Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 15:47:00 (4966)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér þykja þær fullyrðingar sem koma fram hjá hv. 3. þm. Reykv. alveg með ólíkindum, að friðarhreyfingarnar hafi ekki haft nein áhrif. Ég veit það mjög vel þó ég hafi kannski ekki lesið greinar hv. þm. nægilega vel að hans mati, þá hef ég þó alla vega lesið þær það vel að þetta veit ég að hefur verið viðhorf hans alla tíð og ég er honum algerlega ósammála, því að ég er alveg sannfærð um það að friðarhreyfingarnar höfðu mjög mikil áhrif og hafa enn mjög mikil áhrif. Meiri hlutinn af þeim friðarhreyfingum eru hreyfingar almennings. Það eru ekki hreyfingar sem hafa boðið fram t.d. til þings nema þá í einhverjum undantekningartilvikum. Áhrif þeirra eru því mest óbein, ekki það að þær hafi komist inn á þing eða ríkisstjórnir landanna. Það er því með ólíkindum að fullyrða það að friðarhreyfingarnar hafi ekki haft nein áhrif og vera síðan að tala um að það sé eitthvað sambærilegt við það sem er að gerst núna varðandi Evrópubandalagið. Hann hlýtur að vita það eins vel og ég, og hann minntist reyndar á það hér í ræðu sinni, að það er þjóðaratkvæðagreiðsla 2. júní í Danmörku og hún skiptir auðvitað verulegu máli, ekki bara fyrir Danmörku heldur alls staðar á Norðurlöndum. Rödd almennings heyrist helst í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tel eðlilegt að þjóðaratkvæðagreiðslur fari fram um miklu fleiri mál en t.d. hefur verið notað hér á landi til þess að hægt sé að kanna skoðun almennings. Það er skoðun mín að verði samningar um Evrópskt efnahagssvæði að veruleika eigi að bera þá undir þjóðaratkvæði áður en þeir verða staðfestir á Alþingi. --- [Fundarhlé.]