega sagnfræði, sjálfsagt til þess að reyna að reka mig á gat í þessari umræðu. En það er mjög sérkennileg för vegna þess að þegar sagan er skoðuð kemur nefnilega í ljós að iðnrn. var alls ekki sprottið út úr viðskrn. Ef hæstv. iðnrh. og viðskrh. vill leita fordæmis í sögunni um það að verkefni ráðuneytisins rynnu til sinna fyrri heimkynna er það alveg ljóst að iðnrn. spratt út úr samgrn. Ég átti því satt að segja mjög bágt með að skilja þessa sögulegu upprifjun hæstv. iðn.- og viðskrh. máli sínu til stuðnings. Það kemur t.d. fram í umræðum á Alþingi 1959 að iðnrn. er sett á laggirnar á þann veg að einfaldlega var búið til stjórnarráðsbréf í nafni iðnrn. og verkefnin sem þar voru höfðu fram að þeim tíma tilheyrt samgrn. Það kemur t.d. fram í ræðu Bjarna Benediktssonar, þáv. hæstv. dómsmrh., sem hann flutti á Alþingi 1959, hvernig iðnaðarmálunum hefði verið fyrir komið innan samgrn. Bjarni Benediktsson þáv. dómsmrh. segir m.a. orðrétt í ræðu sinni á Alþingi 1959:
    ,,Samkvæmt framansögðu er ljóst að sú skipulagsbreyting, sem gerð hefur verið og sú verkaskipting sem upp hefur verið tekin innan samgrn. ásamt því að nafn iðnrn. kemur nú orðið fram út á við þegar fjallað er um iðnaðarmál sérstaklega, hefur komist á vegna

aukinna verkefna en sérstakt ráðuneyti ekki verið sett á stofn í venjulegri merkingu.``
    Í sjálfu sér þarf ekki langt mál til að rekja þessa sagnfræði. Hún liggur fyrir og þess vegna var það frekar tilgangslaus för hjá hæstv. núv. viðskrh. og iðnrh. að ætla sér að sækja í söguna einhver rök fyrir sínu máli.
    Ég vil einnig vekja athygli á því sem ég nefndi aðeins í síðustu viku að ef þetta frv. nær fram að ganga munu auk Seðlabankans, bankamála- og peningamála- og gjaldeyrismálasamskipti íslenska stjórnarráðsins við alþjóðastofnanir í efnahagsmálum eins og Alþjóðabankann, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fara í gegnum iðnrn. Það er mjög óeðlilegt. Það gengur einfaldlega ekki. Og ég vil spyrja á nýjan leik: Eru nokkur dæmi þess að samskiptin við OECD, Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heyri á Vesturlöndum undir atvinnuvegaráðuneyti? ( Viðskrh.: Þýskaland.) Þýskaland, segir hæstv. ráðherra. Við skulum skoða það. Ég vona að hæstv. ráðherra leggi fram gögn í málinu vegna þess að ég verð að segja alveg eins og er að munnleg ummæli hans duga mér ekki í þessari umræðu í ljósi þess hvað hann hefur haldið fram miklum rangindum í þessu máli. Ég vona að það verði þá lagt fram skriflega að samskiptin við Alþjóðabankann, OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heyri undir iðnrn. í Þýskalandi.
    Ég vil að lokum árétta að nauðsynlegt er að í nefndinni verði það kannað ítarlega milli flokkanna að gera breytingar á frv. þannig að Seðlabankinn, peningastofnanir og samskipti við alþjóðlegar fjármálastofnanir verði ekki vistaðar í atvinnuvegaráðuneyti til langframa. Ég hef varpað fram þeirri hugmynd sem ég vona að hæstv. forsrh. íhugi að sú breyting verði gerð á frv. að t.d. frá og með 1. júlí 1995 fari Seðlabankinn og þessar stofnanir út úr iðnrn. og inn í annaðhvort forsrn. eða fjmrn. Ef það er óskaplega viðkvæmt persónulegt mál fyrir núv. iðnrh. að hafa þetta áfram hjá sér væri hægt að ná fram slíkri breytingu sem væri skynsamleg efnislega en enginn veit þó hver fer með þau ráðuneyti að loknum kosningum 1995.
    Ég vil svo endurtaka þá ósk mína að um þetta mál geti tekist breið pólitísk samstaða. Hæstv. viðskrh. áréttaði það í upphafi sinnar ræðu að náðst hefði þverpólitísk samstaða í málinu. Það er þá nauðsynlegt að hún fái að birtast í verki en hæstv. iðnrh. standi ekki í vegi fyrir þeim breytingum sem flokkarnir vilja gera hér á Alþingi á þessu frv.