Aðgerðir gegn börnum í Río de Janeiro

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:28:00 (5049)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Þær upplýsingar sem hæstv. umhvrh. las upp fyrir okkur þingmenn eru auðvitað þyngri en tárum taki og ekki síst sú staðreynd eða það sem virðist vera staðreynd að þessi barnamorð hafi verið stunduð af hinum svokölluðu dauðasveitum allt frá árinu 1975, að þetta hafi verið stundað í 16--17 ár. Hann nefndi hræðilegar tölur í því sambandi eins og það að fjögur börn væru myrt með þessum hætti í Río de Janeiro á hverjum degi og það væri alls ekki takmarkað við þá borg eina.
    Þá kom fram hjá honum að lögregla og her taka þátt í þessu og sérstök þingnefnd hafi verið sett á laggirnar í Brasilíu, eins og ég reyndar vissi, og hún hafi farið fram á það að 103 nafnkenndir einstaklingar og samtök verði dregin fyrir lög og rétt til þess að svara til saka í þessu máli og herforingar verði dregnir fyrir borgaralegan dómstól.
    Mér finnst þetta mál svo alvarlegt að það hljóti að vera ástæða fyrir þjóðir heimsins til að nýta sér ráðstefnuna í Río de Janeiro með einhverjum hætti til að knýja stjórnvöld í Brasilíu til aðgerða í þessu máli. Það er greinilegt á upplýsingum sem fram hafa komið að þau horfa í gegnum fingur sér með þessi mál. Þó að skipuð hafi verið þingnefnd og hún hafi komist að þessari niðurstöðu, þá virðist ekki hafa verið notað tækifærið til að verða við óskum þessarar þingnefndar um að gera eitthvað í málinu. Ég held að við verðum að nota tækifæri og þau meðul sem við höfum núna til þess að sýna stjórnvöldum í Brasilíu að heimurinn lítur þetta mjög alvarlegum augum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að framkvæmdastjórn ráðstefnunnar geri kröfu til þess að farið sé að þeim niðurstöðum sem fram koma hjá þingnefndinni í Brasilíu, að við notum þetta tækifæri til að gera beinar kröfur á stjórnvöld í Brasilíu. Ég ætla ekki að ganga svo langt hér að segja að við eigum ekki að fara á ráðstefnuna. Mér finnst að við þurfum að velta því fyrir okkur núna eftir þessar upplýsingar. Mér finnst þetta mjög erfitt siðferðilegt spursmál sem við stöndum andspænis. Ég þarf aðeins að hugsa um það núna. En ég vil fá einhver svör við því hvort ráðherrann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að framkvæmdastjórnin geri annað og meira en að láta eitthvert fé af hendi rakna til vegalausra barna þarna heldur geri beinlínis kröfur á hendur stjórnvöldum í Brasilíu.