Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 13:41:00 (5433)

    Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem hér er til umræðu. Núgildandi sóttvarnarlög munu vera síðan 1954, sem sagt tæpra 40 ára, ef ég hef skilið rétt. Síðan þau voru sett hafa komið alvarlegir smitsjúkdómar upp og nægir þar að nefna þann voðalega sjúkdóm eyðni sem nú leggur í valinn milljónir manna í heiminum. Til að verjast þeim sjúkdómi hefur farið fram nokkur fræðsla og ber í þeim efnum að þakka félagi samkynhneigðra, Samtökunum '79, fyrir þann framgang og það hugrekki og ábyrgð sem þau hafa viðhaft til að styrkja og koma þeirri fræðslu á framfæri ásamt landlæknisembættinu.
    Það er aftur á móti svo að eyðnisjúklingar eru sumir einnig sjúkir að öðru leyti, þ.e. eru fíkniefnasjúklingar, og sumir þeirra leiðast út í vændi til að afla sér peninga fyrir fíkniefnunum sem þeir eru svo háðir. Þetta býður auðvitað hættunni heim þar sem dómgreind þessara sjúklinga er í molum og fíknin sem þeir eru haldnir stjórnar gerðum þeirra. Þess vegna vil ég benda á 10. gr. í frv. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Hafi læknir, sem hefur sjúkling til meðferðar sem haldinn er smitsjúkdómi, rökstuddan grun eða vitneskju um að sjúklingurinn fylgi ekki fyrirmælum sem honum voru sett um umgengni og meðferð skal hann tilkynna það þegar í stað til viðkomandi héraðslæknis eða sóttvarnalæknis.``
    Ég tel ég að 10. gr. sé allra góðra gjalda verð. En þó verður að gæta vandlega að því að ekki sé um leið verið að merkja opinberlega einstaklinga úti í þjóðfélaginu sem taldir eru á þennan hátt hættulegir umhverfi sínu.
    Í umsögn um frv. segir að ætla megi að kostnaður við að ráða sérstakan sóttvarnalækni til embættis landlæknis sé a.m.k. 7 millj. kr. á ári. Það eru töluverðir peningar nú

á tímum niðurskurðar en að mínu mati er þeim vel varið þó að ég sakni þess að sjá ekki áætlaðan kostnað vegna forvarna en væntanlega er það innifalið í þessari upphæð.
    Í frv. kemur einnig fram eins og réttilega var bent á áðan að starfrækja verður göngudeildir sem kostar líka töluvert og það er gott að ráðherra telur þjóðina hafa efni á því núna á tímum boðaðs niðurskurðar í ríkisbúskapnum. Ég fagna því að heyra að það skuli þó vera efni á þessu.
    Virðulegi forseti. Ég tel þetta frv. brýnt en held að ýmislegt í því þurfi að skoða nánar eins og ég benti á í sambandi við 10. gr. Og eins og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á áðan ber að skoða nánar sérstaklega það er snýr að ýmsu er varðar persónufrelsi og að mínu mati þarf að fara mjög varlega í því sambandi.
    Það kom líka fram í máli ráðherra að með því að frv. verði að lögum verði mikil lagahreinsun og það er auðvitað til bóta. Það er vafalaust. En mig langar til að spyrja ráðherra um það að nú skilst mér að fella eigi út lög sem varða berklasjúkdóminn og lög sem varða kynsjúkdóma --- ég verð nú að viðurkenna að ég er ekki nógu fróð til að þekkja þessi gömlu lög --- mig langar að spyrja í framhaldi af því hvernig er með berklatilfelli hér á landi núna og eins með kynsjúkdómatilfelli. Ég veit að berklatilfellin eru mikið í rénun en mig langar að vita hvort það er eitthvað um þau núna og mig langar að vita líka hvort kynsjúkdómatilfellum hefur fækkað mikið.