Sóttvarnalög

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 14:29:00 (5443)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ónæmisaðgerðirnar eru gerðar samkvæmt farsóttalögum. Þau eru felld niður samkvæmt ákvæðum þessara laga enda er gert ráð fyrir því að sóttvarnalögin, verði þau samþykkt eins og frv. gerir ráð fyrir, veiti landlækni þær heimildir sem farsóttalögin veita honum í dag til ónæmisaðgerða.
    Í öðru lagi var spurt um berklavarnir. Mér er ekki kunnugt um annað en að berklaskoðun fari fram enn eins og hún hefur farið fram á undanförnum árum. Hins vegar er það alveg rétt hjá hv. þm. að það hefur komið til tals hvort ástæða væri til að ganga jafnríkt eftir berklaskoðunum og gert hefur verið. Engin ákvörðun um að breyta til hefur hins vegar verið tekin.
    Í þriðja lagi þá er það auðvitað Alþingi sem með fjárveitingum ákvarðar um það hvort unnt sé að efna til sérstakrar göngudeildarstarfsemi fyrir smitsjúklinga. Það ákvarðast að sjálfsögðu í þeim fjárlögum sem Alþingi afgreiðir næst þegar kemur að fjárlagaafgreiðslu þannig að ég hef enga fjármuni til þess að geta stofnsett slíka göngudeild fyrir smitsjúklinga öðruvísi heldur en með heimildum frá hinu háa Alþingi. Það veit hv. þm. Guðrún Helgadóttir því hún veit það af sinni löngu þingreynslu að ráðherra getur ekki ákveðið fjárveitingar sem Alþingi hefur ekki samþykkt.