Mengun frá bandaríska hernum

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 12:18:00 (5348)

     Sigríður Jóhannesdóttir :
    Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa áhyggjur manna um allan heim farið vaxandi vegna mengunar frá herstöðvum. Það má segja að nánast hvarvetna þar sem farið hefur verið fram á rannsókn á mengunarþáttum í grennd við herstöðvar hafi komið fram mengun og sums staðar af mjög alvarlegu tagi. Nærtækustu dæmin eru frá Þýskalandi en þar eru nú þekkt meira en 300 svæði þar sem hættuleg efni hafa farið niður í jarðveg og hefur þurft að verja gríðarlegum fjárhæðum til úrbóta. Svipaðar upplýsingar hafa komið frá Guam, Suður-Kóreu, Mið-Ameríku og Filippseyjum auk þess sem um þessar mundir er gengið hart fram í hreinsun þessara eiturefna úr jarðvegi víðs vegar í Bandaríkjunum og hefur Bandaríkjastjórn stofnað sérstakan sjóð til að fjármagna þessar aðgerðir enda er nú talið að þarna verði um þúsund milljarða kostnað að ræða, þúsund milljarða Bandaríkjadala.
    Nú hefur það gerst að í sambandi við málshöfðun landeigenda á Heiðarfjalli gegn bandarískum stjórnvöldum hefur komið í ljós þetta plagg sem undirritað er fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og varnarliðsins og vil ég leyfa mér að lesa 1. gr., með leyfi hæstv. forseta. Hún er svohljóðandi:
    ,,Varnarliðið afhendir hér með ríkisstjórn Íslands svæði H2 á Langanesi (H2-Site Langanes). Ríkisstjórn Íslands afsalar sér hér með fyrir sína hönd og allra íslenskra ríkisborgara öllum kröfum gegn Bandaríkjum Norður-Ameríku eða embættismönnum þeirra eða fulltrúum, öllum kröfum sem kunna að stafa af komu þeirra til eða notum þeirra af þessu landsvæði eða hverjum þeim endurbótum sem á því hafa verið gerðar.``
    Og þá vaknar spurningin: Hefur verið samið í þessum dúr um eitthvað fleira? Og spurningin sem ég ber hér undir hæstv. utanrrh. fyrir hönd 9. þm. Reykv., Auðar Sveinsdótttur, er því svohljóðandi:
    ,,Hefur íslenska ríkið afsalað sér skaðabótarétti vegna grunnvatnsmengunar í Keflavík og nágrenni með vatnsveitusamningi við bandaríska herinn?``