Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 14:51:00 (4896)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum hóf ég umræðu um kjarasamningana. Ég gerði það í því skyni að fram mætti koma í umræðunum að a.m.k. við í Framsfl. og ég hygg stjórnarandstaðan öll væri reiðubúin að gera ýmsar breytingar á fyrri ákvörðunum Alþingis ef það gæti greitt fyrir kjarasamningum. Það kom einnig skýrt fram að svo var í þeirri umræðu.
    Hæstv. forsrh. taldi sér ekki fært að ræða ýmis atriði kjarasamninganna eða t.d. þær óskir sem fram hefðu komið hjá launþegasamtökum til ríkisstjórnar sem mættu greiða fyrir kjarasamningum og ég skildi það mætavel. Ég held hins vegar að nú verði varla hjá því komist að ræða þau atriði nokkuð. Það er sannfæring mín eftir að ég hef rætt við ýmsa sem að þessum kjarasamningum standa að það þarf ekki ýkja mikið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Við getum áreiðanlega öll tekið undir

þau orð að afar mikilvægt er að kjarasamningar náist og reyndar hygg ég að það sé enn mikilvægara en liggur í sumum þeim orðum. Í landinu er mikið vonleysi í dag, menn halda að sér höndum og ég er sannfærður um að eitt hið mikilvægasta til að slá á þetta vonleysi er að kjarasamningar megi nást og helst í þjóðarsáttarstíl eins og tókst 1990. Ég skal ekkert um það segja hvort það sem nú hefur gerst er frestun á kjarasamningum eða slit þeirra. Þeir sem í þeim standa kalla það slit kjarasamninga en hæstv. forsrh. kallar það frestun og vitanlega gerir hver og einn maður ráð fyrir því að til viðræðna komi aftur einhvern tíma. En eins og ég skil málið þá getur það dregist æðimikið og ég tel að sá dráttur sé mjög skaðlegur fyrir íslenskt þjóðfélag.
    Út af því sem hér var sagt áðan um þjóðarsáttina sem náðist 1990 tel ég nauðsynlegt að segja fáein orð. Að sjálfsögðu var sú þjóðarsátt á vegum aðila vinnumarkaðarins. Þeir lögðu í samningunum grundvöllinn að henni. Hins vegar má það ekki gleymast að hún var möguleg með þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hafði gripið til á árinu 1989 þar sem atvinnuvegirnir voru réttir úr kútnum og þeim var gert kleift að ganga til kjarasamninga. Einnig var atvinnuvegunum gert fært að mæta launakröfum launþega með þeirri vaxtalækkun sem náðist á árinu 1989. Á þetta vil ég leggja mjög ríka áherslu.
    Ég vil einnig láta það koma hér fram að samráð milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins var mjög náið meðan á viðræðum þeirra stóð. Það má segja að nánast daglegt samráð hafi verið svo að þær kröfur eða óskir sem síðan komu fram á vegum aðila vinnumarkaðarins, bæði frá vinnuveitendum og launþegum, voru ekki ókunnar þegar þær voru lagðar fyrir ríkisstjórn, tækifæri hafði fengist til að ræða þær. En staðreyndin er sú að þessar kröfur voru töluvert miklar. Samkomulag varð um kröfur sem ég hygg að hafi mátt meta töluvert á annan milljarð kr. sem var framlag af hálfu ríkissjóðs. Það fer vitanlega ætíð nokkuð eftir stöðu mála hvað slíkar aðgerðir eru kostnaðarsamar. En okkar mat var það að betra hefði verið fyrir ríkissjóð og tvímælalaust langtum betra fyrir þjóðarbúið að verða við óskum, þótt þær kostuðu þetta mikið, ef það gæti orðið til þess að kjarasamningar tækjust hið fyrsta. Ég er sannfærður um að þegar upp er staðið var það rétt. Ég er reyndar sannfærður um að vinnustöðvun, verkföll, þó að ég sé ekki að spá þeim núna og vonandi kemur ekki til þeirra, mundu kosta ríkissjóð langtum meira en eitthvert slíkt framlag til þeirra kjarasamninga sem nú fara fram. Menn verða því að meta þetta á báða vegu. Menn verða að skoða annars vegar hvað það kostar ríkissjóð að ganga til þess verks að greiða fyrir kjarasamningum og hins vegar hvað það kostar ef kjarasamningar nást ekki. Þetta var sem sagt vandlega metið annars vegar af ríkisstjórninni árið 1990, í janúar og febrúar það ár, og hins vegar í sameiginlegum viðræðum við launþega sem fóru fram á mjög eftirminnilegan hátt að því leyti að þar var fullur trúnaður og þannig til verks gengið að til fyrirmyndar var að mínu mati. Þannig leystust þær kjaradeilur og þjóðarsátt náðist.
