Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 15:26:00 (4899)

     Guðmundur Þ Jónsson :
    Virðulegi forseti. Mönnum er gjarnan tíðrætt um þjóðarsáttarsamningana og vitnað til þeirra þegar talað er um góða hluti á þeim vettvangi. Ég get tekið undir það að þjóðarsáttarsamningarnir voru mjög merkilegir samningar og þeir urðu til vegna góðra samskipta, góðrar samvinnu þáv. hæstv. ríkisstjórnar og launþegahreyfinganna. Án þeirrar góðu samvinnu sem þar var á milli hefðu þeir samningar ekki tekist og ekki skilað þeim árangri sem þeir gerðu. Alveg er ljóst að þótt þeir samningar fælu ekki í sér kaupmáttaraukningu þá voru einmitt þær aðgerðir sem fylgdu og sú afstaða sem ríkisstjórnin tók, t.d. hraðminnkandi verðbólga og lækkandi vextir, til þess að auka í mörgum tilfellum ráðstöfunartekjur og kaupmátt heimila. Það verður ekki sagt um þessa hæstv. ríkisstjórn sem nú situr að samskipti launþegahreyfinganna við hana hafi verið með sama hætti. Frá því að núv. hæstv. ríkisstjórn settist að völdum hefur einmitt launþegahreyfingin verið í stöðugu stríði við ríkisstjórnina út af þeim aðgerðum sem hún hefur áformað og framkvæmt. Það er fyrst og fremst atlagan að velferðarkerfinu sem hefur komið ákaflega illa við allt launafólk og orðið til þess að rýra kjör þess verulega. Svo hafa verið boðaðar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur nú lýst yfir að hún muni ekki framkvæma, þ.e. lækkun á atvinnuleysisbótum eða skerðing á rétti til atvinnuleysisbóta eða til fæðingarorlofs. Það er út af fyrir sig ávinningur að hafa getað stoppað þau áform sem þar hafa verið uppi en samt sem áður held ég að alveg nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að ef samningar eiga að takast núna á næstu vikum verður hún að koma með skýrari hætti inn í það en hún hefur gert fram til þessa. Þá skerðingu á rétti fólks í velferðarkerfinu verður að bæta og koma til móts við kröfur okkar í verkalýðshreyfingunni.
    Það getur vel verið rétt hjá hæstv. heilbrrh. sem hann hefur talað um á fundum sínum um landið að komum á heilsugæslustöðvar eða til lækna hafi ekki fækkað. En það er alveg ljóst að þegar fólk leitar til læknis eða fer með börn sín til læknis þegar þau eru veik þá kemur það niður á kjörunum að öðru leyti. Þá peninga verður að taka af einhverju öðru, þeir verða ekki notaðir tvisvar og það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að oft er um verulega kjaraskerðingu er að ræða.
    Ég lít svo á að það hafi slitnað upp úr viðræðum núna um sinn. Enginn fundur er boðaður og viðræðum var hætt þannig að það er ekki hægt að líta öðruvísi á þetta en að slitnað hafi upp úr viðræðum því að nú er málið í höndum sáttasemjara sem metur hvenær hann telur ástæðu til þess að kalla saman fund að nýju. Að vísu getur hann ekki dregið það nema í tvær vikur og vafalaust hefur hann engan vilja til þess heldur að draga það lengur en engar viðræður eru í gangi núna.
    Kröfum verkalýðshreyfingarinnar hefur verið mjög í hóf stillt og við höfum ekki gert okkur neinar háar vonir um miklar kauphækkanir í þeirri stöðu sem við erum núna. Þess vegna er mikilvægara og enn þýðingarmeira að ríkisstjórnin komi að þessu máli á jákvæðari hátt en hingað til hefur verið og sé tilbúin til þess að skila einhverju til baka af því sem hún hefur tekið af launþegum í landinu á undanförnum vikum í þeim efnahagsaðgerðum sem hún hefur staðið fyrir.
    Það er rétt að ekki er ástæða núna til þess að vera með stórar yfirlýsingar eins og einn ágætur verkalýðsleiðtogi orðaði það í útvarpinu í dag. En þrátt fyrir það skulu menn líta á málið af fullri alvöru vegna þess að ef ríkisstjórnin er ekki tilbúin til þess að koma til móts við okkur þá dragast samningar á langinn. Það er alveg ljóst. Við verðum að miða við það að ríkisstjórnin komi til móts við okkar hóflegu kröfur. Þær hugmyndir sem voru uppi hefðu tryggt láglaunafólki fyrst og fremst sæmilega útkomu út úr samningunum en það eitt dugir ekki til. Það verður að koma líka frá ríkisstjórninni og frekari aðgerðir af hennar hálfu til móts við þær kröfur sem við höfum sett fram eru nauðsynlegar. Við skulum vona að svo geti orðið og þetta fari í gang fljótlega aftur. Það er von mín og raunar tilfinning að það muni gerast en ég ítreka að það er mikið undir hæstv. ríkisstjórn komið hvað hún vill gera og ef hún ekki er tilbúin til þess að gefa meira eftir en hún hefur gert fram til þessa þá líst mér þunglega á það að samningar takist á næstu vikum.