Almannatryggingar

124. fundur
Föstudaginn 10. apríl 1992, kl. 15:06:00 (5449)

     Magnús Jónsson :
    Virðulegi forseti. Það er eiginlega ekki hægt annað en að taka slíkri áskorun sem hér kom fram áðan af því við vorum ekki allt of margir í salnum af þessu kyni.
    En ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið að það er auðvitað hið besta mál að þessi mál séu tekin til umræðu hér. Ég er þeirrar skoðunar að efni frv. sé þess eðlis að það sé ekki verið að taka raunverulega á þeim vanda sem við er að glíma. Raunar er það mín skoðun að flm. séu að reyna að leggja til að setja nokkurs konar plástur á vandamál í staðinn fyrir að reyna að komast að kjarna málsins. Ég held raunar að kjarni málsins í þessu sé sá að það er engan veginn búið nægilega vel að fjölskyldum í landinu. Og að ætla sér síðan að reyna að fara að bæta þar úr með því að auka greiðslur til einstæðra foreldra eða meðlagsgreiðslur frá feðrum til einstæðra mæðra, ég held að við séum ekki að leysa neitt vandamál til frambúðar með því. Þess vegna get ég tekið undir þau orð sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði að við ættum að reyna að leita einhverra annarra leiða en hér er lagt til.
    Raunar er ég heldur ekki viss um að það sé rétta leiðin að fara að ívilna einstæðum foreldrum skattalega. Þeir sem lásu hér blað fyrir rúmri viku gátu séð fyrirsögn með flennistóru letri: ,,Hjón með tvö börn geta grætt hálfa milljón á því að skilja``.
    Það er hægt að búa til kerfi sem býður upp á misnotkun. Þó það sé í sjálfu sér sett í góðri meiningu upphaflega er það engu að síður ákveðin árátta þegar búið er að mismuna annars vegar fólki í sambúð og hins vegar fólki sem ekki er í sambúð á þennan hátt, því fólki í hag sem ekki er í sambúð, þá er viss hætta á því að fólk fari að misnota það. Þess vegna er ég ekki alveg viss um að skattareglur geti komið í veg fyrir þetta.
    Raunar er svolítið fróðlegt að grípa hér ofan í þessa blaðagrein á nokkrum stöðum. Það kemur sem sagt fram að tekjuauki eftir skilnað --- svo ég grípi bara orðrétt ofan í þetta, samkvæmt úttekt þessa blaðs --- hjá hjónum með tvö börn er 47.961 kr. á mánuði, að gefnum ákveðnum forsendum sem ég ætla ekki að rekja hér nánar. Þetta er auðvitað ekkert séríslenskt vandamál. Meðal annars Svíar, sem manna lengst eru komnir í þessum málum og við höfum um margt tekið okkur til fyrirmyndar, hafa reynt að gera á því könnun hversu mikil misnotkun eða notkun er á þessu kerfi. Þeir sendu út lista til þess að reyna að komast að því, en viðbrögðin við þessum lista urðu þau að hann var álitinn rammasta árás ríkisvaldsins, persónunjósnir, og þar af leiðandi fengust engin svör. Það kom með öðrum orðum yfirvöldum ekki við hvernig fólk hegðaði sínum sambúðarmálum.
    Það er mín skoðun að þetta sé svo margslungið mál að við leysum ekki það sem hér er ætlað að reyna að leysa með þeim tillögum sem flm. þessa frv. leggja til.
    Mig langar líka að gera örlitlar athugasemdir við tölur í sambandi við kostnað sem hér eru birtar. Það t.d. slær mig mjög að sjá að það hjá 12 ára barni --- hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir færir þá kannski frekari rök fyrir því að þetta rétt --- að tannréttingakostnaður hjá 12 ára barni sé að meðaltali meiri en fæðiskostnaður, með öðrum orðum 65.000 kr. á ári. Vissulega kom fram í umræðum hér í gær að tannréttingakostnaður er mikill en ég á bágt með að trúa því að þetta sé tala sem hægt er að nota til viðmiðunar ef það ætti að fara að reikna út meðlagsgreiðslur til barna.
    Það var vitnað í ummæli Guðmundar Ólafssonar hagfræðings sem er gjarnan hressilegur í tali þegar hann tekur til máls. Ég held hins vegar að það sé ýmislegt til í því sem hann segir því að í kjölfar skilnaðar sé það oft þannig að karlmaðurinn fari ekki sérlega vel út úr honum. Nú get ég ekki talað af neinni reynslu þannig að ég ætti ekki að vera að

hætta mér út á þennan hála ís, en hins vegar hefur maður heyrt fjöldann allan af lýsingum á því að þeir verði bæði húsnæðislausir og nánast á hrakhólum eða í forstofuherbergjum, eins og Guðmundur kýs að kalla það, eftir að hafa gengið í gegnum slíkt. Ég held að jafnvel þessar upphæðir þótt ekki séu háar, ég er sammála því, geti verið mönnum sem eru komnir í slíka aðstöðu erfiðar viðureignar.
    Ég vil segja það að lokum að ég fagna þessari umræðu, þó að ég telji hana ekki alveg vera á þeim nótum sem ég hefði talið æskilegt að ræða þessi mál því að undirrót vandamálanna er fyrst og fremst aðbúnaður að fjölskyldunni í landinu en ekki endilega aðbúnaður einstæðra foreldra.