Forfallaþjónusta í sveitum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 10:32:00 (5110)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum starfar samkvæmt lögum nr. 32 29. maí 1979.
    Tilgangur þessa starfs er að aðstoða við nauðsynleg hús- og heimilisstörf þegar veikindi, slys eða önnur forföll ber að höndum.
    Starfsemi forfallaþjónustunnar hefur haft mikla þýðingu fyrir íbúa sveitanna þau ár sem hún hefur starfað og aukið mjög á félagslegt öryggi sveitafólks.
    Sú þjónusta sem forfallaþjónustan veitir verður stöðugt mikilvægari eftir því sem fólki fækkar í sveitum og erfiðara verður að treysta á aðstoð nágranna og skyldmenna ef hjálpar er þörf.
    Á þeim 10 árum sem forfallaþjónustan hefur starfað hefur fengist mikilvæg reynsla af stjórnun og skipulagi slíks starfs. Að þeirri reynslu fenginni og með tilliti til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í landbúnaðinum á undanförnum árum þykir ástæða til að endurskoða lagaákvæði sem forfallaþjónustan starfar eftir.
    Við endurskoðun laganna var sú leið valin að semja nýtt frv. í stað þess að gera tillögur til breytinga á einstökum greinum.
    Drög að frv. voru kynnt á aðalfundi Stéttarsambands bænda árið 1989 og samþykkti fundurinn eftirfarandi ályktun um málið:
    ,,Aðalfundur Stéttarsambands bænda 1989 telur nauðsynlegt að breytingar verði gerðar á lögum og reglum um forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum með tilliti til fenginnar reynslu. Því mælir fundurinn með því að frumvarp það til laga um forfalla- og afleysingaþjónustu sem kynnt hefur verið fyrir fundinum, verði lögfest hið fyrsta. Það er skilyrði fundarins fyrir gjaldtöku samkvæmt 2. grein frumvarpsins að framleiðendagjald til Stofnlánadeildar lækki að sama skapi.``
    Í 1. gr. frv. er fjallað um tilgang laganna. Sú breyting er lögð til frá gildandi lögum að fastráðnir starfsmenn á bændabýlum eigi eftirleiðis rétt á aðstoð. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að gjald til að kosta starfsemi forfalla- og afleysingaþjónustunnar er tekið af allri búvöruframleiðslu í landinu.
    Í búgreinum þar sem mest er um aðkeypt vinnuafl, svo sem í garðyrkju, alifuglarækt og svínarækt, hafa möguleikar til þess að hagnýta sér þjónustuna ekki verið í samræmi við það fjármagn sem búgreinarnar leggja starfseminni til, þar eð einungis bóndinn og maki hafa átt rétt á þjónustu. Nauðsynlegt er að hér verði breyting á svo að bændur standi sem jafnast að vígi í þessu efni.
    Í 2. gr. frv. er vísað til nýsettra laga um Búnaðarmálasjóð, en skv. 4. gr. þeirra laga er forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum tryggður ákveðinn hluti af tekjum af búnaðarmálasjóðsgjaldi sem ætlað er að standa straum af kostnaði við þjónustu þessa.
    Í 3. gr. frv. er fjallað um rétt einstakra aðila til þjónustu. Lögð er til sú grundvallarbreyting að réttur hvers einstaklings miðist við vinnuframlag hans í stað þess að miða við hlutfall tekna af landbúnaði af heildartekjum.
    Hlutverk forfallaþjónustunnar er að útvega starfskraft til þess að leysa af hendi þau verkefni er sá sem forfallast hefur annast við búreksturinn og/eða heimilisstörf. Því er eðlilegt að meta þörfina fyrir aðstoð út frá umfangi þeirrar vinnu sem hann að jafnaði leysir af hendi við landbúnað. Búrekstur einstakra bænda er mjög mismunandi að umfangi og er því sú vinna sem þörf er fyrir vegna forfalla að sama skapi breytileg.
    4. gr. frv. er efnislega samhljóða ákvæðum þeim sem er að finna í 2. gr. núgildandi laga.
    Gert er ráð fyrir að stjórn forfallaþjónustunnar ákveði fjölda afleysingamanna fyrir hvert búnaðarsambandssvæði en skipulag starfsins og daglegur rekstur verði í höndum og á ábyrgð viðkomandi búnaðarsambands.
    Felld eru niður ákvæði um kjör afleysingamanna þar sem tæpast getur talist eðlilegt að slík atriði séu lögbundin. Einnig eru felld niður ákvæði um fjölda daga á ári sem bóndi eða maki hans geti notið þjónustu. Eðlilegra virðist að slíkt sé ákveðið af stjórn forfallaþjónustunnar eða með reglugerð með tilliti til þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru og til annarra aðstæðna.
    Samkvæmt gildandi lögum fer Búnaðarfélag Íslands með yfirstjórn forfalla- og afleysingaþjónustunnar í umboði landbrh. Í 5. gr. frv. er lögð til sú breyting að sérstök stjórn skipuð fimm fulltrúum hagsmunaaðila, Stéttarsambands bænda og búnaðarsambandanna og einum tilnefndum af Búnaðarfélagi Íslands, fari með stjórn þessara mála.
    Í 7. gr. er kveðið á um að gerðar skuli lágmarkskröfur um starfsreynslu afleysingamanna, svo sem um námskeiðahald fyrir þá. Í bændaskólunum er boðið upp á námskeið sem nýst geta þessum mönnum.     Í 8. gr. felst það nýmæli að forfallaþjónustunni er heimilt að taka upp samvinnu um skipulag og ráðningu starfsmanna við almenna afleysingaþjónustu sem rekin er á vegum samtaka bænda eða hóps bænda.
    Fjmrn. hefur yfirfarið frv. með tilliti til kostnaðar og gefið þá umsögn að útgjöld ríkissjóðs aukist ekki við samþykkt þess. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og landbn.