Yfirskattanefnd

121. fundur
Miðvikudaginn 08. apríl 1992, kl. 15:00:00 (5265)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa átt sér stað um þetta frv. og stuðningsyfirlýsingu frá a.m.k. einum þingmanni ef ekki fleirum. Ég veit að málið verður í góðum höndum þegar það fer til hv. nefndar, enda hafa nú þegar tjáð sig um málið nokkrir ágætir hv. nefndarmenn.
    Fyrst langar mig til að víkja að ræðu hv. 18. þm. Reykv. og þá fyrst um 4. gr. þar sem sagt er að nefndin skuli hafa aðsetur í Reykjavík. Ég vil taka það fram að það sem er kannski sérstakt við þessa grein er hitt að nefndinni er heimilt að ákveða málflutning og úrskurði um einstök ágreiningsmál annars staðar á landinu, ef hún telur þörf á. Með öðrum orðum að þótt aðsetrið sé í Reykjavík þá geta komið upp þau tilvik að yfirskattanefnd flytji sig um set og setji sig niður um stundarsakir annars staðar og vinni þar og um það snýst þessi grein. Hitt er svo annað mál, sem fram kom í ræðu hv. Reykjavíkurþingmanns að vera kann að starfsemi af þessu tagi á vegum hins opinbera geti allt eins átt sér stað annars staðar en í Reykjavík og finnst mér full ástæða til að það sé kannað hvort þessi starfsemi og sérhver önnur verði flutt frá Reykjavík og til annarrar byggðar. Við höfum tekið þátt í slíkum umræðum um margra ára og áratuga skeið án þess að mikið hafi gerst í þeim efnum. Ég hygg að þótt einhvers staðar verði að byrja, þá sé ekki víst að þetta sé eðlilegasta byrjunin, en skal ekki útiloka að svo geti orðið þegar fram líða stundir.
    Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort það dygði að hafa sex menn í yfirskattanefnd eins og nú segir í 9. gr. frv. Af því tilefni og eins vegna þeirra umræðna sem fram fóru hér fyrr um það hvort þetta væri ekki framkvæmdaratriði frekar en lagaatriði, að flýta málum fyrir yfirskattanefnd, vil ég segja að í 9. gr., þótt það sé ekki sagt bókstaflega í greininni sjálfri, er opnað fyrir það að nefndin geti starfað í deildum, t.d. tveimur deildum. Þess er getið í athugasemdum með 9. gr. að hugsanlegt sé að hún skipti sér upp í tvær þriggja manna deildir. Verði slíkt gert, sem ég tel ástæðu til þess að láta gerast, þá ættu afköst nefndarinnar að verða meiri en verið hefur. Á þetta vil ég minna. Það þótti ekki ástæða til að taka þennan texta upp í lagagreinina sjálfa, en þegar vísað er til athugasemdanna kemur í ljós að það er álit þeirra sem semja frv. að þessi úrskurðaraðili, yfirskattanefnd, geti starfað í tveimur deildum rétt eins og Hæstiréttur gerir nú. Í þeim skilningi ættu því þessir sex menn að geta afkastað talsverðu og umfram það sem nú hefur verið gert með breyttum vinnubrögðum. Skal ég þá ekki segja hvort hægt hefði verið á grundvelli gildandi laga að láta ríkisskattanefnd starfa í fleiri en einni deild.
    Hv. þm. spurðist enn fremur fyrir um það hvort algengt væri að sagt sé í lagatexta að einhverjir aðilar skuli vera hæfir eða fullnægja tilteknum skilyrðum og síðan sé vitnað til annarra laga. Slíkt er mjög víða að finna í íslenskum lögum, sérstaklega þegar um er að ræða skilyrði sem eru nokkuð skýr. En stundum þá gerist það að slík skilyrði breytast frá einum tíma til annars, þótt það gerist ekki oft og þá þarf ekki að breyta tiltölulega mörgum lögum, þótt skilyrðin, t.d. skilyrði til þess að verða sýslumaður, skilyrði til þess að geta orðið héraðsdómari o.s.frv. breytist, en það er víða í lögum sem eru bendingar í aðra löggjöf til þess að ná fram sams konar skilyrðum og þar er lýst. Fyrir mér er það ekkert sáluhjálparatriði að þessu sé ekki lýst mjög nákvæmlega í þessum tilteknu lögum og má gera það mín vegna, en þeir lögfræðingar sem semja þetta frv. gera eins og oft er gert að vísa til annarra laga.
