Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 02:29:00 (4993)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Við höfum hvergi sagt að við höfum hafnað EB-aðild fyrir fram en við lítum heldur ekki svo á að stefna okkar ráðist af einhverju náttúrulögmáli og Ísland hljóti að sækja um aðild af því að önnur Norðurlönd og EFTA-ríki gera það. Staða okkar krefst þess að allir kostir séu skoðaðir og á þann hátt að við getum sjálf metið kostnað og ávinning af því hvernig við tengjumst umheiminum og tökum á okkur skuldbindingar. Þannig mætum við nýjum tímum. Þetta eru ekki orð hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Þetta eru ekki orð hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar eða Björns Bjarnasonar. Þaðan af síður eru þetta orð utanrrh., þess sem hér stendur. Þetta eru orð hæstv. forsrh. Þau ættu kannski að duga til þess að kveða niður þær tilraunir sem gerðar hafa verið í þessari maraþonumræðu til þess að túlka skýrslu utanrrh. á þann veg að upp sé risinn einhver djúpstæður ágreiningur milli stjórnarflokkanna. Þessi umræða hefur alla vega leiðrétt það hafi menn trúað slíku fyrir fram. En sumir reyndar byggðu málflutning sinn í þessari umræðu á þeim tilbúnu og fölsku forsendum.
    Það hefur komið skýrt til skila hver er stefna ríkisstjórnarinnar að því er varðar tengsl okkar við Evrópu. Það hefur verið áréttað rækilega að hún er óbreytt. Hún byggir að því er viðskiptaþáttinn varðar á því forgangsverkefni að reyna að ná fram staðfestingu á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Frá þeirri stefnu hefur ekki verið hvikað. Það hefur hvergi verið boðað, hvorki í skýrslu utanrrh. né annars staðar af hálfu stjórnarliða í þessari umræðu, að fyrir dyrum stæði að leggja fram umsókn um aðild að Evrópubandalaginu í samfloti með öðrum Norðurlandaþjóðum þannig að allar ályktanir og ræður, sumar langar, settar á á þeim forsendum eru út í hött. Það sem hefur hins vegar verið sagt er það að sú stefna sem við höfum fylgt í þessu máli er í mikilli óvissu. Við höfum vísað í því efni til reynslunnar af samningsgerðinni við Evrópubandalagið og við höfum vakið athygli á því að þar hafa engar dagsetningar staðist, þar hafa engar tímaáætlanir staðist, þar hafa pólitískar yfirlýsingar forustumanna ekki staðist, þar hefur það komið á daginn hvað eftir annað að samningslok að mati ráðherraráðs Evróubandalagsins hafa ekki haldið. Málinu hefur verið vísað frá Heródesi til Pílatusar innan Evrópubandalagsins og svo er enn. Þess vegna er það svo að af hálfu ríkisstjórnarinnar og í skýrslu utanrrh. er sagt að við getum ekki slegið því föstu að þessi yfirlýsta stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli nái fram að ganga.
