Útboð

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:09:00 (5040)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það að þetta mál ber hér vissulega nokkuð einkennilega að vegna þess að á þskj. 201 hef ég flutt mál um útboð sem ég lagði hér fram 5. des. sl. og hefur ekki enn þá fengist rætt í þinginu. Þess vegna kemur það manni nokkuð spánskt fyrir sjónir að stjórnarþingmaður skyldi vera fenginn til þess að flytja hér mál til þess að auðvelda ráðherrum sínum að komast út úr erfiðum málum. Ég teldi það eðlilegra að mitt mál hefði komist að fyrr og við hefðum fengið að ræða það. Það er rétt sem komið hefur fram hjá hv. 6. þm. Vestf. að um svo stórt mál er hér að ræða að engin skynsemi er í því að halda það að alþingismenn láti sér nægja það að ræða slíkt mál í fyrirspurnatíma á Alþingi. Því hef ég flutt um þetta þingmál. Það var einmitt tímanna tákn þegar við heyrðum hæstv. iðn.- og viðskrh. tala áðan vegna þess að hann sagði að vissar efasemdir væru í hans ráðuneyti um það að hér þyrfti að setja lög og dró raunverulega í efa að það væri þörf á slíku. Í mínum huga er engin spurning um að þörf er á því að setja lög um útboð og það er bráðnauðsynlegt. Þess vegna lagði ég þetta mál fram að mjög athuguðu máli og ekki síst að fengnum viðbrögðum hæstv. ráðherra nú er það ljóst að Alþingi þarf að fá að tjá sig í þessu máli þannig að ráðherranum sé það ljóst hver vilji Alþingis er.