    Þegar ég lít yfir kröfur launþega nú sýnist mér boginn ekki mjög spenntur og sérstaklega eftir að ég hef átt viðræður við ýmsa sem þar eru í forustu sýnist mér að ná megi satt að segja ótrúlega hógværum kjarasamningum miðað við þá kaupmáttarskerðingu sem hefur orðið. Í kaupmætti er ekki farið fram á annað en að ná þeim kaupmætti sem var í júnímánuði 1991 og að það verði gert í áföngum til 1. okt. 1992. Ég er sannfærður um að þessu má ná með því að stuðla að góðri lækkun vaxta. Lækkun vaxta um 2--3% þýðir fyrir allt atvinnulífið í landinu um það bil 4--6 milljarða kr. á ársgrundvelli því að 1% í vöxtum fyrir atvinnulíf í landinu öllu eru um tveir milljarðar á ársgrundvelli. Komið hafa fram dæmi m.a. í þeim viðræðum sem voru og er frestað eða slitið sem sýna að hjá einstökum atvinnurekendum hefur vaxtahækkunin á síðasta ári jafngilt um 15--30% launahækkun. Það skal að vísu skýrt tekið fram að það er hjá einstökum atvinnurekendum þar sem fjármagnskostnaður hefur vafalaust verið mjög mikill. Þegar menn skjóta sér á bak við það að sjávarútvegurinn byggi minna á innlendum lánum, sem er að sjálfsögðu rétt, þá er það þó svo að hjá mörgum vinnslufyrirtækjum í sjávarútvegi, ekki útgerðinni sjálfri heldur vinnslu í landi, vegur fjármagnskostnaðurinn langtum meira að tiltölu en hjá sjávarútveginum í heild. Hér er fyrst og fremst verið að tala um lág laun fiskvinnslufólks sem þurfi

að hækka svo að vaxtalækkun mundi koma sér líka afar vel hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Ég er þeirrar skoðunar með öðrum orðum, eftir að hafa skoðað það nokkuð vandlega með þeim sem um þessar tölur fjalla, að með því að hafa forgöngu um vaxtalækkun sem næmi um 2--3% gæti ríkisstjórnin nokkurn veginn tryggt það að flutningur verður á milli fjármagnstekna hjá þeim sem eiga fjármagn eða fjármagnsgjalda hjá þeim sem greiða og launþega sem ná mundu saman samningum að því leyti og reyndar stuðla mjög að lækkun fjármagnskostnaðar í landinu sem er svo sannarlega mjög þarft. Ég ætla ekki að fara sérstaklega út í það. Þó er líklega vert að spyrja hvort ríkisstjórnin hafi kannað hver hlutur fjármagns í þáttatekjum þjóðartekna er mikill. Ég lét gera það og nokkrar deilur sköpuðust um það því menn deildu um grundvöll slíkra útreikninga, þ.e. hvort reikna ætti á grundvelli nafnvaxta eða aðeins raunvaxta. Erlendis mun ætíð vera reiknað á grundvelli nafnvaxta en hér var það ekki talið fært vegna verðbólgunnar en um þetta hefur verið mjög deilt. Nú ætti ekki að vera vandi að skoða þetta því verðbólgan er mjög lág og því ekki þörf á að taka tillit til hennar. Miðað við að kaupmáttur hefur líklega lækkað um 10--11% á fjórum árum, en einkaneyslan á sama tíma staðið nokkurn veginn í stað, virðist mér alveg ljóst að einkaneyslunni er ekki síst haldið uppi með miklu tekjum fjármagnseigenda enda kemur það fram í svo fjölmörgu öðru.
    Ég vil beina því til hæstv. forsrh. að þetta verði skoðað og að fjármagn verði flutt frá fjármagnseigendum til launþega, þ.e. úr fjármagnstekjum í launatekjur.