    Að gefnu tilefni vil ég taka það fram, af því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði um það, að ég hef ekki í höndum neinar sérstakar leyndar upplýsingar því til staðfestu að þessir samningar muni fara forgörðum eða þeir muni ekki ná staðfestu. Ég byggi ekki þetta mat mitt á neinum slíkum upplýsingum sem ekki hafa verið birtar. Það er að vísu ekki svo. Ég vísa einfaldlega til ársreynslu okkar af því hvernig á þessum samningum hefur verið haldið og til almennrar pólitískrar vitneskju um það að víða innan Evrópubandalagsþingsins í einstökum aðildarlöndum og meðal ýmissa hagsmunaaðila Evrópubandalagsins er að finna öfl sem eru andvíg þessum samningi, mundu harma það lítt þótt hann næði ekki fram að ganga og munu gjarnan stuðla að því að svo verði. Þetta þýðir einfaldlega að það væri hygginna manna háttur að búa sig undir það í tæka tíð að svo kynni að fara. Og ef allt færi á versta veg þá er það nú svo að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, enda er það athyglisverðasta niðurstaða þessarar umræðu að sumu leyti að þeir stjórnmálamenn, þeir hv. alþm., þeir leiðtogar stjórnmálaflokka, sem hér hafa talað sem vissulega hafa haft allt á hornum sér um þennan samning, lagt sig alla fram um að gera hann eins tortryggilegan og þeim hefur verið frekast unnt og harðneitað að taka afstöðu til hans að svo stöddu máli, hafa nú komið fram í þessum umræðum harla ánægðir með þennan samning og sett allt sitt traust á það í tengslum við Evrópu að samningurinn haldi. Þetta á sérstaklega við um forustumenn Framsfl. Það á vissulega við um formann flokksins sem sagði að ef sérstaða og fyrirvarar Íslendinga héldu, þá væri þessi samningur álitlegur kostur og bætti því við að hann væri sammála því sjónarmiði utanrrh. að það væri haldbær leið fyrir Ísland ef þessi samningur héldi að festa hann betur í sessi og tryggja stöðu okkar með því að freista þess að ná sambærilegum samningum í vesturátt við Bandaríkin og taldi þá að þar með væri uppi kostur sem gæti reynst Íslendingum fullnægjandi þrátt fyrir breyttar aðstæður í veröldinni. Ég hef ekki heyrt jafnskýra stuðningsyfirlýsingu við yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar frá nokkrum manni eins og í þessum orðum formanns Framsfl.
    Þetta var enn betur undirstrikað og styrkt af þeim ummælum sem hv. þm., varaformaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, lét hér falla, en hann gekk beinlínis út frá því að Íslendingar bæði gætu og ættu hér eftir sem hingað til að byggja samskipti sín við Evrópu á traustum forsendum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það er með öðrum orðum svo að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur eða fyrr en hann sér í það kannski að hann eigi von á því að missa og það er auðvitað athyglisverð niðurstaða þessara umræðna að forustuflokkur stjórnarandstöðunnar er svo eindreginn í stuðningi sínum við stefnu ríkisstjórnarinnar að það verður ekki vefengt lengur að Framsfl. muni í heild sinni styðja þá stefnu, sérstaklega vegna þess að honum hryllir svo við þeim möguleika, þeim öðrum kosti sem við blasir, ef þessi samningur færi nú forgörðum. Við þökkum þessa liðveislu og viðurkennum að það munar um hana og erum að

sjálfsögðu þakklátir fyrir hana.
    Það sakar ekki að það komi fram að ég er sammála því sjónarmiði framsóknarmanna að með engu móti verði slegið föstu að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé samkvæmt einhverju lögmáli áfangastaður á lengri leið inn í Evrópubandalagið. Það má færa fyrir því mjög veigamikil rök að sá samningur, haldi hann, geti í tilviki Íslendinga verið valkostur, komið í staðinn fyrir aðild að Evrópubandalaginu.
    Hitt er auðvitað laukrétt sem fram kom í mjög athyglisverðri ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem svar við lögreglustjórahugsun Alþb. um hvað mætti og hvað mætti ekki tala um, það væri undarlegt í meira lagi af þeirra hálfu sem segja að Evrópska efnahagssvæðið sé aðeins fordyri Evrópubandalagsins, það sakar ekkert að við ræðum Evrópskt efnahagssvæði hér í þrjú ár eins og við höfum gert ótæpilega, en allt í einu við það fordyri tekur við tótem og tabú og boð og bönn og það er gjörsamlega óheimilt að ræða seinasta legginn af leiðinni því að þetta eru þær forsendur sem alþýðubandalagsmenn gefa sér sjálfir. Reyndar er það svo að málflutningur Alþb. í þessari umræðu skar sig úr að öllu leyti, bæði vegna þess hversu yfirborðskenndur hann var og ómálefnalegur og raunverulega byggður, sérstaklega af hálfu formanns flokksins, á útúrsnúningum á skýrslu utanrrh. og afbökunum þar af leiðandi í öllum ályktunum.
