Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 16:32:00 (4919)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil leyfa mér að benda á vegna ræðu hv. 7. þm. Reykn. Í kosningunum á síðasta ári lýsti þjóðin þeim vilja sínum að fyrri ríkisstjórn veitti henni forstöðu áfram. Alþfl. treysti sér hins vegar ekki til þess af þeim tveimur meginástæðum að Alþb. væri ekki að treysta varðandi nýtt álver á Keilisnesi og því væri ekki að treysta í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði. Þessi tvö meginmál Alþfl. voru öllu æðri og áttu að tryggja velferð þjóðarinnar um allan aldur. Þessar áhyggjur Alþfl. voru með öllu ástæðulausar. Hvorugt hefði hindrað áframhaldandi samvinnu því að annarra leiða verður trúlega leitað svo að sú velferð sé tryggð. Við fáum nefnilega ekkert álver og trúlega verða lífdagar ríkisstjórnarinnar allir áður en samningur um Evrópskt efnahagssvæði verður að veruleika ef hann verður nokkurn tíma að veruleika. Staðreyndirnar eru ljósar. Það er óhugsandi að samningurinn taki gildi 1. jan. 1993.
    Á fundi þingforseta EFTA-ríkjanna 21. febr. kom eftirfarandi fram: Svisslendingar geta með engu móti leyst þetta mál nema á mjög löngum tíma og ástæðan er sú að fyrst verður að samþykkja sextíu sambandslög sem eru mörg mjög viðkvæm pólitískt, segir hér í yfirliti frá EFTA-skrifstofunni. Þegar það er búið verða bæði þjóðþingið og síðan sambandsþingið að fjalla um þessi mál og komast að sameiginlegri niðurstöðu og sníða alla agnúa af áður en um er að ræða að hægt verði að leggja málin fyrir kantónurnar. Þegar það er búið og þær eru orðnar sammála þarf að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. (Forseti hringir.) Forseti, ég get ekki verið búin með tíma minn. Sama er að segja um Liechtenstein sem ekki getur hugsanlega leyst þetta mál. Í sænska þinginu verður málið fyrst rætt í nóvember nk. Hér er talið upp að öll þau ríki sem um er að ræða eigi langan veg að því að hægt sé að undirrita samning um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að bæta við að það er auðvitað ljóst að þetta mál á langt í land. Hvað þá? Erum við nauðbeygð til að sækja um aðild að Evrópubandalaginu? Það getur vel verið að einhverjum finnist það. En það er alveg dagljóst að þangað fáum við ekki að fara, jafnvel þótt við kæmust að þeirri niðurstöðu að við vildum fara þangað. Og ég hlýt að fá að koma hér aftur og vænti þess að hv. 7. þm. Reykn. lýsi því yfir eða svari mér því hvort hann sé ekki sammála mér um það að þessi samningur verði ekki að veruleika og því síður að Íslendingar komist inn í Evrópubandalagið.