Framhald þingfundar

123. fundur
Fimmtudaginn 09. apríl 1992, kl. 16:37:01 (5405)

     Forseti (Björn Bjarnason):
    Að gefnu tilefni vill forseti taka fram að hann gerði ekki annað en að svara fyrirspurn sem kom fram í þingskapaumræðu og telur ekki ámælisvert að svara því. Forseti sagði að hér yrðu fundir til klukkan sex a.m.k. og síðan svaraði hann þeirri fyrirspurn að fundur hæfist klukkan 10.30 í fyrramálið. Það er samkvæmt starfsáætlun þingsins að fundur er á morgun, á föstudegi, og venjulega hefjast fundir klukkan 10.30 á föstudögum svo að það ætti ekki að koma þingmönnum í opna skjöldu.
    Varðandi fundahöldin í dag þá er það viðleitni forseta að reyna að koma sem flestum málum þingmanna á framfæri svo þingmenn fái tækifæri til að flytja mál sín. Við vorum hér á fundi í gærkvöldi til klukkan eitt, m.a. til að koma sem flestum málum fram. Annars vegar sitja forsetar undir gagnrýni fyrir það að veita ekki málum framgang og hins vegar fyrir það að halda of langa fundi. Forseti veit ekki almennilega hvernig hann á að bregðst við þessum óskum sem ganga þvert hver á aðra.