    Það er kannski ástæða líka til þess að nefna það að í slagorðasafni umræðunnar stangast nú sitthvað hvert á annars horn. Hv. formaður Framsfl. t.d. reyndi að gera sér mat úr því að utanrrh. væri greinilega dáleiddur, heillaður af Evrópubandalaginu, nálgaðist það með glýju í augunum. Sami maður hefur í hverri ræðu sinni um þetta efni vitnað til gagnrýninna ummæla þessa utanrrh. gagnvart Evrópubandalaginu og varaformaður Framsfl. hefur gengið svo langt að telja að þau gagnrýnu ummæli hafi stórlega spillt samskiptum Íslands og Evrópubandalagsins og jafnvel stofnað samningnum um Evrópskt efnahagssvæði í hættu. Margir fulltrúar Framsfl. tala um EFTA- og EES-trúboð utanrrh. en í þessum umræðum töluðu þeir um og áfelldust hann fyrir að hafa ætlað að rífa samninginn um Evrópskt efnahagssvæði í sundur eða farga honum. Sumir þeirra segja: Formaður Alþfl. sér ekkert nema Evrópu en um leið fagna þeir því ákaflega þegar formaður Alþfl. og utanrrh. segir: Við getum byggt haldbæra stöðu okkar á því til viðbótar samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að tengjast nánari viðskiptaböndum Bandaríkjunum, þ.e. með því að ná fríverslunarsamningum þar. Þannig rekst þetta hvað á annars horn og þarf svo sem ekki að elta ólar við það frekar.
    Ég sagði áðan að málflutningur alþýðubandalagsmanna, sérstaklega formanns flokksins, hefði verið ótrúverðugur mjög. Formaðurinn varði miklum hluta ræðu sinnar til að bera það upp á Barnaskólann á Ísafirði, sem var góð fræðslustofnun, að bera ábyrgð á því að hann hefði ekki fyrr en mjög síðla á ævinni uppgötvað að jörðin væri ekki flöt. Síðan setti hann á um hálftíma ræðu um það að megintilhneiging í alþjóðamálum nú væri efling þjóðríkja og utanrrh. sleginn mikilli blindu að sjá þetta ekki og hvergi að því vikið í skýrslunni. Meginkjarni minnar greiningar að því er Evrópu varðaði var að annars vegar væri áberandi samrunaferillinn í vestri en upplausnin í austri. Þegar nýlenduveldi hrynja, þegar ríkjasamsteypur gliðna, þá fjölgar þjóðríkjum um sinn. En eins og fram hefur komið í máli annarra ræðumanna, þá er það einkum og sér í lagi athyglisvert að þessi hin nýju þjóðríki eru að leita fyrir sér um skjól, öryggi, tengsl við önnur ríki. Þannig er það á stefnuskrá flestra hinna nýfrjálsu ríkja Austur-Evrópu að leita eftir aðild að Evrópubandalaginu, að reyna að ná samningu hvort heldur er við Evrópubandalagið eða EFTA-ríkin, að leita eftir inngöngu í Atlantshafsbandalagið, að varpa akkerum í öllum þeim samtökum sem komið hefur verið á fót núna einmitt til þess að treysta öryggi þeirra í stærri heild.
    Það er einnig athyglisvert að Norðurlöndin eru núna nýlega búin að taka upp þá stefnu að þau þurfi að styrkja áhrif sín á framtíðarþróunina í Evrópu, með öðrum orðum að styrkja fullveldi sitt í vissum skilningi með því að gerast aðilar að stærri heild.