    Það kom fram hjá þeim sem hér töluðu, einkum og sér í lagi þremur fyrstu ræðumönnunum eftir að framsöguræðan var flutt, að menn höfðu skiptar skoðanir á því hvort það væri til bóta að hverfa frá því fyrirkomulagi sem ríkir nú, en það lýsir sér í því að fjórir nefndarmenn eru ekki fastráðnir en eru aðilar sem vinna við slík störf, m.a. hjá fyrirtækjum eða á sjálfstæðum skrifstofum í bænum. Þau rök eru færð fram að það geti verið heppilegt fyrir ríkisskattanefndina, eða yfirskattanefndina, að njóta slíkra starfskrafta. Undir það vil ég taka. Það eru bæði kostir og gallar á því að breyta þessu eins og gert er ráð fyrir í frv. En á móti kemur það sjónarmið sem kom skýrast fram hjá hv. 18. þm. Reykv. þegar minnst var á 19. gr. að hún taldi að það væri til góðs að skilja vel á milli úrskurðaraðilans annars vegar og hinna sem vinna við þessi störf og jafnvel flytja mál af þessu tagi fyrir nefndinni í öðrum málum. Ég skal ekki fullyrða að framkvæmdin hafi verið þannig að menn hafi hlaupið og stokkið yfir borðið í eigin málum en það er vissulega hætta á því að menn sem starfa aðeins að hluta til sem úrskurðaraðili sem nálgast það að vera dómstóll séu ekki nægilega lausir við þá hagsmuni sem hljóti að fylgja því að starfa sem málaflutningsmenn. En ég viðurkenni að með þeim hætti sem nú ríkir hafa fengist margir mjög góðir og duglegir menn til þessara starfa. Ég vil undirstrika það að með þessari breytingu er ekki verið að lýsa því yfir að um duglausa eða annars flokks menn hafi verið að ræða, því það er síður en svo, og satt að segja mundi ég fagna því ákaflega ef einhverjir þeirra fengjust til þess að sækja um þau embætti sem auglýst yrðu ef þetta frv. yrði að lögum.

    Ég bendi á að í frv. er gert ráð fyrir því að hægt sé að kalla á sérfróða menn og auðvitað munu þeir gera það sem verða í yfirskattanefndinni að kalla til slíka aðila til þess að fá þá sérfræðilegu aðstoð sem þeir þurfa á að halda í þeim mjög svo flóknu málum sem ríkisskattanefnd, eða yfirskattanefnd, hefur til úrskurðar.
    Ég vek athygli á því vegna athugasemda sem fram komu og snúa að 23. gr. að einmitt í vor þarf að skipa menn í nefndina og ég vek athygli sérstaklega hv. nefndarmanna á því að ef þetta frv. verður ekki að lögum, þá stend ég að sjálfsögðu frammi fyrir því að þurfa að ráða menn til nokkurra ára sem fasta starfsmenn eða fasta ríkisskattanefndarmenn. Þess vegna þótti mér brýnt að flytja frv. nú og freista þess að fá afgreiðslu á því á yfirstandandi þingi.
    Ég skal taka undir að það kann vel að vera að áætlun fjmrn. sé í lægri kantinum þegar talað er um 6--7 millj. en þar er um árstölu að ræða, ef ég man rétt, þannig að þetta er þá 3--3,5 millj. sem mundi verða kostnaðaraukinn á yfirstandandi ári í þá 6--7 mánuði sem nefndin kemur til með að starfa í breyttri skipan.
    Ég held að ég hafi nú svarað flestöllu því sem til mín var beint í umræðunum. Það kom fram að stundum bæri of mikið á því að menn héldu að hægt væri að laga skattframkvæmdina með nýjum lögum og ég tek undir þau sjónarmið. Það ber dálítið á því oft að menn telja að það eigi að grípa til nýrra laga, það sé það sem sé að en veita því minni athygli að stundum er hægt að gera breytingar á grundvelli gildandi laga. Í þessu tilliti bið ég hv. nefndarmenn að kynna sér málið af gaumgæfni, og sérstaklega að kalla til þá aðila sem að þessum málum hafa starfað hingað til.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði miklar áhyggjur af því að í 2. gr. þessa frv. væru taldir upp þeir skattar og þau gjöld sem væru á gildissviði yfirskattanefndarinnar og taldi að þetta ákvæði gæti orðið sérstaklega mér fjötur um fót í framtíðinni þar sem búast mætti við að ég yrði að leggja nýjar álögur, nýja skatta á landsmenn á næstunni, og þá væri það viðurhlutamikið að þurfa að vera að breyta þessum lögum í hvert skipti. Nú er það svo að ef settur er nýr skattur á landsmenn, þá gerist það ekki nema með lögum þannig að í hvert skipti má þá gæta þess að setja fram breytingu á 2. gr. þessara laga ef þetta frv. verður að lögum. Ég held að það sé nú ekki ofverk neins ráðherra að sjá til þess. Hitt er svo annað mál að gildissviðið er takmarkað. Það nær ekki til allra gjalda og allra svokallaðra skatta. Í sumum tilvikum er um að ræða gjöld sem renna til ríkissjóðs eða einstakra sjóða á vegum ríkisins og sveitarfélaga og þá er úrskurðarvald ríkis og yfirskattanefndar ekki fyrir hendi heldur einungis um það að ræða að til dómstóla verði leitað. Af þessu ástæðum þarf að tilgreina gildissvið þessara laga og þessa úrskurðaraðila mjög rækilega í 2. gr.
    Að lokum ætla ég að benda hv. þm., sem ber mikla umhyggju fyrir mér í þessum efnum, á að frv. um nákvæmlega sömu efnisatriði var á sínum tíma flutt af hv. 8. þm. Reykn., hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem mun vera formaður Alþb., þess flokks sem hv. þm. er varaformaður í, og ég treysti því nú að hv. þm. fylgi meginstefnu formanns síns og sé ekki með uppsteyt í þessu máli þótt ég viti að það sé gaman fyrir mýsnar að leika sér þegar kötturinn er ekki heima.