Skálholtsskóli

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 11:43:00 (5120)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Skálholtsskóla, en frv. er ætlað að leysa af hólmi lög um Skálholtsskóla sem eru nr. 31 frá árinu 1977. Frv. og athugasemdir með því er samið af nefnd sem ég skipaði að frumkvæði biskups Íslands og í samráði við menntmrh. til þess að huga að málefnum Skálholtsstaðar og gera tillögur þar að lútandi. M.a. var nefndinni ætlað að kynna sér starfsemi Skálholtsskóla og gera tillögur um framtíðarskólarekstur á staðnum. Nefnd þessa skipuðu: Ásdís Sigurjónsdóttir deildarsérfræðingur, skipuð samkvæmt tilnefningu fjmrh., séra Jón Einarsson prófastur, skipaður samkvæmt tilnefningu kirkjuráðs, séra Jónas Gíslason, vígslubiskup Skálholtsstiftis, skipaður samkvæmt tilnefningu biskups Íslands, séra Sigurður Sigurðarson sóknarprestur, skipaður samkvæmt tilnefningu menntmrh., og Lára Margrét Ragnarsdóttir alþm. sem jafnframt var formaður nefndarinnar.
    Í athugasemdum með frv. er saga Skálholtsskóla rakin en hann tók til starfa árið 1972 undir stjórn séra Heimis Steinssonar. Bygging skólans hófst hins vegar tæplega 10 árum áður. Var skólabyggingin að miklu leyti fjármögnuð fyrir söfnunarfé Skálholtsvina og lýðháskólanna á Norðurlöndum.
    Samkvæmt núgildandi lögum um Skálholtsskóla heyrir skólinn undir menntmrn. og skal starfa í anda norrænna lýðháskóla. Þróunin í skólamálum á undanförnum árum m.a. tilkoma fjölbrautaskólanna hefur hins vegar leitt til þess að minni áhugi virðist vera á lýðháskólanámi en áður var. Það hefur haft þær afleiðingar að undanfarin ár hefur skólinn í raun ekki starfað sem hefðbundinn lýðháskóli innan þess ramma sem lögin frá 1977 marka honum, heldur hefur hann meir færst í það form að vera kirkjuleg menningar- og fræðslustofnun og hefur starfsemi hans einkum verið í formi ráðstefnuhalds og námskeiða sem hafa vakið áhuga og verið vel sótt. Með hliðsjón af þessari þróun er augljóslega nauðsynlegt að marka skólanum nýjan farveg með nýjum lögum.
    Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. kynnti nefndin sér skólastarf í Skálholti á undanförnum árum og hugmyndir aðstandenda skólans um framtíðarstarfsemi innan skólans. Nefndin kynnti sér enn fremur tónlistarstarf í Skálholti á undaförnum árum en frá árinu 1975 hafa verið haldnir þar tónleikar á hverju sumri sem hafa vakið verðskuldaða athygli og verið einn helsti vaxtarbroddurinn í starfsemi á Skálholtsstað á undanförnum árum. Hafa áhugamenn um tónlistarstarf í Skálholtskirkju og aðstandendur sumartónleikanna stofnað með sér samtökin Collegium Musicum. Með frv. sínu hefur nefndin leitast við að laga starfsemi Skálholtsskóla að þörfum samtíðarinnar og þá einkum að þörfum kirkjunnar. Jafnframt hefur verið tekið mið af því sem verst hefur gefist í starfi skólans á undanförnum árum.