    Hv. formaður Alþb. nefndi sem dæmi að hér væri hvergi vikið að öðrum heimshlutum þar sem efling þjóðríkja væri í hvað mestum blóma sem sannar náttúrlega að hann hefur ekkert lesið þessa skýrslu. Í inngangskaflanum um utanríkisviðskipti á bls. 126 er til dæmis rækilega fjallað um málefni Suður-Ameríku, sem hann sagði að væri heimshluti sem alls ekki væri minnst á og væri ekki til í orðabók utanrrh., þar sem er rakið hvernig ríki Suður-Ameríku eru hvert á fætur öðru að semja sín í milli um svæðisbundin samtök og efla fríverslunarsamskipti sín og er því lýst rækilega. Sömuleiðis er fjallað um sömu þróun í Asíu og þannig mætti lengi telja. Annað var nú ekki efnislega í ræðu formanns Alþb. fyrr en í seinni hluta að hann vildi leggja það út af fréttaviðtali við Karl Steinar Guðnason að Alþfl. hefði skipt um stefnu og ríkisstjórnin hefði skipt um stefnu og þarna hefði hinn hræðilegi leyndardómur verið afhjúpaður. Allt er þetta frekar innihaldslítið satt að segja.
    Að því er varðar þær umræður sem hér hafa farið fram af sæmilegri alvöru og viti um hina breyttu heimsmynd og hin breyttu samskiptaform þjóða, hvort heldur er í Evrópu eða öðrum heimshlutum, þá vörpuðu menn fram spurningunni: Hvar er óvinurinn nú í heimsmynd þeirra tíma sem taka við að loknu hinu kalda stríði? Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að í máli formanns Framsfl. mátti helst ráða að óvinurinn væri hið sameinaða Þýskaland. En hann notaði tækifærið í þessum umræðum til þess að árétta fyrri ummæli sín annars staðar enn á ný um að honum sýndist að Þýskalandi sameinuðu væri nú að takast að koma fram sömu áformum sem Hitlers-Þýskalandi hefði með hernaðarofbeldi og blóðfórnum mistekist að ná. Mér þótti ákaflega mikið miður að fyrrv. forsrh. og utanrrh. Íslands teldi ástæðu til að haga orðum sínum á þennan veg því að þrátt fyrir allt er það nú svo að hið sameinaða Þýskaland er eitt af lýðræðisríkjum Evrópu og af hálfu forustumanna Þýskalands hefur verið lögð á það áhersla að þeir vildu eiga hlut að því að byggja upp samfélag Evrópríkja fremur en þýska Evrópu og ég held að við höfum engin efnisleg rök til þess að líkja framgöngu forustumanna Þýskalands nú á nokkurn máta við framferði Hitlers-Þýskalands á millistríðsárunum. Og satt að segja held ég að það væri ástæða til við gott tækifæri að formaður Framsfl. tæki aftur þessi orð og bæðist velvirðingar á þeim.
    Það er svo að sönnu að til mín var beint ýmsum athugasemdum og fyrirspurnum. Ég held, úr því að hér er komið sögu og flestir þeir sem þessar fyrirspurnir báru fram eru ekki hér lengur, að ég láti það liggja á milli hluta. Ég vil þó staldra við örfá atriði. Því var haldið fram að ákvörðun hefði verið tekin um aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu, þ.e. þessu væntanlega varnarbandalagi Evrópubandalagsins, að réttum aðilum forspurðum, þ.e. án samráðs við utanrmn. Ég vil aðeins af þessu tilefni taka það fram að það eina sem gerst hefur í því máli er, eins og fram kemur í skýrslunni, að orðsendingin eftir Maastricht, um að Íslandi standi til boða ásamt tveimur öðrum ríkjum að verða eins konar aukaaðili að bandalaginu, orðsendingin hefur borist okkur í formi bréfs frá þýska utanríkisráðherranum. Því var svarað á jákvæðan máta, en jafnframt var skýrt tekið fram að við biðum þess að það væri nánar skilgreint af hálfu bandalagsins hvað fælist í formi réttinda og skyldna í stöðu aukaaðila og að endanleg ákvörðun yrði ekki tekin um það mál fyrr en þær upplýsingar lægju fyrir. Jafnframt var fastafulltrúum okkar í Atlantshafsbandalaginu samstundis falið að taka saman greinargóða skýrslu um Vestur-Evrópusambandið. Sú skýrsla er raunar birt hér sem fskj. því að hún var fullunnin um það leyti sem verið var að leggja seinustu hönd á skýrsluna og er þar af leiðandi fram lögð á Alþingi, ekki bara í utanrmn., og að sjálfsögðu verður hún á dagskrá utanrmn. áður en kemur að lokaákvörðun.