    Það er sannfæring okkar framsóknarmanna a.m.k. og langtum fleiri í þjóðfélaginu hygg ég, að með slíkri tilfærslu, sem að öllu leyti er skynsamleg, megi tryggja nægilega launahækkun sem launþegar mundu gera sér að góðu í því ástandi sem nú er í þjóðfélaginu a.m.k. miðað við þær kröfur sem þeir hafa lagt fram.
    Hins vegar er ljóst að til að ná kjarasamningum þarf að gera meira og þess vegna hefur verið leitað til hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er mjög aðgengilegt á sameiginlegu skjali með áhersluatriðum frá BSRB, ASÍ og Kennarasambandi Íslands í velferðarmálum, sem lagt var fyrir ríkisstjórn 19. mars 1992. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að fara yfir nokkur atriði.
    Þar eru fyrst og fremst settar fram nokkrar óskir í heilbrigðisþjónustu og tryggingum. Þar segir um lyfjakostnað og læknisþjónustu í fyrsta lagi að læknisheimsóknir, bæði hjá sérfræðingum, heilsugæslu- og heimilislæknum verði án gjaldtöku fyrir börn. Gjald verði ekki tekið vegna komu fólks á heilsugæslustöð eða til heimilislæknis.
    Mér skilst að munnlega hafi verið tekið undir varðandi gjaldtöku fyrir börn, ég verð þá leiðréttur ef það er rangt. Hins vegar ekki fyrir hin atriðin. Þetta er að mörgu leyti mjög skynsamlegt því koma fólks á heilsugæslustöð og til heimilislæknis er ekki síst forvarnaaðgerð sem sjálfsagt er að stuðla að.
    Í öðru lagi er farið fram á að hámarksgreiðsla verði ákveðin fyrir fjölskyldur vegna læknis- og lyfjakostnaðar, þ.e. að lyfjakostnaðurinn verði tekinn með.
    Í þriðja lagi að greiðslur fyrir krabbameinsleit verði felldar niður.
    Í fjórða lagi að endurskoðuð verði ákvæði um það hverjir fái lyfjakort.
    Hér sýnist mér eingöngu vera mjög skynsamlegar leiðréttingar á því sem gripið hefur verið til vegna sparnaðar í læknisþjónustu og lyfjakostnaði. Miðað við hinar fjölmörgu breytingar sem hæstv. heilbrrh. boðar á fundum sínum um landið þar sem hann ferðast og gleður menn með því að kippa til baka einstökum liðum sem ógnað hafa heilbrigðisþjónustunni á viðkomandi stöðum, eins og t.d. það að fæðingardeildinni á Suðurnesjum verði ekki lokað og að verðandi mæður þurfi ekki að fæða á Reykjanesbrautinni, hygg ég að hæstv. heilbrrh. gæti tekið svona ábendingar til meðferðar og skoðað þær.
    Það er undarlegt t.d. að niðurfelling greiðslu fyrir krabbameinsleit hafi verið hafnað. Mér skilst að þeirri yfirlýsingu hafi verið flaggað að það hefði ekki dregið úr komu manna til krabbameinsskoðunar. Það er nú gott og blessað. Við skulum vona að gjaldtakan verði ekki til þess að menn láti undir höfuð leggjast að fara í slíkar sjálfsagðar skoðanir. Vitanlega má gjaldtaka alls ekki verða til þess að draga úr því að fólk komi til slíkrar forathugunar.

    Einnig er fjallað um niðurskurð á sjúkrahúsum, að hætta við flatan niðurskurð og hverfa frá fjöldauppsögnum. Flati niðurskurðinn kann að vera nokkuð stærra atriði. Mér skilst að fyrri liðurinn um heilbrigðisþjónustu og tryggingar, þ.e. læknisþjónusta og lyfjakostnaður, sé um 300 millj. kr. í aukinn kostnað, en flati niðurskurðurinn á sjúkrahúsum um 560 millj. Hins vegar hygg ég að allir sjái að flatur niðurskurður er nánast ekki framkvæmanlegur í slíku tilfelli. Þarna er einnig um lagfæringar að ræða á því sem nú er framkvæmt.
    Að hætta við áform um aukna þátttöku sjúklinga í kostnaði við hjálpartæki er metið á 95 millj. kr.
    Tannlækningar, þátttaka foreldra í kostnaði vegna barna verði 5% í stað 15% er metið á 50 millj. kr.
