Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 03:08:00 (4994)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það eru einkum tvö atriði í ræðu hæstv. utanrrh. sem ég vil gera athugasemdir við. Hann telur það eindregna niðurstöðu umræðunnar að við framsóknarmenn séum stuðningsmenn Evrópsks

efnahagssvæðis. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni. Sá stuðningur er sýnd veiði en ekki gefin þó að ég samþykki það að hann sé auðvitað mikils virði.
    Okkar stuðningur við Evrópskt efnahagssvæði byggist á því hvort þeir fyrirvarar sem við gerðum um yfirráð yfir landi og orku halda og hvort við sjáum þennan tvíhliða samning um sjávarútvegsmálin sem við getum sætt okkur við. Stuðningur okkar byggist á þessum atriðum. Og það væri áreiðanlega þarfara verkefni fyrir hæstv. utanrrh. að beita sínu starfsliði í því að tryggja þessi mál heldur en fara að setja það í kannanir á aðild að Evrópubandalaginu.
    Ég vil einnig geta þess varðandi ummæli sem tilfærð voru eftir formanni Framsfl. um Þýskaland að það er mikil rangtúlkun á þeim ummælum að segja að með þeim hafi formaður flokksins verið að líkja Þýskalandi nútímans við Þýskaland Hitlers. Hann var aðeins að ræða hættuna á því að stórþjóðir yrðu yfirgnæfandi í Evrópubandalaginu, en það er langt í frá að hann væri að halda því fram að lýðræðisríkið Þýskaland nútímans væri að beita starfsaðferðum sem líkar væru og í Þýskalandi Hitlers. Það er engin ástæða til slíkra ummæla. Þjóðverjar hafa ekki gefið neina ástæðu til slíkra ummæla og langt í frá. Þetta vildi ég láta koma skýrt fram og það er algjörlega ástæðulaust að túlka þessi ummæli á þennan veg.