Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 15:16:00 (4898)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. gaf okkur áðan söguskýringar sínar á því hvers vegna kjarasamningar hefðu ekki tekist í þessari lotu. Fyrri skýring hans var sú að ríkisstjórnin hefði beitt rangri aðferð, þ.e. afskiptaleysi. Seinni skýringin var sú að stjórnarstefnan væri röng.

    Að því er varðar fyrri söguskýringuna um aðferð afskiptaleysisins þá er hún einfaldlega röng, þ.e. hún stenst ekki staðreyndir. Forráðamenn ríkisstjórnarinnar hafa á undanförnum mánuðum átt ítrekaðar og ítarlegar viðræður við aðila vinnumarkaðarins, hvern í sínu lagi og alla í senn og ég get vissulega vottað það sem samstarfsaðili hv. 8. þm. Reykn. í fyrri ríkisstjórnum að enginn aðferðamunur hefur verið á því. Aðferðamunurinn er kannski helst sá að þessir fundir hafa farið fram meira í kyrrþey en stundum áður, enda eðli málsins samkvæmt vænlegast til árangurs að þeir fari fram með þeim hætti. En ekki hefur skort á að viðræður væru við fulltrúa launþega og vinnuveitenda allan þennan langa undirbúningstíma.
    Að því er varðar spurninguna um stefnu stjórnvalda er það að sjálfsögðu pólitískt álitaefni. Hitt stendur að í þeim viðræðum sem fram fóru við aðila vinnumarkaðarins var ekki gerður ágreiningur um hvert væri meginmarkmiðið. Það væri að tryggja að verðbólga yrði lág í framtíðinni, menn tóku undir það markmið að reyna að koma verðbólgu undir verðbólgustig viðskiptalanda og að skapa þannig forsendur fyrir lækkun vaxta og fjármagnskostnaðar. Ég heyrði engan aðila í þessum viðræðum halda öðru fram en að þetta væru meginmál og margar ræðurnar heyrðum við um það ágreiningslaust að þarna væri hin stóra vinningsvon. Þarna væri verið um að ræða hinar stóru upphæðir, milljarðana sem gætu skilað skuldugri þjóð og skuldugum fyrirtækjum og skuldugum heimilum hinum raunverulega ávinningi við þessar kringumstæður. Þetta er auðvitað kjarni þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur boðað og ég veit ekki til að um hana hafi verið ágreiningur. Í ljósi reynslunnar af þjóðarsáttasamningunum fyrr eru menn margs vísari um það hvaða leiðir eru vænlegastar til þess að varðveita kaupmátt og til að varðveita atvinnuöryggi við skilyrði samdráttar og hnignunar í atvinnulífinu. Vegna þess að ef við eru að ræða kjaramál þá erum við ræða um kjaramál þjóðarbús og þjóðar. Það vita allir nú orðið hverjar staðreyndirnar eru. Við erum á fimmta ári, ekki einasta stöðnunar heldur hnignunar. Við höfum orðið fyrir því að þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur eru í verðmætum talin mörgum milljörðum minni en þær hefðu verið ef hér hefði verið eðlilegur hagvöxtur. Við þekkjum allar staðreyndir um hallarekstur í ríkisbúskap. Við þekkjum staðreyndirnar um yfirþyrmandi lánsfjárþörf ríkisins, eins og niðurstaðan varð af stjórn ríkisfjármála undir lok síðustu ríkisstjórnar og við vitum hvaða afleiðingar það hafði. Stefna núv. ríkisstjórnar hefur fyrst og fremst haft eitt að markmiði: Að draga úr þessum hallarekstri, að draga úr lánsfjárþörf ríkisins, að skapa forsendur fyrir lágri verðbólgu, að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta og það er kjarninn sem þetta mál snýst um. Um það hefur þess vegna ekki verið neinn umtalsverður ágreiningur.
    Það er einnig rangt að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi ekki verið gerð ákveðin tilboð. Þau voru gerð. Fyrir utan það að ríkisstjórnin hét því að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að halda stöðugleika í gengi þá hét hún því að hafa forgöngu um lækkun vaxta og það hlýtur auðvitað að teljast meginatriði málsins. Þar að auki veitti ríkisstjórnin í forgjöf í þessum viðræðum fyrirheit um það að breyta ekki ákveðnum réttindamálum launþega sem kröfur voru settar um. Jafnframt var komið til móts við ýmsar óskir eins og t.d. varðandi vexti í félagslegu húsnæðiskerfi, um sameiginlega nefnd til þess að ræða aðgerðir vegna atvinnuástands, t.d. að koma í veg fyrir það að hópuppsögnum yrði beitt í sambandi við samdrátt í opinberum rekstri eða breytingar opinberra fyrirtækja í einkafyrirtæki. Komið var til móts við óskir um það að lækka gjaldtöku vegna barna varðandi heilsugæsluþjónustu. Eftir nokkrar umræður varð að samkomulagi að ef fjármunum væri hægt að verja í einhverjum mæli að því er varðaði heilbrigðisþáttinn þá væri það forgangsverkefni að reyna að stuðla að því að koma í veg fyrir lokun á öldrunarþjónustudeildum. Þannig gæti ég nefnt ýmis dæmi um það að ríkisstjórnin lagði vissulega sitt af mörkum. Auðvitað er öllum harmsefni að þetta skyldi ekki hafa tekist og það er vissulega harmsefni vegna þess að nú var tækifæri til þess að gera kjarasamninga í framhaldi af góðri reynslu af þjóðarsáttarsamningunum sem tóku mið af raunveruleika íslensks þjóðarbúskapar og hefðu skilað íslenskum launþegum því sem hægt var að skila við þessar kringumstæður.

