Orkusáttmáli Evrópu

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:46:00 (5054)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna ábendinga hv. 4. þm. Austurl. um þörfina fyrir að kynna þinginu og þingnefndum málefni þau sem hér eru til umræðu þá tek ég undir að á því sé þörf. Ég tel hins vegar ekki tímabært að kynna nefndum þingsins stöðu mála varðandi samninga í framhaldi af undirritun orkusáttmála Evrópu að svo stöddu. Ég mun gera það svo skjótt sem marktækir áfangar í því verki eru í sjónmáli. Því miður ræður nú mannfæð í íslenska stjórnkerfinu því að menn komast ekki yfir það að sinna í senn fundasókn í fjarlægum löndum, greinargerðum, fyrirmælum eða kynningu þeirra fyrir áhugasömum þingefndum jafnharðan eins og menn vildu gjarnan gera. Þarna verða menn að velja og hafna og ég tel að enn sé ekki komið að þeim tíma að það sé vert tíma þingnefndanna eða þingsins að taka á málunum. Það er, eins og fram kom í mínu máli, unnið að þessu í samráði við orkumálastjóra og starfsmenn utanrn., eins og eðlilegt er, og kynning í nefndum þingsins mun að sjálfsögðu fara um rétta farvegi, í iðnn. og utanrmn. Fyrir því mun ég að sjálfsögðu beita mér og þarf varla að taka það fram.