Ferðakostnaður lækna

122. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 13:08:00 (5370)


     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að þær upplýsingar sem hæstv. heilbrrh. kom fram með sýni það alveg og undirstriki að hér er ekki um að ræða hefðbundin leyfi til námsdvalar. Hér er greinilega um að ræða ákveðna uppbót á kjör og ég hygg að það þurfi að líta á það þannig og ég hygg að það þurfi að leggja mjög mikla áherslu á það í viðræðum við lækna að það beri að líta á þessar greiðslur sem þarna eru inntar af hendi, sem hlaupa á hundruðum millj. kr., sem beina uppbót á kjör. Auðvitað er líka alveg ljóst að af þeim tölum sem hæstv. ráðherra kom fram með að meðalferðakostnaður er til að mynda ekkert í samræmi við það sem maður sér að verið er að auglýsa á almennum ferðamarkaði sem venjulegt fólk sækist eftir. Hér er greinilega fylgt þeirri gömlu reglu að þegar þriðji aðilinn borgar þá þarf lítið að huga að því hver kostnaðurinn er. Ég vil enn fremur vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur þáltill. sem verður vonandi rædd innan tíðar sem lýtur að því að taka til umfjöllunar sérstakar vildargreiðslur til starfsfólks sjúkrahúsanna vegna leikskóla og fróðlegt væri að skoða þessi mál öll í samhengi.