    Með því að gera nú kjarasamninga sem hefðu fyrst og fremst haft að innihaldi láglaunabætur til hinna lægst launuðu sem hefðu varið kaupmátt þeirra og kjarasamninga helst til eins eða eins og hálfs árs byggt á forsendum lágrar verðbólgu og lækkunar vaxta, þá hefðum við fyrst og fremst verið að gera það sem okkur bar skylda til að gera til þess að treysta atvinnuöryggið, skapa atvinnulífinu, fyrirtækjunum vaxtarskilyrði vegna þess að stöðugleikinn er það sem fyrst og fremst getur orðið þeim að liði meðan við bíðum breytinga í ytra umhverfi þannig að nýtt hagvaxtarskeið geti hafist. Ekkert þýðir að berja höfðinu við steininn eða neita staðreyndum. Við erum í djúpri efnahagskreppu. Aðalvandamálið sem er fram undan og við ásamt með verkalýðshreyfingunni í landinu höfum mestar áhyggjur af er hættan á vaxandi atvinnuleysi. Við þurfum ekkert að blekkja okkur um líkur á skjótum efnahagsbata. Við vitum að sjávarafli mun ekki aukast fyrirsjáanlega í bráð. Við vitum að framkvæmdir við virkjanir og álver eru ekki í sjónmáli. Við verðum þess vegna að laga okkur að þessum staðreyndum. Leiðin til þess að bjarga því sem bjargað verður og tryggja hag þeirra verst settu hefði einmitt verið í því fólgin að ná slíkum kjarasamningum. Ekki er við ríkisstjórnina að sakast að það tókst ekki og það er út af fyrir sig við engan að sakast. Þessi mál voru í mjög erfiðri stöðu. Að sjálfsögðu látum við í ljósi þá ósk að hér sé ekki um að ræða varanleg slit á viðræðum, enda sjáum við ekki ástæðu til þess að ætla slíkt heldur einfaldlega að samningar hafi ekki tekist í þessari lotu og að þráðurinn verði tekinn upp aftur þegar menn hafa enn borið saman bækur sínar og áttað sig á því í hve þröngri stöðu við erum og hverra kosta er. Hins vegar er á misskilningi byggt að það sé á valdi ríkisstjórnarinnar núna að leysa málið með því að bera fé í dóminn. Líka er mikill misskilningur að sú leið sé rétt að ríkisstjórnin taki til baka þær sparnaðaraðgerðir sem hún hefur beitt sér fyrir í opinberum rekstri. Þvert á móti eru þær sparnaðaraðgerðir forsendan fyrir því að kjarasamningar geti náðst um þetta markmið, lága verðbólgu, lægri vexti og stöðugleika í efnahagsumhverfinu. Um það er í raun og veru ekki mikill ágreiningur. Vissulega þykir okkur miður að þetta tókst ekki, en ekki er ástæða til þess að leggja árar í bát, ekki er ástæða til þess að fara á taugum, ekki er ástæða til þess að vera með yfirboð, ekki er ástæða til þess að láta sem svo að ríkisstjórnin geti einfaldlega skrifað gúmmítékkka til þess að leysa þessi mál, það eru ekki rétt ráð. Það sem þarf einfaldlega að gera er að taka upp viðræður aftur þegar menn hafa áttað sig á því að það er ekkert að sækja neinn skjótfenginn gróða einhvers staðar í þjóðfélaginu, það er ekki ráð að grípa til erlendrar lántöku til þess að leysa málin.
    Að því er varðar fjármagnstekjuskatt liggur það fyrir að ríkisstjórnin er að vinna í fullri alvöru að því máli. Það liggur fyrir og verður betur kynnt nú á næstunni hvað í því felst, hver sá skattstofn er, hvaða tekjuvonir þar er um að ræða. Það er misskilningur að það hafi verið sett fram krafa um hátekjuskatt vegna þess að það var ágreiningur um það innan launþegahreyfingarinnar og tvö fjölmenn launþegasamtök vísuðu þeirri kröfu á bug. Að því er varðar t.d. tekjutengingu barnabóta þá stóð ekki á ríkisstjórninni að stíga skrefið þar til fulls þannig að tekjutenging væri gerð hrein og klár og barnabótagreiðslur til fjölskyldna með hærri tekjur þurrkuðust út. Um það var hins vegar ekki heldur full samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar. Hér er ekki staður eða stund til þess að hefja leit að sökudólgum, þeir eru engir. Það sem þarf er meiri tími til þess að menn átti sig á að eina leiðin sem fær er til þess að tryggja einmitt atvinnuöryggið og standa vörð um kaupmátt hinna lægst launuðu er að tryggja kjarasamninga af því tagi sem menn voru að reyna og þurfa að gera aðra atrennu að.