Útboð

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:13:00 (5043)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég get staðfest að ekkert samráð var á milli mín og hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Vesturl., um að hann bæri fram þessa fsp. Ég vil þannig styðja hans mál þegar hann bar af sér sakir áðan. Reyndar tel ég að hv. 4. þm. Norðurl. v. hljóti að hafa misheyrt það sem ég sagði. Ég hafna alls ekki lagasetningu um þetta mál. Ég benti á fyrirvara eða efasemdir ýmissa þeirra sem athugað hafa málið og spurningin er í raun og veru ekki um það hvort rétt sé að setja útboðslög eða ekki. Spurningin er aðallega um það hvort þau muni gera gagn. Það er því miður þannig að á mörgum sviðum nægir ekki lagasetning þótt viljinn sé góður. Auðvitað mega lög af þessu tagi ekki leggja óeðlilegar hömlur á athafna- og viðskiptafrelsi manna. Það veit ég að hv. 4. þm. Norðurl. v. skilur mætavel og þetta er það eina sem fyrir mér vakir í málinu. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að ég hygg gott til samstarfs við þingið um úrlausn í þessu máli og þakka hv. fyrirspyrjanda, 5. þm. Vesturl., fyrir að hreyfa málinu og lýsi mig meira en fúsan til samstarfs við þingið um að koma á þeirri skipan í sambandi við útboð og framkvæmd þeirra sem þjónar sanngjörnum og eðlilegum viðskiptaháttum. Ég er nokkurn veginn viss um að vel verður á því máli tekið og þá þurfum við að sjálfsögðu að horfa til þeirra landa sem okkur eru skyldust, ekki síst af því að fram undan er opnari útboðsmarkaður en verið hefur með væntanlegri aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar eru í gildi um þetta málefni fastmótaðar reglur þótt ekki séu í löggjöf bundnar. En vel má vera að leiðin sé einmitt löggjöf sem vísar til staðla til þess að gefa mönnum lagastoð fyrir sínum málum ef þeir telja á sér brotið. Það er einmitt sú leið sem ég nefndi í mínu máli og hv. 4. þm. Norðurl. hlýtur annaðhvort að hafa yfirsést eða misheyrst það sem sagt var. Ég endurtek að ég mun halda áfram athugun á málinu og nefna menn til þess að finna á því bestu lausn.