    Tenging grunnlífeyris, elli- og örorkulífeyris verði ekki tekjutengdur, er dýrari, 170 millj. Ferðakostnaður sjúklinga verði bættur og þar er talið upp það sem kemur helst undir heilbrigðisþjónustu og tryggingar.
    Hér er einnig kafli um skatta, sem ég ætla ekki að fara eins ítarlega yfir, en þar kemur m.a. fram að skattur verði settur á fjármagnstekjur og áætlað að hann gefi um 2,5 milljarða. Ég tek undir það með hv. frummælanda að þessar tekjur ber að sjálfsögðu að nota til þess að liðka fyrir kjarasamningum. Mér kemur á óvart að ríkisstjórnin, eða fjmrh. fyrir hennar hönd, hefur lýst því yfir að þetta eigi að verða til lækkunar á öðrum sköttum.
    Ég er satt að segja þeirrar skoðunar, miðað við þær framkvæmdir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í til sparnaðar og niðurskurðar í velferðarkerfinu, að veita alls ekki þessum sköttum til að bæta þar um og ekki síst þar sem um leið má greiða fyrir kjarasamningum. Að sjálfsögðu gerir það langtum torveldara að greiða fyrir kjarasamningum ef lækka á skatta á öðrum sviðum.
    Hér er einnig fjallað um húsnæðismál. Farið fram á að tryggt verði að engar vaxtahækkanir verði í félagslega íbúðarkerfinu á samningatímanum. Ég veit að þær hugmyndir hafa verið uppi hjá ríkisstjórn að hækka þar vexti en engin hækkun vaxta er að sumu leyti kostnaðarsamt miðað við þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur verið með, en ég er sannfærður um að þarna má einnig finna meðalveginn.
    Farið er fram á aðstoð við leigjendur sem lengi hefur verið um rætt í ríkisstjórnum undanfarin ár.
    Hér er jafnframt farið fram á það að skerða ekki kennslumagn eða námsframboð og kennslustundafjölda samkvæmt grunnskólalögum og hverfa frá töku skólagjalda. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin ætti að hverfa frá öllum áformum um niðurskurð í kennslumálum, en ekki eingöngu vegna samninganna. Ég tel að niðurskurður í skóla- og kennslumálum sé eitt hið versta sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til og muni skaða okkur verulega þegar til lengri tíma er litið.
    Mér sýnist því þegar ég lít yfir þessi áhersluatriði að yfirleitt séu þau mjög skynsamleg og ríkisstjórnin ætti að taka til alvarlegrar umfjöllunar og væru mörg hver verulega til bóta á því sem gert hefur verið af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Mér er ljóst að ef allt sem hér er nefnt er framkvæmt er kostnaður mikill, líklega yfir átta milljarðar kr. Hins vegar er hér bent á tekjur sem eru yfir fjórir milljarðar, en ég vil leyfa mér að fullyrða að ekki þarf nema tiltölulega lítið af þessu til þess að samningar náist. Svo er ætíð að lengri óskalisti er settur fram en menn ætlast til að verði samþykktur.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið með því að telja allt til sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið undir og flutt samningsmönnum munnlega má meta aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar eitthvað nálægt 500 millj. kr. Þó mun það vera umdeilt af launþegum. Ég yrði ekki undrandi þótt mætti ná samningum með því að tvöfalda eða þrefalda þá upphæð.
    Skriflegt svar við þessu barst 20. mars. Þá hét forsrh. því fyrir hönd ríkisstjórnar að réttur launafólks til launa og lífeyrisréttar við gjaldþrot verði færður til samræmis við

þær hugmyndir sem aðilar vinnumarkaðarins hafa kynnt. Þetta mun alltaf hafa legið í loftinu þegar þessi réttur var skertur, þar vildi ríkisstjórnin hafa nokkuð uppi í handarjaðrinum til þess að ganga til móts við launþega.
    Ég vil ljúka máli mínu með því að leggja á það áherslu fyrir hönd okkar framsóknarmanna að ríkisstjórnin hristi af sér slyðruorðið og gangi til þessa verks af fullri alvöru, skoði það sem launamenn hafa farið fram á, taki upp alvöruviðræður við launamenn og bæti nokkuð það tilboð sem hún hefur gert. Ég er sannfærður um að það er fullur vilji að ná samningum og það er afar mikilvægt.