Sala á veiðiheimildum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:57:00 (5012)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. skýr svör. Hins vegar er ég ekki ánægður með þessi svör en þau eru svo sem í samræmi við annað sem hefur verið að gerast í sambandi við stjórn fiskveiða hér á undanförnum missirum og mánuðum. Það er sem sagt allt sett í nefnd, það er allt látið bíða. Hin brýnustu viðfangsefni eru látin bíða úrskurðar nefndar sem hefur verið kölluð tvíhöfðanefndin og enginn veit hvort skilar nokkurn tíma nokkurri niðurstöðu. Þarna er um að ræða mjög alvarlegt mál. Það er verið að flytja afganginn af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar á milli byggðarlaga. Það er enginn vafi á því að löggjafinn ætlaðist til þess að sveitarfélögin í landinu hefðu rétt til þess að neyta forkaupsréttar. Það mislánaðist í lagasetningunni. Sjútvrh. hefur lýst því yfir að hann sé ekki tilbúinn að ganga fram í því að leiðrétta þetta og ég tel það mjög miður og reyndar verð ég að harma það að menn skuli ekki vera tilbúnir til þess að taka á neinum af þeim bráðavandamálum sem núna eru í sjávarútveginum og þetta er einungis eitt af þeim.
    Ég tel að þær röksemdafærslur sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni um það að þetta ákvæði sé hamlandi, séu auðvitað réttar. Það er hamlandi. En menn vissu það líka þegar þeir voru að setja þessar reglur til að gefa sveitarfélögunum möguleika á því að varðveita atvinnuna í sínum byggðarlögum að þær væru hamlandi. Og það er enginn vafi á því að þingmenn hafa vitað nákvæmlega hvað þeir ætluðu sér með þessu. (Gripið fram í.) En það mislánaðist það sem þingmenn ætluðu sér með ákvæðinu sem hér er um að ræða.