    Það var einnig spurt sérstaklega um það hvort samþykkt íslensku ríkisstjórnarinnar sem varðaði málefni Aðalverktaka væri því til staðfestingar að utanrrh. hefði látið þar í minni pokann fyrir sjónarmiðum sem lýst hefði verið af sjútvrh. Með öðrum orðum: Sjútvrh. hafði lýst þeirri skoðun sinni að hann teldi að tímabært væri nú þegar í stað að leysa upp fyrirtækið Aðalverktaka þannig að eignaraðilar þess leystu til sín eignarhlut sinn í því, þar á meðal Sameinaðir verktakar, eignarhlut upp á nokkra milljarða, en síðan ætti bara að fara að reglum Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins um almenn útboð á verkum í þágu varnarliðsins. Það er nauðsynlegt að taka það fram ef menn skyldu misskilja það að samþykkt ríkisstjórnarinnar var um hið þveröfuga. Hún var um það að taka af öll tvímæli um að til loka kjörtímabilsins færu Aðalverktakar samkvæmt fyrri samningum og skuldbindingum með verktöku þannig að á aðlögunartíma yrði tryggt að eldri samningar giltu. Frá þessu var gerður sá fyrirvari að því er varðar tiltekin verkefni, að þá skyldi opnað fyrir undirverktöku í stórauknum mæli. Þetta lýsir einmitt því meginmarmiði okkar að fylgja fram þeirri stefnu sem boðuð var á fyrra kjörtímabili, nefnilega að ná meirihlutaforræði í þessu fyrirtæki um sinn af hálfu ríkisins til þess að geta þróað fyrirtækið áfram í formi almenningshlutafélags en nýta aðlögunartímann jafnframt með þeim hætti að lokamarkmiðið væri að eftir stæði öflugt verktakafyrirtæki sem gæti --- og hefði til þess burði, fjárhagslega og tæknilega --- boðið í verk bæði hér innan lands og erlendis. Með öðrum orðum þeirri stefnu að leysa fyrirtækið upp þegar í stað og innleiða hér reglur Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins sem við erum ekki aðilar að, henni var hafnað.
    Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. Björns Bjarnasonar kom fram gagnrýni á þau vinnubrögð sem viðhöfð hefðu verið við undirbúning á skýrslu utanrrh. og ef ég skildi hv. þm. rétt, þá taldi hann eðlilegt að skýrslan yrði lögð fyrir í ríkisstjórn og jafnvel í utanrmn. áður en hún yrði birt á Alþingi. Um þetta hef ég það að segja að þetta er skýrsla utanrrh. til Alþingis. Utanrrh. er hluti framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórn Íslands er, eins og lögfræðingar þreytast ekki á að segja, ekki fjölskipað stjórnvald. Meðan þetta er skýrsla utanrrh. þá tel ég það eðlilegt að þeim hefðum sé viðhaldið sem verið hafa en þess eru engin dæmi að utanrrh. hafi lagt skýrslu sína fyrir, ekki einu sinni í ríkisstjórn, í formi texta til umræðu eða afgreiðslu í ríkisstjórn. Það hefur ekki verið gert og það er rétt að það var ekki gert í þessu tilviki og mín skoðun er sú að það séu ekki rétt vinnubrögð. Þetta breytir engu um það að auðvitað er eðlilegt í alla staði að um meginmál, meginpólitísk stefnuatriði sé tryggt af umræðum innan ríkisstjórnar að sé samstaða og ég held að þessi umræða hafi leitt í ljós rækilega, hafi menn efast um það áður, að slík samstaða var fyrir hendi.