    Í frv. er lagt til að Skálholtsskóli verði kirkjuleg menningar- og menntastofnun sem starfi á vegum þjóðkirkju Íslands undir stjórn kirkjuráðs en ríkið taki þátt í kostnaði af rekstri hans samkvæmt samningi sem dóms- og kirkjumrh., menntmrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs annars vegar og biskups Íslands fyrir hönd kirkjuráðs hins vegar hafa gert með sér. Samningurinn er fylgiskjal með lagafrv. Í honum er gert ráð fyrir að ríkið greiði árlega 4 millj. kr. í grunnframlag til reksturs skólans. Að auki veitir ríkissjóður framlag til skólans sem árlega nemi sömu fjárhæð og skólinn fær frá öðrum aðilum en ríkissjóði árið þar á undan, þó ekki hærri fjárhæð en nemur 2 millj. kr. Samkvæmt samningnum er ríkissjóður ekki skuldbundinn til fjárframlaga vegna stofnkostnaðar. Tekið skal fram að skv. 1. mgr. 8. gr. núgildandi laga um Skálholtsskóla skal ríkissjóður greiða rekstrarkostnað skólans að fullu nema rekstrarkostnað heimavistar sem skal greiðast að 80%. Enn fremur skal ríkissjóður greiða 80% af stofnkostnaði kennsluhúsnæðis sem byggt verður eftir gildistöku laganna.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. um frv., sem er fylgiskjal með því, er gerð nánari grein fyrir

kostnaði ríkisins vegna samningsins. Þar kemur m.a. fram að í fjárlögum fyrir árið 1991 var framlag ríkisins til skólans 6,2 millj. kr. og að samningurinn leiði ekki til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð miðað við fjárlög 1992. Í 7. gr. samningsins kemur fram að samkomulag hafi orðið um það milli menntmrh. og kirkjuráðs í samræmi við 5. mgr. 8. gr. laga um Skálholtsskóla, nr. 31/1977, að húsnæði skólans verði afhent í samræmi við lög nr. 32/1963, um heimild til að afhenda þjóðkirkjunni Skálholtsstað. Í 2. gr. frv. er gerð grein fyrir markmiðum skólans sem skulu vera þau að efla tengsl kirkju og þjóðlífs og stuðla að sem víðtækustum áhrifum kristinnar trúar og kristinnar menningar í íslensku þjóðlífi. Skv. 3. gr. skal skólinn einkum starfa á þremur sviðum, þ.e. guðfræðisviði, kirkjutónlistarsviði og fræðslusviði. Svo sem fram kemur í athugasemdum með greininni er gert ráð fyrir að starfsemi á þessum sviðum verði fjölbreytt og að skólinn hafi svigrúm til að móta starfsemina á hverjum tíma.
    Í 4. gr. er lagt til að skólaráð fari með stjórn skólans í umboði kirkjuráðs. Kirkjuráð skipi fulltrúa í ráðið, einn samkvæmt tilnefningu Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu sóknarnefndar Skálholtssóknar og einn án tilnefningar. Vígslubiskup Skálholtsstiftis skal vera formaður skólaráðsins. Enn fremur er gert ráð fyrir að guðfræðideild Háskóla Íslands eigi fulltrúa í ráðinu og að sá fulltrúi hafi ásamt forstöðumanni tilsjón með starfi á guðfræðisviði skólans. Á sama hátt skuli biskup Íslands tilnefna fulltrúa í ráðið sem hafi tilsjón með starfi á fræðslusviði skólans. Með hliðsjón af því dýrmæta starfi sem tónlistarfólk hefur unnið í Skálholti á undanförnum árum og þeim áhuga sem það hefur látið í ljós á áframhaldandi tónlistarstarfi þar svo og þörfum kirkjunnar í þessum efnum er lagt til að samtökin Collegium Musicum hafi rétt til að tilnefna fulltrúa í ráðið sem hafi tilsjón með starfi á kirkjutónlistarsviði.
    Í frv. er lögð áhersla á að skólinn starfi á sviði skipulegrar stefnumótunar og að gerðar séu áætlanir um skólastarf með reglubundnum hætti samanber 5. gr. frv. Samkvæmt 6. gr. þess á kirkjuráð að ráða forstöðumann skólans til allt að sex ára í senn að fengnum tillögum skólaráðs og setja honum erindisbréf. Forstöðumaður skal stjórna daglegum rekstri skólans.
    Herra forseti. Ég hef nú lokið við að gefa yfirlit yfir efni frv. Ég legg áherslu á að það verði að lögum á þessu þingi því eins og ég hef vikið að virðist brostinn grundvöllur fyrir rekstri skóla í Skálholti innan þess ramma sem núgildandi lög marka. Með frv. er að því stefnt að í Skálholti verði starfrækt öflug kirkjuleg menningar- og menntastofnun samboðin virðingu þessa fornfræga staðar og kirkju og þjóðlífi til gagns.
    Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.