Ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

118. fundur
Föstudaginn 03. apríl 1992, kl. 15:25:00 (5155)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Sjálfagt getur enginn sannað það hvernig þróun í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum gerist best, en ég er sannfærður um og styðst þar við reynslu að betra sé að atvinnugreinin hafi sjálf forræði á þeim málum, hitt sé óskynsamlegra og leiði jafnan til verri niðurstöðu ef stjórnvöld ætla að stýra atvinnugreininni og um það stendur þessi ágreiningur.
    Síðan vil ég enn á ný leiðrétta misskilning hv. þm. og mér þykir leitt að hann skuli ekki hafa skilið athugasemdir mínar frá í gær því hann hefur misskilið efni frumvarpanna sem þá voru til umræðu og hann virðist gera það enn. Þau lúta að mjög róttækum breytingum á stjórnsýslu í sjávarútvegi, hvernig skipað er meðferð stjórnsýslu varðandi úthlutun veiðileyfa, varðandi eftirlit, varðandi meðferð gæðamála og ýmissa annarra þátta. Þessi stjórnsýsluákvæði geta átt við hverja þá skipan sem menn vilja koma á varðandi stjórn veiðanna, hvort heldur það er stjórn samkvæmt aflamarki eða sóknarmarki. Hv. þm. þarf ekki annað en að lesa texta frv. um Fiskistofu til þess að komast að raun um þetta. Meðan núverandi lög eru í gildi mun ráðuneytið og væntanlega Fiskistofan framkvæma þau á þeim grundvelli, en skipulag stjórnsýslunnar er allt annar hlutur og kemur ekki sjálfri fiskveiðistjórnuninni við. Ég vona að ég þurfi ekki að leiðrétta hv. þm. í hið þriðja sinn um þetta atriði.