    Eitt athyglisvert mál kom fram í stuttri ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur og það var að hún vitnaði til ummæla fyrrverandi spænsks utanríkisráðherra þess efnis að á því væru engar líkur að Evrópubandalagið vildi veita viðtöku Íslandi né öðrum smáríkjum sem kynnu að vilja leita eftir inngöngu og taldi þess vegna alla umræðu um það þegar í stað óþarfa af þeim sökum. Þetta er kunnuglegt mál og var satt að segja þarft innlegg, að hvað svo sem líður vangaveltum manna hér á landi um það hverra kosta við eigum völ, þá skulum við hafa það í huga að það er ekkert sem liggur fyrir um það að til þess sé vilji innan Evrópubandalagsins að greiða fyrir samningum um aðild Íslands. Það eina sem liggur fyrir er áskorun kanslara Þýskalands til Norðurlandanna sem hóps og fyrirheit um það að Þýskaland vilji fyrir sitt leyti greiða fyrir hraðferð. Ég hef áður tjáð mig um það hvað megi byggja á slíkum yfirlýsingum en ég tel rétt að menn hefðu það í huga áður en menn fara nú á háflug, t.d. í hefðbundum ræðum sínum um landsölu og framsal fullveldis og þess háttar, að umsókn um aðild að Evrópubandalaginu er ekki það sama og aðild. Menn þurfa nefnilega að semja um það mál og samningsniðurstaðan er ekki gefin fyrir fram. Það er eitt gefið við það og það er að hún tekur langan tíma. Þess vegna er það vissulega á misskilningi byggt

að þeir framsóknarmenn hafi í málflutningi sínum fyrir kosningar haft rétt fyrir sér eins og nú sé að koma á daginn. Það er mikill misskilningur. Sá málflutningur var, svo að ég rifji það upp, þessi: Að síðustu kosningar, árið 1991, væru þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Það var málflutningurinn og ekki seinna vænna en að menn kysu um það í þeim kosningum. Á það var bent að þetta gæti ekki staðist undir neinum kringumstæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn hafði ekkert um það mál fjallað, ekki neitt, að enginn af stjórnarflokkunum hafði það mál á sinni stefnuskrá, að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi hafði það mál á sinni stefnuskrá, að málið hafði ekki verið undirbúið og það hafði engin umsókn verið send. Og það sem færi að lokum í þjóðaratkvæðagreiðslu í því máli hlyti náttúrlega að vera niðurstaða af einhverjum samningum sem gerðir hefðu verið og að sjálfsögðu hlytu forráðamenn ríkisstjórnar að hafa upplýst þjóðina um innihald þeirra samninga og lagt mat á þá. Ekkert af þessu væri til staðar. Þess vegna væru þetta allt saman staðlausir stafir og venjulegur ómerkilegur áróður til þess að kría sér út atkvæði á fölskum forsendum sem það var. Enda baðst varaformaður Framsfl. afsökunar á þessum málatilbúnaði.
    Það stendur líka sem sagt var af okkar hálfu fyrir kosningar að hvað svo sem í skærist á kjörtímabilinu eftir 1991 þá gæti þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Evrópubandalaginu ekki verið á dagskrá af þeirri einföldu ástæðu að jafnvel þótt umsókn yrði nú send af stað á þessu kjörtímabili, þá tæki það svo og svo langan tíma að fjalla um það mál áður en samningsumboð væru fengin. Síðan tæki svo og svo langan tíma að standa í þeim samningum og það væri alveg ljóst að samningsniðurstöður gætu ekki legið fyrir fyrr en á þarnæsta kjörtímabili og jafnvel þótt svo færi, þá yrði augljóslega að leggja það samkvæmt íslenskri stjórnarskrá fyrir í tvennum kosningum. Hvernig sem á málið er litið er ljóst að sá áróður sem uppi var hafður af hálfu Framsfl. í seinustu kosningum um þetta mál stóðst ekki þá og stenst ekki enn og þarf ekki mikið meira um það að segja.
    Virðulegi forseti. Margt sem sagt hefur verið hér í þingsölum í þessum umræðum hefur verið allrar athygli vert og án þess að ég vilji gera upp á milli manna í því efni, þá neita ég því ekki eins og fram hefur komið að mér þótti sérstaklega athyglisverð ræða hv. þm. Kvennalistans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, ekki síst þau rök hennar að það væri undarleg afstaða á þjóðþingi í umræðum um hin veigamestu mál ef einhverjir ætla sér þá dul að úrskurða það hvað sé til umræðu, hvað megi ræða og hvað megi ekki ræða þegar um það er að ræða að þjóð standi á tímamótum og eigi nokkurra kosta völ. Það eru satt að segja fáheyrðar leifar úrelts forræðishugsjónarháttar að láta sér detta það í hug. Sá sem segir að málin séu ekki á dagskrá lítur reyndar nokkuð undarlega út rúmum tveimur sólarhringum og nokkrum náttum síðar þegar hér hafa farið fram linnulausar maraþonumræður um aðallega það sem ekki á að vera dagskrá, þ.e. tengslin við Evrópubandalagið. Það sem hv. þm. sagði um hefðir okkar í umræðu af þessu tagi, þ.e. um hefðir sjálfstæðisbaráttunnar og herstöðvarbaráttunnar, var laukrétt að mínu mati sem athugasemd um sögulegar aðferðir okkar og ég tek undir þær vonir sem hv. þm. lét í ljós að við hefðum hvað úr hverju lært nóg af reynslunni til þess að endurnýja þær frumstæðu aðferðir.
    Athugasemdirnar sem lutu að umfjöllun í skýrslu utanrrh. þar sem verið er að fjalla um samskipti norðurs og suðurs, þar sem sú hugsun er orðuð að leggja eigi mælikvarða vestræns neysluþjóðfélags á vanda þriðja heimsins, þær athugasemdir voru vissulega réttar því að það er hverju orði sannara að ef neyslustig Bandaríkjamanna eða Vestur-Evrópumanna væri yfirfært um allan heiminn, þá byggjum við hér á ruslahaugi þannig að það er ástæða til fyrir utanrrh. að biðjast velvirðingar á þessari vanahugsun sem af vangá hefur slæðst inn í þennan texta.
    Að lokum, virðulegi forseti, það urðu dálítið skondnar umræður um þá athyglisverðu athugasemd að í raun og veru væri það svo að hin veigamestu utanríkismál væru hin alvarlegustu innanlandsmál og sannleikurinn væri sá að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sem og umræða um aðild að Evrópubandalaginu væru mál af þeirri stærðargráðu að þau snertu hvern einasta þátt íslensks þjóðlífs, þau væru vissulega sjávarútvegsmál, þau væru iðnaðarmál, þau væru landbúnaðarmál, þau væru neytendamál, þau varða nánast alla löggjöf á mjög stórum og veigamiklum sviðum fyrir utan það að þau varða ýmislegt varðandi leikreglur okkar og séu þess vegna innanlandsmál. Þetta staðfestir kannski það sem ég sagði í upphafi framsöguræðu minnar að þess sæjust víða merki að það ráðuneyti sem stýrir utanríkismálefnum og utanríkisviðskiptamálum getur varla lengur talist fílabeinsturn diplómata vegna þess að í vissum skilningi fer það að verða eitt helsta atvinnumálaráðuneyti þjóðarinnar. Minnisstætt dæmi um þetta er spurningin um GATT-samninginn. Það mál heyrir undir utanrrn. Í vitund flestra Íslendinga snýst það mál um landbúnað þó að það sé að vísu misskilningur en engu að síður gæti GATT-samningurinn skipt verulega þýðingarmiklu máli að því er varðar framtíð íslensks landbúnaðar, bæði út frá sjónarmiðum framleiðenda og neytenda. Í þessum skilningi er utanríkisviðskiptaráðuneytið því eiginlega eitt af veigamestu innanlandsráðuneytunum en þá er það orðin spurning aftur á móti hvert af hinum hefðbundu innanlandsráðuneytum ætti að taka við hinu hefðbundna diplómatíska hlutverki utanrrn.
    Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að lengja þessa umræðu frekar, en þakka fyrir hana.